Húðlæknirinn minn hann Jón Þrándur sagði mér einhverntíma að rakastig á heimilum landsmanna væri stundum allt of þurrt og afleiðing af því stundum ástæða þess að við erum meira eða minna alltaf með þurra húð. Þá sérstaklega á veturna. Svo er það myglusveppurinn sem hefur valdið mörgum ómældum skaða, bæði hvað varðar heilsuna og fjárhagslega. Heilu húsin og vinnustaðirnir hafa verið tæmd eða rifin niður vegna þeirrar ástæðu að loftgæðin voru ekki nægilega góð.
Tómas Hafliðason hjá Íshúsinu gríðarlega fróður um þessi mál og því fékk ég hann til að fræða okkur nánar um áhrif og afleiðingar.
„Þar sem fólk sér ekki rakastigið í kringum sig með berum augum þá gleymist það gjarna að hafa þessi mál í lagi sem er ekki gott því loftgæðin haft mikil áhrif á umhverfið og okkur sjálf,“ segir Tómas.
„WHO (World Health Organization) telur að léleg loftgæði í íbúðum sem ein stærsta heilsuógn í vestrænum löndum. Við höfum ekki séð sambærilega rannsóknir hér á landi og líklega er ástandið betra hér en í mörgum öðrum löndum en við þurfum engu að síður að hugsa um þessa hluti.“
Er algengt að rakastig á heimilum á Íslandi sé of hátt eða lágt?
„Við sjáum um það bil jafn mörg tilfelli af fólki sem er með of hátt og of lágt rakastig heima hjá sér. Eldri rannsóknir bentu reyndar til þess að það væri mun algengara að rakastig væri of lágt á Íslandi en of hátt en á seinni tímum benda rannsóknir til að of hátt rakastig sé að verða algengara á Íslandi en áður. Þetta birtist til dæmis í aukningu á myglusvepp, þar sem of hátt rakastig er ein helsta ástæðan sem liggur þar að baki.“
Rakamælar skipta gríðarlegu máli
Hvernig er hægt að finna út úr því hver staðan er heima hjá manni?
„Besta leiðin er einfaldlega að fjárfesta í rakamæli. Jafnvel þó við höfum engan sérstakan grun þá ættum við að eiga hita og rakamæli heima hjá okkur, bara að fylgjast með stöðunni. Þetta eru mjög ódýr tæki sem geta sparað okkur gríðarlega fjármuni á endanum [innskot: þau kosta frá sirka 1500 kr]. Ef fólk vill ekki kaupa sér rakamæli þá er líka hægt að fylgjast með heima. Fyrstu vísbendingar fyrir of lágu rakastigi eru til dæmis meira ryk sem svífur lengur í loftinu og stöðu rafmagn, svo finnum við yfirleitt fyrir líkamlegum áhrifum. Fyrsta vísbending á of háu rakastigi er raki í gluggum á köldum dögum.“
Síðar kom í ljós að þessi skóli var á kafi í myglu.
Hvað er fullkomið rakastig inni á heimili?
„Það er í raun ekki til neitt fullkomið rakastig – menn hafa ólíkar skoðanir á því. Flestir eru þó sammála um að heppilegasta rakastigið sé á milli 40-50%. Við þolum samt bæði hærra og lægra. Ástæðan fyrir því að hið fullkomna rakastig er ekki til er sú að afleiðingarnar af mismunandi rakastigi eru ólíkar. Til dæmis þá fjölga bakteríur sér betur í of háu rakastigi en eiga auðveldara með að dreifa sér í of lágu, því eru þær bæði inni fyrir of hátt og of lágt rakastig.“
Gæti verið að rakastigið hér á landi sé almennt undir því sem er æskilegast?
