Við viljum allar vera með fallega snyrtar augabrúnir en sumar okkar hafa þó gengið of langt í plokkuninni/vaxinu og eiga í vandræðum með að fá fyllinguna sem við óskum eftir í ljósi þess að náttúrulegar, vel mótaðar og þykkar augabrúnir eru aftur í tísku.
- Láttu plokkarann fjúka… allavega upp að vissu marki. Leyfðu augabrúnunum að vaxa og plokkaðu bara aukahárin í burtu sem vaxa á augnbeininu.
- Góð þumalputtaregla þegar kemur að mótun er að taka blýant, tylla honum við nefið (Sjá mynd). Þegar hann vísar beint upp gefur það til kynna hvar augabrúnin ætti að byrja, svo vísarðu honum á ská yfir augað og þar sérðu hvar hæsti punkturinn á að vera. Síðast seturðu hann við enda augans frá nefi og þar er góður staður fyrir augabrúnina til að enda.
- Að fylla upp í augabrúnirnar segir sitt og getur verið mjög fallegt. Best er að taka annaðhvort augnskugga sem er tóni ljósari, tóni dekkri eða í sama tón og þínar náttúrulegu augabrúnir, skáskorinn lítinn bursta og fylla varlega upp í þær með augnskugganum. Svo virka augnbrúnablýantar líka mjög vel. Ekki fara of langt með þetta, þær geta orðið gervilegar ef það er gert.
- Varðandi mótunina er gott að hafa hana eins náttúrulega og hægt er, þ.e. ekki of skarpar og heldur ekki of rúnaðar. Hinn gullni meðalvegur er málið.
- Augabrúnanæring er fínn kostur ef maður á erfitt með að fá hárin til að vaxa. Hægt er að fá augnhára (augabrúna) næringu í flestum snyrtivöruverslunum og hún virkar að sjálfsögðu á bæði.
- Augabrúnarakhnífur er vandmeðfarin en sniðug uppfinning. Ég byrjaði á því að raka burt aukahárin í stað þess að plokka þau og þau fóru loksins að vaxa almennilega aftur eftir mikla baráttu. Það þarf samt að fara mjög varlega í þetta og passa að taka einungis hárin niðri við til að raka ekki augabrúnirnar af sér 😉
Hægt er að fá ráðgjöf hjá förðunarfræðingum og snyrtifræðingum varðandi hvað best er að gera en þetta eru hinsvegar góð byrjunarráð fyrir þær sem vilja fá náttúrulegt útlit. Hvílum ofurplokkunina og söfnum!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.