Já… þarna eru tvö orð sem ég hélt að ég myndi aldrei, endurtek ALDREI…. nota saman -Chanel og bútasaumur…. eru þeir að missa það þarna í rue Cambon ?
Ég elska Chanel og hef fylgt merkinu fast í gegnum árin. Í stað eftirlaunasjóðar safna ég í Chanel-töskusjóð og læt mig dreyma um að eignast einn daginn svoleiðis kjörgrip. Ég hef getað legið yfir myndum af nýjustu afurðunum þeirra eins og um væri að ræða líflínu en einhverra hluta vegna var ég ekki fyrr en nú búin að sjá þessar myndir af fylgihlutunum úr Resort línunni 2011.
Resort/Cruise línu CHANEL hafa oft fylgt mjög sumarlegar og sætar töskur í pastel litunum, gjarnan með strá-vefnaði, slæðum eða einhverjum öðrum álíka sumarlegum strand tilvísunum. Þeir sem þurfa ekki að safna árum saman fyrir tösku geta leyft sér að kaupa svona gripi án þess að spá í hvort þeir eldist vel eða séu klassískir, annað en við hin 99% jarðarbúa. Ég myndi því sjálf aldrei velja mér neitt úr þessari línu en henni hefur yfileitt verið vel tekið af bæði spekúlöntum og efnafólki.
Þegar ég var búin að sjá þessa tösku ásamt nokkrum öðrum álíka ljótum úr sömu línu ársins 2011, fór ég hringinn á töskubloggunum til að athuga hvernig þeim hefði verið tekið af gagnrýnendum þar. Og viti menn, almennt var talið að þetta væri illa heppnað, illa ígrundað og illa útfært flipp hjá Lagerfeld sem hefði algjörlega mistekist að skírskota í þetta “handmade” trend sem væri í gangi .
Ég reyndi líka að finna myndir af “selebbum” sem höfðu verið spottaðir með svona tösku til að reyna að átta mig á hvort hún hefði, þrátt fyrir alla gagnrýni, náð einhverjum vinsældum. Ég gúgglaði mig til Kualalumpur og til baka og hafði uppúr krafsinu eina mynd….. vandamálið var bara að það virtist enginn þekkja “selebbið” 😉
Ekki oft sem meistari Lagerfeld misstígur sig svona illilega… Sammála ?
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.