„Við erum almennt nokkuð heppin með rakastig hér á landi. Oftast jafnar rakastigið sig inni með því að lofta vel en mestu áhrifin finnum við á veturna þegar það er mjög kalt úti, þá er rakinn í loftinu lítill og mesta hættan á að það verði of lágt rakastig inni hjá okkur með tilheyrandi óþægindum. Eldri rannsóknir sýndu einmitt að það var mjög algengt að rakastig væri of lágt innandyra hérlendis og lengi vel var jafnvel fullyrt að of hátt rakastig þekktist ekki hér landi. Þær raddir hafa þó þagnað eftir að það varð svona mikil umræða um myglusvepp, það er alveg ljóst að hér á landi eru bæði til húsnæði með of lágu og of háu rakastigi,“ segir Tómas og bætir við að þetta geti átt sér stoð í byggingaraðferðum okkar.
„Við fórum að byggja þéttari húsnæði hér á landi án þess að bæta við loftunina. Á köldustu dögunum erum við mest innandyra og þá eru minni líkur á að við séum að opna glugga eða hurðir því við viljum ekki hleypa inn kuldanum en ef það er ekki næg loftun og húsið er mjög þétt þá getur rakastig farið mjög hratt upp.“
„Fólk talar um þurrk í augum og hálsi“
Hvað segir þú um líkamleg einkenni þess að rakastig á heimilinu sé of lágt?
„Fyrstu vísbendingar eru alltaf þær sömu: Fólk talar um þurrk í augum og hálsi. Við erum auðvitað ekki læknar en hlustum samt á hvað fólk er að segja okkur til að ráðleggja hvort það þurfi að fá sér tæki. Ef þetta eru einkennin mælum við alltaf með því að fá sér strax rakamæli til að komast að því. Næst á eftir koma lýsingar eins og varaþurrkur, þurrkur í húð, þurrkur í öndunarvegi og áhrif eins og asmi eða ofnæmisviðbrögð. Það er alveg víst að við bregðumst ólíkt við, ég gæti t.d. fundið fyrir þurrki í augum á meðan einhver annar fyndi fyrir þurrki með þurrki í augu eða bara alls ekki,“ segir Tómas og bætir við að fyrir utan þessi beinu áhrif þá bendi vísindamenn (Arundel) á hin beinu áhrif sem margir líta framhjá.
„Það er meira ryk sem svífur lengur í loftinu í þurru umhverfi. Svona eins og þegar við göngum þurran malarveg þá þyrlast miklu meira af ryki upp þegar það er mjög lágt rakastig. Í rykinu sem þyrlast upp getur svo verið allskonar óþverri sem okkur langar ekkert til að anda að okkur eins og bakteríur og vírusar og því er talin meiri hætta á að smitast á þessum tíma. Ef við erum viðkvæm fyrir út af því háls er þurr og þá er meiri hætta á að við smitumst. Óbeinu áhrifin eru hinsvegar meiri en það er mun erfiðara að mæla þau og því eru ekki allar rannsóknir samhljóða.“
„…rakastigið fór niður í 10% og mikið var um veikindi“
Getur verið að fólki yfirsjáist þetta oft? Halda til dæmis að augnþurrkur, stíflað nef og svo framvegis stafi af öðru?
„Já það er alveg 100% öruggt. Ég held þó að ástand heimila sé oftar í lagi og það séu miklu meiri brotalamir á vinnustöðum. Bara eitt nýlegt dæmi sem kom inn á borð hjá mér var vinnustaður þar sem rakastigið fór niður í 10% og mikið var um veikindi. Í kjölfarið var farið í veigamiklar lagfæringar á loftgæðum og niðurstaðan var miklu betri vellíðan og færri veikindadagar. Ég held að þetta sé samt algengara en við höldum en menn eru bara ekki að mæla. Ég fékk kennara til mín sem keypti mæli til að mæla á vinnustaðnum sínum vegna þess að hún fann fyrir vanlíðan, stuttu síðar kom hún með mælinn til baka því yfirmaður hennar hafði neitað að greiða fyrir hann. Síðar kom í ljós að þessi skóli var á kafi í myglu. Umræðan í kjölfarið í fjölmiðlum snérist svo öll um hversu marga milljarða kostaði að laga skólann en ekki orð um líðan nemenda og starfsmanna sem þarna unni eða hvað þá um möguleg varanleg áhrif á þetta fólk. Mér finnst þessu snúið á haus og við eigum langt í land þegar umræðan er ekki lengra komin en þetta.“
Verðmunur á rakatækjum
Hvaða áhrif hefur a) of lágt rakastig á innbú og heimili og b) of hátt?
