Í febrúarhefti rússneska Vogue gefur að líta afskaplega fallega editorial myndatöku. Þessi myndataka er um margt merkileg en myndirnar tók Jason Schmidt af Denisa Dvarakova, 22 ára gamalli tékkneskri fyrirsætu sem er búin að koma sér vel fyrir í bransanum.
Myndirnar sýna Denisu í öllum heitustu vetrar-trendunum og skartar hún fjöðrum, organsa og silki í þessum fallega “nude” tón sem hefur verið að tröllríða rauðu dreglunum beggja vegna Atlantshafsins.
Þetta eru ótrúlega ljóðrænar og dramatískar myndir, lýsingin er nánast fullkomin og andstæðurnar sem skapast þegar módelinu er stillt upp á móti heilu flokkunum af ballerínum eru vægast sagt skemmtilegar.
Þetta er þó kunnuglegt stef hjá Jason sem hefur oftsinnis teflt fram þessum sömu “elementum” og það með góðum árangri eins og sést á meðfylgjandi myndum sem teknar eru á undan Vogue myndatökunni.
Annað það sem gerir þessa editorial myndatöku merkilega er staða Viktoriu Davydova sem vermt hefur ritstjórastólinn í rússneska Vogue í rétt rúman mánuð.
Hennar fyrsta blað var vægast sagt umdeilt þar sem hún valdi að skarta uppgjafa fimleikastjörnu og meintri ástkonu Putins á forsíðunni. Ekki nóg með að fortíð og framkoma hennar hafi vakið reiði rússa, heldur íklæddist hún gullslegnum Balmain kjól sem muna mátti fífil sinn fegri að mati tískuspekúlanta, því hann hafði verið notaður 7 sinnum áður á forsíðu stærri tískublaða.
Sömu spekúlantar spáðu Viktoríu skammlífi í stólnum vegna þess hve fyrsta forsíðan var illa heppnuð en ef þetta er dæmi um það sem koma skal, þarf hún ekki að óttast.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.