Ef það er einhvern tímann tilefni til að klæða sig upp í sitt fínasta púss þá er það um áramótin. Í rauninni er allur klæðnaður leyfilegur en glitrandi pallíettur virðast seint fara úr tísku.
Svarti kjóllinn er alltaf sígildur, í öllum síddum. Ójöfn snið með klaufum og beru hér og þar er vinsælt um þessar mundir. Zara er með flott úrval af slíkum kjólum og svo eigum við konur flestar einn svartan kjól í fataskápnum sem hægt er að draga fram og nota nýtt skart við eða nýja skó.
Ég er ekki ennþá búin að ákveða hverju ég mun klæðast en er mjög hrifin af þröngum rúllukragakjólum í dag, þá sérstaklega hönnun Hildar Yeoman.
Hún hefur nú hannað ótrúlega flottu línu sem hún nefnir Flóra og samanstendur meðal annars af litríkum kjólum í margvíslegum printum. Línan Flóra eftir Hildi Yeoman er innblásinn af dulmagnaðri og kraftmikilli orku sem býr í náttúrunni. Uppúr henni vaxa grös, jurtir notaðar til að útbúa seiði sem búa yfir lækningarmætti en þau má einnig nota til að öðlast andlegan styrk eða til að tæla hjartað. Ég er sérstaklega hrifin af Black Magic og Bismuth printunum. Kjólarnir fást með og án rúllukraga í versluninni Kiosk á Laugavegi 65.
Hins vegar, ef þú ert ekki í kjólahugleiðingum en langar þó að breyta örlítið til þá eru um að gera að finna fína hvíta skyrtu í fataskápnum, kaupa svartan flauelis eða satínborða og binda sæta slaufu til að skeyta hálsmálið. Það er ótrúlega einföld og ódýr leið til þess að líta elegant út á augabragði. Þá er hægt að vera í þröngu leðurpilsi eða buxum við.
Áramótin eru til þess að skvetta aðeins úr klaufunum, kveðja allt hið liðna og hoppa inn í nýja árið með glæsibrag. Meira glingur, meiri hlátur, meiri gleði, meiri kossar og kærleikur. More is more!
Gleðilegt ár og megi nýja árið verða töfrum líkast. Ást og friður ❤️
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!