„Það þarf ekki að hafa nein áhrif í fyrstu en langvarandi þurrkur eða rakastig hefur áhrif á innbú. Við höfum öll komið inn í raka kjallara eða rými og þá finnum við rakalyktina, hluti sem hafa myglað, málning sem hefur flagnað af og svo framvegis. Það eru ótrúlega mörg dæmi um það á Íslandi þar sem mygla hefur komist í innbú að það þurfi hreinlega að henda öllu – eða svo gott sem öllu.“
Hvers vegna er svona mikill verðmunur á rakatækjum?
„Það er oftast tæknin sem er notuð til að gefa frá sér raka og svo eru auðvitað misþekktir framleiðendur og mismunandi hönnun. Oftast þykja svissnesku tækin best en þau eru jafnframt dýrust.
3 tegundir algengra rakatækja:
- Ultasonic – Tæknin nota hátíðni til að búa örlitlar vatnsperlur sem loftið á svo auðvelt með að grípa í sig. Þetta eru afkasta mikil og ódýr tæki og algengustu tækin á markaðnum. Gallinn við þessi tæki er að það fer allt með í loftið, ef það eru óhreinindi í vatninu fer það líka út í loftið. Þau taka heldur ekki tillit til þess hvort loft er rakamettað – til þess þurfum við rakastýringar. Það þarf að passa líka vel að það fari ekki óhreinindi í búnaðinn, því hann getur verið fljótur að skemmast.
- Svamptæki – virkar eiginlega eins og við værum að þurrka þvott nema að við erum bara með blautan svamp í staðin. Svampurinn stendur svo ofan í vatnstankinum, þannig að meðan það er vatn í tankinum þá helst svampurinn blautur. Einfalt og alveg bráðsnjöll lausn. Þeim mun þurrara sem loftið er, þeim mun hraðar vinnur tækið og svo þegar rakinn er orðin of hár þá hættir það að virka. Loftið fer í gegnum blautan svampinn og ef það er ryk eða óhreinindi í loftinu hreinsast það og sama gildir ef það eru óhreinindi í vatninu. Þetta er því lofthreinsitæki í leiðinni. Gallinn er að við þurfum reglulega að skipta um svamp, því drullan eyðileggur svampinn á endanum.
- Heit gufu: Virkar eiginlega bara eins og sjóða vatn í potti. Vatnið er soðið og fer hreint í loftið og örugglega án þess að vera með nokkur óhreinindi eða bakteríur. Oftast eru þessi tæki notuð í umhverfi þar sem viðkvæmir einstaklingar eru, en galinn er að tækið þarf mikla orku við að sjóða vatnið.
„Fjórða tegundin sem hefur verið að koma inn á markaðinn á undanförnum árum en hefur samt ekki náð almennri fótfestu er kallað “air washers”. Nafn sem einhver stórkostlegur markaðsmaður hefur fundið upp, því þessi tæki hafa verið þekkt í Ameríku sem diskatæki. Þau eru mun dýrari en önnur svona tæki. Virknin er ekki ólík og svamptækin en það þarf aldrei að skipta um neinn svamp og þau hafa svipaða eiginleika. Diskarnir eru ofan í vatnstanki og draga í sig raka, lofinu er svo blásið meðfram diskunum og loftið dregur í sig rakann.“
Hvernig tæki eru best fyrir venjuleg heimili. Segjum 80-100 fm?
