70s tímabilið kom sterkt inn sem innblástur marga tískufrömuða í sumar og mun halda áfram í vetur. Útvíðar buxur, blómamunstur á mussum og skyrtum, blúndubolir, stórar ermar, stórir hattar, túrbanar, pelsar og hnéhá stígvél.
Allt þetta er komið aftur í tísku. Hár – og förðunartískan hefur einnig fylgt fast á eftir. Verslanir á borð við Gina Tricot bjóða upp á mikið úrval af flottum skyrtum og buxum í þessum stíl á góðu verði. Síðast þegar ég gekk í svona mikið útvíðum buxum rótuðum við vinkonurnar í kössum í Spútnik sem þá var staðsett í litlu kjallarahúsnæði í miðborginni. Upp úr krafsinu fundum við fullkomnar útvíðar gallabuxur og bæði leður og rússkinnsjakka í öllum regnbogans litum. Svo hlustuðum við á lög á borð við Groove is in the heart með Dee-Lite.
Já við vorum hrikalega töff. 70s tímabilið hefur alltaf heillað mig og ég er að elska leðursamfestingana sem viðbót í þessa tískuflóru. Sunnudagsinnblástur minn er því tileinkaður þessum tíma.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=etviGf1uWlg[/youtube]
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!