Alveg síðan 90’s tímabilið leið hefur mig langað að upplifa það aftur. Það er ekki endilega vegna þess að mig langi í það tímabil í lífi mínu aftur, mig langar bara í kvikmyndirnar, tónlistina og fötin (og stundum internet og gemsaleysið).
Þó mér finnist meirihlutinn af þessu öllu í dag vera skemmtilega hallærislegt þá veit ég að ég á alltaf eftir að sakna tímans sem ég hlustaði á Fugees, gekk í um í magabol og horfði á Clueless að minnsta kosti einu sinni á dag.
Ég man eftir því að hafa keypt þó nokkuð af fötum á þessum tíma sem mamma mín dæsti yfir og fussaði yfir því hvað tískan gengi í hringi.
Ég auðvitað trúði henni ekki og fannst tískan sem ég klæddist og tískan sem hún hafði klæðst þegar hún var yngri tveir mjög svo ólíkir hlutir. Mér fannst þetta vera nokkuð einfalt dæmi:
Fötin sem hún hafði gengið í voru hallærisleg, fötin sem ég var í voru töff.
Núna þegar ég er orðin aðeins fullorðnari er ég farin að sjá betur hvað mamma var að tala um. Það er þá líklega að stórum hluta vegna þess að í dag finnst mér fötin sem ég gekk í ekki alveg jafn töff og mér fannst þá. Þannig að núna er ég byrjuð að upplifa það sem líklega flestar aðrar konur yfir tvítugu hafa einhvertíma upplifað, að sjá flíkina sem þær langaði svo mikið í þegar þær voru yngri koma aftur í tísku.
Þráði að eignast smekkbuxur
Fyrsta flíkin sem ég man eftir að hafa virkilega langað í eru smekkbuxur, þá var ég 8 ára og árið var 1994.
Ég man ennþá eftir 9 ára afmælinu þegar ég loksins fékk smekkbuxurnar og fór varla úr þeim í frekar langan tíma eftir það. Á þeim tíma voru smekkbuxur mestmegnis barnatíska en á seinustu misserum hefur verið hægt að sjá smekkbuxur í ýmsum útgáfum á sýningapöllum og um daginn sást Katie Holmes meira að segja spóka sig um með dóttur sinni í einu stykki smekkbuxum. En eins og er orðið frægt þá komust boyfriend buxur í tísku á skömmum tíma eftir að hún byrjaði að ganga í þeim -hver veit nema það muni líka gerast með smekkbuxurnar?
Hermannaklossar og hnésokkar
Annað sem ég man að mig langaði mikið í eru hnésokkar. Ég kenni Aliciu Silverstone og Clueless algjörlega um það tímabil í mínu lífi. Því miður eignaðist ég aldrei hnésokka á þeim tíma og kannski er það þess vegna sem mig langar ennþá í par í dag…16 árum síðar.
Hver man svo ekki eftir uppreimuðu hermannklossunum, sem allir áttu í einhverri útgáfu? Ég man ennþá eftir parinu sem ég átti. Þeir voru brúnir og mér þótti ótrúlega vænt um þá, þó að ég öfundaði systur mína svakalega af hennar pari sem var svart.
Mér finnst skótískan í dag reyndar öll eins og hún leggur sig á einhvern hátt minna á þá sem var þegar ég var barn og unglingur, þó mér finnist hún mun fallegri núna heldur en hún var þá.
Það sem ég þakka hinsvegar fyrir á hverjum degi er að Buffaló skórnir séu enn ekki komnir aftur svo nú bíð ég bara og vona að það muni ekki gerast!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.