„Sjálfur myndi ég annað hvort velja mér svamptæki eða diskatæki. Þau hreinsa loftið í leiðinni og eru oftast miklu fallegri í útliti en hin tækin. Þessi tæki hafa verið mjög vinsæl í Ameríku og fyrir 20 árum þá neyddumst við til að flytja þau beint inn frá Ameríku því það var ekki hægt að kaupa nema iðnaðartæki í Evrópu. Sem betur fer hefur þetta breyst og í dag kaupum við þau frá Sviss. Þessi tæki taka tillit til umhverfisins virka hratt þegar ég þarf á því að halda en svo minna ef loftið er mettað, hreinsa loftið og dreifa ekki óhreinindum um íbúðina mína í leiðinni. Að því sögðu þá gæti ég valið Ultrasonic tæki ef það væri gríðarlega þurrt, en á móti er þær aðstæður sjaldgæfar í íbúðum en virka betur t.d. á skrifstofum.“
Þarf tæki í hvert herbergi eða dugar eitt á alla íbúðina?
„Eitt á að dugar oftast, það fer þó eftir stærð íbúðarinnar. Í stórum íbúðum eða þar sem þörf er á miklum raka þá gæti þurft að vera með 2 tæki. Í eðlilegu umhverfi þá jafnar rakinn og dreifist um íbúðina. Það getur verið aðeins hærra rakastig í rýminu þar sem rakatækið er en þegar jafnvægi næst þá ætti að vera svipað rakastig í öllum rýmum.“
Erum viðkvæmust þegar við erum sofandi
Ef maður ætti samt að velja einn stað fyrir svona tæki?
„Það er ekki endilega stærsta málið hvar tækið er, bara að það sé til staðar. Eins og áður sagði þá jafnar rakinn sig en ef við eigum að velja eitt herbergi heima hjá okkur sem er með fullkomin loftgæði, þá eigum við samt að velja svefnherbergið. Ekki aðeins er það herbergi sem við eyðum mjög löngum tíma í, heldur erum við varnarlaus þegar við erum sofnandi gagnavart umhverfisbreytum eins og rakastigi. Þetta á ekki bara við um tæki sem stýra raka heldur almennt um loftgæði.“
Er hægt að gera eitthvað til að þurrka loft í húsum ef rakastigið verður of hátt?
“Eins og ég nefndi áðan þá höfum við fundið fyrir frá aukinn tíðni af myglusvepp og þetta virðist vera algengara í nýrri húsum. Fyrsta sem maður mælir alltaf með – hvort sem rakastigið er of hátt eða lágt er að vera með góða loftun. Ef það dugar ekki þá eigum við til þurrktæki. Með of háu rakastigi erum við að búa til aðstæður fyrir myglusvepp, rykmaurar sem þekkust ekki áður á íslandi þrífast í háu rakastigi og við getum séð tilfelli þar sem málning flagnar af og einkenni sem minna á leka eru að koma fram í húsum en er bara rakasöfnun t.d. vegna kuldabrúar.“
Að lokum… algeng mistök?
„Að mæla ekki loftgæðin. Það eru jú til ódýrir mælar sem geta mælt loftgæði eins og hitastig, rakastig og svo fullkomnari mælar sem mæla CO2 eða svokölluð VOC (volatile organic compounds). Hvort sem um er að ræða vinnustað eða heimili þá er það alltaf það fyrst að gera mælingar til að átta sig á ástandinu. Svo þegar búið er að mæla að gera ráðstafanir til að bæta umhverfið. Við finnum sjálf hvort það sé heitt eða kalt, en hinir hlutirnir hafa ekki síður áhrif á okkur þó við finnum þau greinilega,“ segir loftunarmaðurinn Tómas að lokum.
Til að frá frekari fróðleik og skoða úrval rakatækja er hægt að smella hér á viftur.is þar sem Tómas ræður ríkjum (ath þetta er ekki sponsað) eða bara að gúggla rakatæki. Þau fást í ýmsum verslunum og eru á misjöfnu verði.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.