Þyri Huld Árnadóttir sló í gegn í fyrstu seríunni af Dans Dans Dans og heillaði þar áhorfendur upp úr skónum sem kattliðuga dansdýrið.
Þyri hefur ferðast um heiminn og sýnt verk, dansað með Íslenska Dansflokknum og kennt lengi hjá bæði danslistaskóla JSB og Listdansskóla Íslands en sem atvinnudansari er hollt matarræði og hreyfing stór hluti af hennar vinnuviku enda er konan með B.A gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands og starfar sem dansari.
Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Ég lifi fyrir einn dag í einu og hef gaman að öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Það skiptir mig líka miklu máli að horfa jákvæðum augum á allt sem er í kringum mig. Hreyfing og hollt mataræði er einnig stór partur í því að halda góðri heilsu.
Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?
Ég hreyfi mig alla daga nema sunnudaga, vinnan mín snýst auðvitað um að hreyfa sig. Það er misjafnt eftir því hvernig verkefnum ég er í, hvort ég hreyfi mig aukalega með. Ég sippa mikið, fer út að hlaupa og stunda jóga.
Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Ég gæti aldrei sleppt því að hreyfa mig því um það snýst líf mitt. Ég á mjög auðvelt með að sleppa óhollum mat og gosdrykkjum en það sem ég gæti aldrei hætt að borða er epli með hnetusmjöri -það er það besta sem ég veit um!
Hvað færðu þér í morgunmat?
Í morgunmat fæ ég mér eggjaböku með banana. Þá tek ég eitt egg sem ég hræri saman við banana sem ég stappa og set á pönnu. Þetta verður eins og bananakaka. Með þessu drekk ég svo auðvitað vatn.
En á milli mála?
Þá borða ég mikið af hnetum og ávöxtum.
Uppskrift?
Ég hef gaman af því að prufa mig áfram í ýmsum heilsusamlegum eftirréttum, ég er nefnilega mikið fyrir eftirrétti. Hér er uppskrift af mjög góðri súkkulaðimús:
Súkkulaðimús:
- 1 avókadó (frekar stórt)
- 1 banani (stappaður)
- 4 matskeiðar kókosolía
- 3 matskeiðar hunang
- 3 matskeiðar kakó
- Smá vanilla
- Klípa af salti
Allt sett saman í blandara. Ef búðingurinn er þykkur þá er gott að setja vatn útí hann. Gott er að setja búðinginn í kæli áður en hann er borðaður. Ég set alltaf frosin bláber ofan á hann. Það er einnig gott að setja út mangó eða jarðaber.
Skiptir máli að vera töff í ræktinni? Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?
Í dansinum er ég yfirleitt í eldgömlum joggingbuxum og síðermabol. Því eldri og slitnari sem æfingafötin mín eru því meira held ég uppá þau. Þegar ég fer í ræktina hugsa ég ekki mikið um í hverju ég er, skelli mér í þröngar buxur og síðan bol.
Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Bróðir minn Björn Styrmir Árnason sem hefur snúið blaðinu við í mataræði og kynnti mig fyrir Paleo mataræðinu. Ég veit ekki töluna á þeim uppskriftum af góðum og hollum mat sem ég hef fengið hjá honum. Hann er líka fullur af fróðleik um allt sem tengist Paleo-mataræðinu og því er mjög gaman að spjalla við hann um mat.
Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein & lyftingar?
Ég er mikið fyrir lífrænan lífstíl. Ég stunda mikið jóga og finnst einstaklega gott að borða hollan mat. Ætli ég sé ekki því meira þessi lífræna týpa.
Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?
Nei, í raun bara alltaf það sama: Láta mér líða vel og vera hamingjusöm. Það er bara eitt líf sem maður hefur og það þarf að lifa því vel.
Það verður spennandi að fylgjast með hinni hæfileikaríku Þyri á næstu misserum en í janúar mun hún frumsýna verk í Þjóðleikhúsinu sem hún samdi ásamt Völu Rúnarsdóttur, Urði Hákonadóttur og Tinnu Ottesen.
Miðað við tilþrifin í Dans Dans Dans er enginn vafi á að sú sýning verði þess virði að fara á.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.