Fyrir nokkru skrifaði ég grein um svokallaðar Teddy stelpur en þær voru á ferðinni í Bretlandi upp úr 1950 og þróuðu með sér sína eigin, sérkennilegu tísku.
Það sama var uppi á teningnum annarsstaðar í Evrópu en þessir villingar bjuggu á sömu árum í Sviss og litu mjög svo upp til kóngsins Elvis Presley. Svo mikið að þeir bjuggu til sitt eigið tískukölt í kringum hann með tilheyrandi heimatilbúnu skrauti. Það er einmitt svo skemmtilegt hvernig ákveðin tískutrend geta gripið um sig í litlum hópum. Trend sem sjást hvergi annarssstaðar og þykja almennt frekar spes.
Myndir þessar eru fengnar að láni úr bókinni Rebel Youth eftir ljósmyndarann Karlheinz Weinberger (1921-2006). Sá sérhæfði sig í erótískri hommaljósmyndun og þótti heldur betur bíta á þegar hann kynntist þessum gengjum í Sviss sem höfðu blandað bandarískri dægurmenningu við það sem þeim fannst af einhverjum ástæðum bæði kúl og töff.
Meðal þessa mátti nefna risastórar sylgjur sem hafa líklegast verið barðar eftir kúnstarinnar reglum við eldhúsborð ásamt gríðarlega stórum byssukúlum, keðjum og auðvitað myndir af frelsara rokksins, Elvis Presley, þar sem hægt var að koma þeim við. Bara því stærra því betra.
Sérdeilis spes voru aðferðir þeirra til að loka gallabuxunum sínum en rennilásarnir áttu ekki beint upp á pallborðið. Betra að loka með risastórum skrúfum, snæri, belti og skeifu eða risastórum sylgjum.
Útkrotaðar buxur þeirra komu löngu, löngu fyrir daga Sex Pistols en í raun má segja að hérna renni saman undanfari pönksins, hipp hopp tískunnar og svo auðvitað rokkabillý.
Skemmtilegir menningarstraumar og greinilegt að það er ekki margt nýtt undir sólinni þegar kemur að tískunni. Á myndinni fyrir neðan má jafnvel greina áhrif á Dolce Gabbana í jakkanum.
Lestu meira um þessa bráðskemmtilegu bók Rebel Youth HÉR.
Leikstjórinn John Waters skrifar formála bókarinnar, enda mikill áhugamaður um unglingamenningu eftirstríðsáranna.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.