Okkur þykir oft Ísland lítið og getum tengt nánast alla saman á einn eða annan hátt, en fæstir vita að heimurinn virðist líka mjög lítill þegar út fyrir landsteinana er komið.
Tökum tískuheiminn sem dæmi, þegar maður hefur fengið nasaþef af honum og byrjar að kynnast honum minnkar hann og minnkar og maður nær fljótlega að tengja alla saman.
Sérstaklega áhugavert þykir mér að í Bretlandi virðast nánast allar topp-fyrirsæturnar vera annað hvort af konunglegum ættum eða dætur rokkstjarna.
Það mætti segja að hefðarfrúr okkar tíma eru toppmódelin. Af fyrirsætum með blátt blóð í æðum (mismikið útþynnt) má nefna Stella Tennant, Rosie Huntington Whiteley, Poppy og Cara Delevigne..
Stella Tennant
…er barnabarn hertogans og hertogagynjunnar af Devonshire annars vegar og Glenconner baróns og frú hins vegar. Stella byrjaði feril sinn snemma á tíunda áratugnum og skar sig sérstaklega út fyrir strákslegt útlitið og pönkara-yfirbragðið en hún var m.a. með “nauta-lokk” í nefinu. Steven Meisel og Bruce Weber voru báðir heillaðir af Stellu frá byrjun og hún hefur átt mjög farsælan feril og er enn að í dag orðin 41 árs gðmul.
Rosie Huntington-Whiteley
…er barnabarnabarn sir Herbert Huntington- Whiteley baróns. Rosie er m.a. Victoria´s secret engill, hefur setið fyrir í ótal herferðum tískurisanna og leikið í Transformers mynd. Hún var einnig kosin kynþokkafyllsta kona heims af karlatímaritunum FHM og Maxims. Rosie og Tyrone sonur Ronnie Wood úr Rolling Stone voru par um tveggja ára skeið (tenging við rokkarana) en hún er nú í sambandi með hinum ofurflotta leikara Jason Statham.
Poppy og Cara Delevigne
…eru barnabörn Sir Jocelyn Stevens, fjölmiðlarisa og Janie Sheffield ( hirðmær Margrétar bretaprinsessu) Systurnar tengjast einnig rokkaradætrunum,gengu i einkaskóla með Liz og Georgiu dætrum Mick Jagger, ásamt því að Cara er besta vinkona Coco Sumner dóttur Sting og Jazzy de Lisser (stjúpdóttir greifans af Bute). Poppy komst ung í bransann í gegnum klíkuskap eins og flestar hinar sem ég hef nefnt hér að ofan og hefur getið sér gott og setið fyrir hjá m.a. Anya Hindmarch, Mango og Burberry. Cara yngri systir hennar fylgir fast á hæla hennar og er nýtt andlit Burberry.
Það má með sanni segja, að ef þú ert ekki af konunglegum ættum eða afkomandi rokkstjörnu þá mátt þú eiga mjög erfitt með að komast áfram í hörðum fyrirsætubransa Bretlands.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.