Kvikmyndagagnrýni er ekki mitt fag og það hrista líklega flestir hausinn þegar ég segi að mér finnast ævintýramyndir á borð við Hunger Games leiðinlegar. Já, þú last rétt!
Þrátt fyrir þetta áhugaleysi mitt á ævintýramyndum lét ég slag standa og skellti mér á þessa margumtöluðu nýju Hunger Games mynd og skemmti mér konunglega… við að sjá alla þessa trylltu búninga! Söguþráðurinn er annað mál sem ég læt aðra dæma um.
Það er Trish Summerville sem hannar búninga myndarinnar. Trish er stílisti og búningahönnuður og þykir nú ein eftirsóttasta á sínu sviði í Hollywood. Fyrsta hlutverk hennar í kvikmyndaheiminum sem búningahönnuður var í sænsk- ættuðu myndinni The Girl With the Dragon Tattoo. Áður hefur hún stíliserað stjörnur fyrir tónlistarmyndbönd, auglýsingar og rauða dregilinn.
Í framhaldi af hönnun sinni fyrir Hunger Games myndina hefur Trish hannað fatalínu í samvinnu við net-a-porter sem innblásin er af búningum myndarinnar.
Fatalínan heitir Capitol Couture og inniheldur 24 hluti, bæði fatnað og fylgihluti. Þetta er skemmtileg og smart lína sem fæst í netversluninni net-a-porter.
Hér fyrir neðan getið þið séð nokkrar klippur úr myndinni og frammistöðu Trish. Það er óhætt að segja að hún hafi gefið sköpunargleðinni lausan tauminn.
Útkoman er glæsileg, svo glæsileg að ég bíð spennt eftir framhaldsmynd og vonast eftir jafn skemmtilegum búningum!
Eydís Halldórsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Fædd og uppalin í Eyjum, hefur verið búsett í Reykjavík síðustu ár en býr nú í Barcelona þar sem hún stundar mastersnám og nýtur lífsins. Tíska og hönnun er hennar helsta áhugamál. Eydís er tvíburi samkvæmt speki stjarnanna, fædd í maí 1990. Mail: eydishalldors@gmail.com