Hún Christine Di er kínversk en hefur meira og minna búið á Íslandi síðastliðin 15 ár. Fyrir mörgum árum var hún með verslun á Laugavegi sem hét Tamten og seldi hún þar kínverskar silkivörur.
“Núna hef ég opnað netverslun sem heitir Kimono. Nafnið kemur frá Japan en Kimono þýðir fatnaður og mér fannst nafnið henta vel þar sem ég er með margar vörur með kimono sniði,” sagði Christine þegar ég sló á þráðinn til hennar um daginn en persónulega finnst mér alltaf kimono afar flott flík og þær flíkur sem þau eru með hjá Kimono eru alveg meiriháttar fallegar.
“Við bjóðum upp á fatnað úr silki og satíni með kimono sniði sem er mjög vinsælt í dag. Sem dæmi kimono kjóla og boli. Auk þess erum við með leggings, bómullarboli, pils og töskur. Afar fjölbreytt úrval,” segir Christine en vörurnar koma frá Asíu, þá aðallega Kína og Kóreu.
Spurð að því hvað henni finnist um íslenska hönnun segir Christine að sér þyki hún skemmtileg og sérstök. Öðruvísi og lýsi sérkennum íslenskrar menningar en uppáhalds flíkin hennar er ekki íslensk hönnun:
“Mamma mín gaf mér fallegan silki slopp fyrir mörgum árum sem mér hefur alltaf þótt mjög vænt um. Ég passa vel upp á hann, kannski einum of vel því ég hef einungis notað hann tvisvar sinnum en annars er hann fallega brotinn saman í kassa sem er sérstaklega undir hann.”
“Uppáhalds íslenska hönnunin mín er E-label en af erlendum hönnuðum hefur Chanel verið lengi í uppáhaldi en nýlega hefur mér farið að líka mjög vel við Alexander Wang,” segir Christine að lokum.
Kimono er með heimasíðu www.kimonoisland.is og þau eru á Facebook líka.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.