Hvað er skemmtilegra en að uppgötva nýtt lag, nýjan myndlistarmann, skáld, rithöfund, leikstjóra eða annann listamann/konu sem nær að fangar athygli þína svo vel að þú verður hreinlega sjúk í meira? Það er sko ekki margt, að minnsta kosti ekki ef þú ert ég.
Ekki fyrir alls löngu skellti ég mér á lítið ættarmót föðurættar minnar í Borgarnesi.
Þar var meðal annars lesið upphátt úr bréfum og fleiri minnum enda vorum við að halda upp á fæðingardag ömmu minnar, Ásu Björnson frá Svarfhóli og meðal þess sem var lesið var vísa eftir Þuru í Garði (1891-1963) en sú var í miklu uppáhaldi hjá afa mínum honum Hannesi Ólafssyni frá Hvítárvöllum.
Vísuna orti Þura eftir að hún fann buxnatölu liggja blómabeði í Lystigarðinum á Akureyri og hún er svona…
Morgungolan svala svalar
syndugum hugsunum.
Sínu máli talan talar,
talan úr buxunum.
Þó hún sé stutt þá fannst mér vísan svo frábær að ég fór að snuðra meira um þessa konu og hennar skáldskap, sérstaklega eftir að hún Ása Helgadóttir frænka mín í Heysnesi sendi mér fleiri góðar vísur frá henni á Facebook spjallinu.
Þura er einskonar Mae West okkar Íslendinga en sú er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þó Mae hafi verið öllu uppteknari af kynþokkanum (enda leikkona) þá er samtímakona hennar Þura ámóta hnyttinn, greind og fyndin og Mae – nema hún var ósigldur Íslendingur en ekki enskumælandi Manhattan drottning.
Þura var dóttir Árna Jónssonar bónda í Garði í Mývatnssveit og Guðbjargar Stefánsdóttur konu hans. – Þura var ógift og barnlaus, átti alla tíð heimili í Garði en vann víða, meðal annars í Lystigarðinum á Akureyri. Um sjálfa sig segir hún þetta:
“Það kom snemma í ljós, að hinum mikla hugsuði hafði nokkuð mistekist, þegar hann skapaði mig og oft var orð á því haft, að ég hefði átt að vera strákur, svo mjög þótti ég hneigð til útistarfs og meira frelsis en stelpum var ætlað og sýna lítinn skilning á því, sem kvenlegt var talið í upphafi þessarar aldar. Þá var nefnilega algengt að segja stelpum að skammast sín, ef þær steyptu sér kollhnís eða sýndu á sér beran fót, að ég ekki nefni hné.”
Vísur Þuru urðu landfleygar og margir sendu henni skeyti í bundnu máli. Hún var gamansöm og kunni afar vel að gera grín að sjálfri sér. ‘Vísur Þuru í Garði’ komu út á bók 1939 og endurútgáfa með dálitlum breytingum 1956.
Þura og strákarnir
Þura líkt og Mae mín West hafði gaman af því að gantast um ástarmál og virtist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á að gifta sig. Frekar kaus hún að daðra við marga og njóta frelsisins sem fáar konur tóku sér á árum áður.
Meðal annars orti hún þessa sem er mjög góð:
Svona er að vera úr stáli og steini,
stríðin, köld og ljót;
aldrei hef ég yljað sveini
inn að hjartarót.
Mig hefur aldrei um það dreymt,
sem eykst við sambúð nána.
Þú hefur alveg, guð minn, gleymt
að gefa mér ástarþrána.
Á flakki sínu um landið kynntist Þura mörgum merkismanninum og eignaðist góða vini í mörgum. Þar á meðal Jóhannesi Kjarval en honum sendi hún sauðskinnsskó með þessari vísu:
Frjálsar ástir, frjálst er val,
fín eru vinahótin.
Gráhærð kona góðum hal
gefur undir fótinn.
Freymóður Jóhannsson málari og Þura skiptust svo á þessum vísum þegar Freymóður dvaldist í Mývatnssveit en hann var sjálfur nokkuð lunkin við að yrkja:
Freymóður skrifar:
Væri ég ennþá ungur sveinn
ekki skyldi ég gefa neinn
snefil af mínum ástararði
annari konu en Þuru í garði
Þura svarar
Hvað er að varast komdu þá
Hvar eru lög sem banna
Ég get lifað alveg á
ástum giftra manna
Freymóður svarar
Með þökk fyrir boðið ég sendi þér svanni
samúðarkveðjur frá giftum manni
Hvaða lög banna? Já hvort ég þori
Ég kem til þín strax á næsta vori
Þura svarar
Þá eru kyljur þagnaðar
þá er létt um sporið
fullur heimur fagnaðar
Freymóður og vorið
Svo undarlega sem það hljómar,
þá voru heit Freymóðs honum með
öllu gleymd næsta vor er hann fór
um hlað hjá Þuru. Þura hafði þó
pata af pukri Freymóðs og kom
til hans vísu:
Það var illt að okkar snilli
og ástir beggja lentu í banni
Freymóðs er mér horfinn hylli
heimurinn varð af listamanni
Og kannski er þessi vísa líka um Freymóð – að minnsta kosti vantar hana hér mann í rúmið…
Ó, hvað hér er dauft og dautt,
drauga griðastaður!
Vestur-rúmið alltaf autt,
enginn vetrarmaður.
Hér er svo ein frægasta vísa Þuru sem er óskaplega rómantísk og sæt, þó eflaust sé hér um stolnar ástir að ræða.
Varast skaltu vilja þinn;
veik eru manna hjörtu.
Guðaðu samt á gluggann minn,
en gerðu það ekki í björtu.
Að lokum kemur svo bútur úr ræðu sem Þura flutti á hjónasamkomu en eins og allar vel samsettar manneskjur er hún hlynnt jafnrétti kynjanna sem kemur hér vel í ljós.
“Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast ykkar, ágætu karlmenn, því ég hefi aldrei dregið það í efa að það séuð þið sem eruð drottins beitarsauðir og því stend ég hér og segi kærar þakkir fyrir liðna daga og guði sé lof fyrir það að það var ekki ég sem lenti með ykkur í haftinu . . . Skrifað stendur að maðurinn sé konunnar höfuð, en hann er meira en það, hann er höfuðskepna þessarar jarðar, salt hennar, sykur og súrdeig …
Þetta vitið þið sjálfir og öll mannkind hefur breytt samkvæmt því um aldaraðir og haldið þétt um stjórnartaumana á opinberum vettvangi í sveita-, bæja- og landsmálum, enda ber heimurinn í dag þeim fagurt vitni … það megið þið eiga, ágætu menn, að gott þykir ykkur að fá atkvæði kvenna á kjördegi, en hvað ykkur langar til að hafa þær við á hærri stöðum sýna kjörlistar, þar eð að þar eru nöfn kvenna eins og merkt til sýnis og málamynda, ef þau eru þar, og því möguleikar kvenna til samstarfs eins og dauf ljósrák út við ysta sjóndeildarhring…”
Hér eru svolítið fleiri vísur eftir Þuru og fleiri heimildir um hana má lesa hér.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.