Eitt af því sem einkennir tískuheiminn, og virðist aldrei ,,detta úr tísku” er að æskan er allt. Tíska gengur út á að allt sé nýtt, ferskt og ungt. Aldur er viðkvæmur fyrir margar tískudrósir og það að færast yfir á elliárin er algjört fashion-faux-pas.
Fyrir stuttu var frumsýndur í Bretlandi fyrsti hluti af heimildarmyndaseríunni Fabulous Fashionistas sem fjallar um sex konur sem alla eru komnar eru á efri árin en neita að láta samfélagið segja sér hvernig þær eigi að líta út.
Þar kom meðal annars fram hin 75 ára gamla Jean Woods sem deilir sama tískusmekk og Miley Cyrus og lætur sér fátt um finnast. Hún starfar í tískuvöruverslun í Bath á Englandi og lætur ekki aldur, hnéaðgerðir né álit annarra stoppa sig í að klæða sig samkvæmt nýjustu tísku.
Bridget Sojourner er einnig 75 ára og hefur um 100 pund til að lifa á út vikuna. Hún hefur mikinn áhuga á tísku og segist njóta þess að dressa sig upp. Því brá hún á það ráð að versla föt í svokölluðum Second-hand verslunum. Þar grefur hún upp allskonar gersema og hefur þannig tileinkað sér bæði sérstakan og persónulegan stíl.
Gillian Lynne , sem er fyrrum ballettdansari, gæti þóst vera undir sextugt en er í raun 87 ára gömul. Hún æfir daglega og sér ekki tilganginn í því að vera í síðum pilsum og ganga um hokin af elli.
,,Ég hef alltaf verið með fallega leggi og þess vegna finnst mér allt í lagi að ganga í míní-pilsum og sýna þá. Maður verður að sleppa tökunum af því að eldast.”
Tískudrottningarnar í Fabulous Fashionistas eru hverri annarri flottari og gætu komið í staðinn fyrir hvaða tuttugu-og-eitthvað-ára tískubloggara sem er.
Þær sýna það og sanna að aldur er afstæður og hefur ekkert að gera með lífstíl og útlit, því þarf hvorki að óttast ellilífeyrisaldurinn né það að segja skilið við áhugann á tísku.
Það besta við Fabulous Fashionistas er að það er hægt að verða fullorðinn og njóta þess, en ekki að lifa í skugga æskunnar. Ef eitthvað er að marka þessar frábæru konur þá verður maður bara flottari og flottari með aldrinum.
Ég get allavega ekki beðið eftir að verða skvísa með ellilífeyrisþegaafslátt!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.