Ég er ein af þeim sem árum saman notað sánuna í baðstofuklefanum í Vesturbæjarlauginni til þess að þurrka mér eftir sund – þangað til fyrir svona tveimur mánuðum að ég tók áskorun um þriggja kortera lotusánur og viti menn, ég er born again!
Eftir fyrstu lotusánuna, sem gekk út á að sitja í korter, viðra sig í fimm til tíu, aftur í korter, aftur að viðra sig og svo aftur í korter og enda á viðrun… þá fann ég nýja tegund af orku streyma í gegn um mig og úr mér. Ég var mjög vakandi og „alert“ en líkaminn fullkomlega afslappaður. Þetta er við öll viljum vera í og eflaust þess vegna byrjaði ég algerlega áreynslulaust að sækja í sánuna. Sánan sótti mig með sínu gríðarlega aðdráttarafli.
Hugleiðsla á milli lota
Ég tek ekki þrjú korter í hvert sinn sem ég fer, yfirleitt er þetta hálftími, tvisvar sinnum korter með öndunaræfingum og einhverskonar hugleiðslu inn á milli þar sem ég sest allsber fram í búningsklefa og slaka á. Ég hef tekið eftir því að sumar konur eru smá hissa að sjá mig þarna kafrauða og kófsveitta, sitjandi á handklæði en só… Baðstofan fyrir sánuna er hugsuð fyrir sánubaðandi konur og þannig var þetta rými alltaf hér áður þó nú sé skiptiklefinn oftast fullur af ungum erlendum konum sem vilja af einhverjum ástæðum „be like the locals“ og fylla nú klefann til að skipta um föt án þess að ætla sér í sánuna… (það er kannski efni í frústreraða miðaldra færslu… held samt ekki)
Eftir hálftíma af svitabaði í 90-100 gráðu hita, sem dugar til að hægelda lambalæri, þá er ég gersamlega born again svo ekki sé minnst á eftir að hafa legið aðeins í barnalauginni á eftir og horft upp í himininn.
Ótrúlegur árangur!!
Það sem hefur gerst eftir þessa nýju ástundun mína er nánast ótrúlegt. Eftir ansi erfiðan vetur sem reyndi verulega á sálarlífið hresstist ég hraðar en ég hélt að væri mögulega hægt. Húðin varð svona 60% betri, mýkri en barnsrass eftir hverja ferð (hvaða frasi er þetta eiginlega?) og ég er öll mikið slakari, einbeittari og kraftmeiri í andanum.
Í kjölfarið hef ég lagst yfir rannsóknir og lesið mér aðeins til um hvaða kraftaverka fyrirbæri þetta er sem virðist hafa gert Finna að hamingjusömustu þjóð í heimi enda sána á næstum því hverju einasta heimili þar í landi.
Hér eru nokkrir punktar:
- Dítoxar líkamann
- Húðin verður stinnari og unglegri
- Nokkrar hitaeiningar brenna
- Flýtir fyrir því að maður nái sér eftir öflugar æfingar í ræktinni
- Dregur verulega úr streitu
- Dregur verulega úr þunglyndi
- Linar sársauka
- Lækkar blóðþrýsting
- Bætir blóðflæði
- Flýtir því að sár grói
- Getur hjálpað til við exem og sjálfsofnæmi
Þyngsli í sálinni snarminnka
Það sem kom mér einna mest á óvart hvar hversu svakalega góð áhrif sánaböðin hafa á geðheilsuna og þetta ku vera eitt af því sem hefur verið vísindalega sannað með megindlegum rannsóknaraðferðum. Þá eru einnig að koma í ljós niðurstöður sem sýna að sánaböðin hafa góð áhrif á alzheimer sjúklinga og augljóslega á gigtveika.
Svona áttu að sánabaða þig
- Taktu með þér tvö handklæði, eitt til að sitja á og annað til að þurrka þér á eftir sturtu.
- Drekktu fullt af vatni fyrir sánabaðið og inn á milli lota
- Ekki mæta svöng í sánu því þetta útheimtir orku
- Ekki fara ef þú ert ólétt
- Ekki drekka áfengi og fara í sánu
- Ekki vera lengur í 15 – 20 mínútur í senn
- Stutt lota í miklum hita fær þig til að svitna fyrr en þú þarft að byggja upp þol í það
- Farðu hrein en þurr inn í sánuna, það hjálpar þér að svitna fyrr
- Mundu að það er heitast efst og kaldast neðst
- Ekki vera í sundbol ef þú getur sleppt því
Því miður er ekki nóg af sánaböðum í sundlaugum Reykjavíkur og nú stendur víst til að rífa út konu og karla sánurnar í Vesturbæjarlaug og koma fyrir einni unisex infrarauðri sánu. Þetta finnst mér mikill bömmer en hvað get ég sagt. Starfsmaður sagði mér að þetta væri til að losna við „allskonar vesen“ og þau sem vita hvað það þýðir vita hvað það þýðir. Ég veit að það eru víst góðar sánur í Mosó og Breiðholti og í Breiðholti eru þær kynjaskiptar. Ég á enn eftir að njóta þeirrar upplifunar. Svo eru sánur í einstaka WC stöðvum að mér skilst. Annars væri æði ef þú gætir bent mér á fleiri sánur í borginni í kommenti – og þá á ég við traditional sánur en ekki infra rauðar því þær taka helmingi lengri tíma svo að maður nái sama árangri.
Sharing í caring – sjáumst í sánu. Hér er viðtal við vísindakonu sem gersamlega dýrkar sánu og getur sagt okkur allt um það hversu frábært þetta fyrirbæri er (og konan á myndinni fyrir ofan er með finnska sánahettu).
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.