Konan á bak við Kríu skartgripi, Jóhanna Methúsalemsdóttir, sendir frá sér nýja línu á næstu vikum. Línan hefur fengið nafnið Endurholdgun eða Incarnation og er væntanleg í verslunina Aftur um miðjan Apríl.
Með nýju línunni markast ný stefna fyrirtækisins, – að endurvinna alla málma og önnur hráefni sem notuð eru við skartgripasmíðina og gefa þannig gömlum munum nýtt líf.
„Ég er að gefa gömlum munum nýtt líf með því að endurvinna skartið. Þannig verður kannski hringur að hálsmeni og öfugt. Línan er innblásin af hringrás náttúrunnar. Endurholdgunin sjálf er síendurtekin þar sem munirnir eru unnir úr endurunnum málmum og halda áfram að endurtaka munstur og tálmyndir þeirra,” segir Jóhanna og bætir við að hún hafi lengi haft það á prjónunum að byrja að endurvinna munina.
„Þetta hefur verið mikið atriði fyrir mig þar sem þetta er minn lífsstíll yfirhöfuð. Að endurnýta, endurvinna, sjálfbærni… Í þessari línu voru nokkur stykki gerð út frá öðru skarti sem ég hef nú þegar gert en var sett saman á annan hátt, til dæmis með því að pússa og klippa til. Til dæmis varð men að hring og svo framvegis. Þetta er karmað.”
Eins og flestir sem kannast við skartið frá Kríu vita sækir Jóhanna innblástur sinn til náttúrunnar. Skartgripirnir tengjast oft beinum, dýrum og fjölbreyttum og fallegum mynstrum náttúrunnar sem eru í senn lífræn og dulúðleg.
„Nýja línan verður komin í verslunina hjá Aftur um miðjan Apríl og á vefinn hjá Kria Jewlery í byrjun Maí,” segir Jóhanna en Kría skartið fæst einnig hjá Aurum og í Mýrinni.
Að lokum er gaman er að geta þess að ég tók skemmtilegt viðtal við Jóhönnu sem birtist á Pjattinu fyrir um fimm árum Smelltu HÉR til að lesa það.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.