„Kannski er hann perri. Ég verð að testa það“ sagði ein vinkona mín fyrir sirka tuttugu árum þegar hún leitaði að ástinni á Einkamálum. Hún sagði mér að hún væri búin að gera auka prófíl þar sem hún þóttist vera átján ára stelpa og byrjað að tala við einhvern mann sem hún var farin að fíla eftir nokkurra daga spjall. Það leið ekki langur tími þar til hann beit á agnið og fór að klæmast í unglingnum.
Mér hefði aldrei dottið þetta í hug en þvílíkt snjallræði! (vinkonan er vísindamaður í dag). Ef gaurinn væri til í að tala við svona unga stelpu þá var hún vinkona mín svo sannarlega ekki til í að tala við hann. Hún henti honum að sjálfssögðu í ruslið og hélt leitinni áfram.
Nú er enginn á einkamál lengur heldur nota allir hið sveitta forrit Tinder við leitina að ástinni… nú eða einhverju holdlegra. Fólk á mínum aldri virðist reyndar flest alveg gríðarlega ringlað og eru menn (og mjög margar konur) aðallega að reyna að finna sér eitthvað „rebound “ til að hossast með eftir hundrað ára hjónaband, eða vita bara akkúrat ekkert hvað þau eru að gera. Þetta gildir samt ekki fyrir alla. Sumir eru alveg með það á tæru hvort þau vilja kynlíf eða ást og vinna markvisst út frá þeim forsendum. Þetta er best. Svona ættu allir að gera.
Vinur minn einn er til dæmis ekki að leita að ríbándi heldur góðu og heiðarlegu sambandi og er mjög skýr með það en vá hvað þetta gengur treglega hjá honum. Það er ekkert að þessum manni. Hann er í góðu djobbi, hreyfir sig daglega og er laus við mikla ást á áfengi. Fínn strákur bara. Því miður hefur þetta verið þannig að flestar konur sem hann byrjar að tala við eru nýskriðnar út úr samböndum og bakka þegar þær fatta að okkar maður er aðeins dýpri en svitapollur í ljósabekk. Þær eru semsagt alls ekki tilbúnar í nýtt samband en láta alveg vera að segja það í upphafi. Nota hann bara til að jafna sig. Þetta er augljóslega ekki sanngjarnt gagnvart vini mínum sem er heiðarlegur með hvað hann vill.
Persónulega er ég ekki að leita að ástinni núna (og hvaaaað þá á Tinder) en stundum svæpa ég þar í forvitni undir fölsku flaggi með vinkonum mínum. Við notum einkamálatækni vísindakonunnar og þykjumst vera skanký hó Bónusskinka sem er orðin baneitruð af allskonar litarefnum í húð og hári. Tútturnar velta nánast út úr símanum í þrívídd. Hún er nítján ára naglafræðingur sem elskar bjór en hún er fótósjoppuð úr nokkrum andlitum og er því ekki til. Köllum hana samt Bíbí. Heiðvirðir menn (amk út á við) sem hefja spjall við Bíbí fitta þannig ekki inn í kríteríuna sem vinkonur mínar eru búnar að setja. Ekki einu sinni sem ástmenn enda er þetta aaaðeins of sveitt. Bíbí er svona eins og lögga sem dulbýr sig og fer í undirheimana til að veiða glæpamenn. Það má.
Svo varúð kæru karlar. Á Internetinu er ekki allt sem sýnist og þannig verður það aldrei. Þetta á fólk að vita. Þið vel menntuðu miðaldra millistéttarmenn verðið bara að ákveða ykkur hvort þið ætlið að væna og dæna einstaklinga sem standa ykkur jafnfætis í lífinu, eða eltast við fólk sem er orðið greindarskert og minnislaust af ofnotnun aflitunarefna og stera í þeim tilgangi að tappa af. Það er nefnilega ekki sanngjarnt að fokka í öðrum.
Þið vitið vel að Ólafur Ragnar myndi aldrei byrja með týpu eins og Katie Price. Reynið ekki einu sinni að halda því fram. Nú eða að hann Guðni Th. myndi taka sér Snookie sem eiginkonu nr tvö (þó Snookie yrði örugglega hæstánægð með að byrja með forseta). Það er bara þannig.
Góðar stundir.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.