Ég get skemmt mér ágætlega yfir sérstakri framkomu og hegðun fólks þegar það heldur að enginn sjái til. Það er til dæmis mjög gaman að horfa á fólk ganga inn í verslunarrými.
Ráðningarskrifstofur mættu hafa útsendara í verslunum til að taka atvinnuumsækjendur út!
Sumir spígspora inn um dyrnar eins og Palli sem var einn í heiminum, heilsa ekki afgreiðslufólki sérstaklega og halda að slíkt sé flott. Það vel hægt að láta sér standa á sama um svona dóna, skrifa yfirlætið á feimni eða jafnvel „vondan dag“. Almenn kurteisi segir mér þó að ná skuli augnsambandi og bjóða góðan daginn að fyrra bragði eða brosa.
Mig rámar í sögu af Yoko Ono og John Lennon. Hans fyrstu kynni af konunni voru einmitt þegar hann klifraði upp einhvern stigagjörning hennar og sá þar við enda stigans orðið „YES“.
Án þess að þekkja nokkuð til hennar bara varð hann að hitta þessa jákvæðu konu.
Sem betur fer eru líka mjög margir sem ganga inn í búðir og virka með hausinn í lagi af því að þeir brosa, heilsa eins og menn og bera höfuðið hátt. Svona svipað því og leikari sem gengur inn á svið og tekur salinn strax á fyrstu mínútu. Málið er nefnilega að það er alltaf einhver að horfa, ef það er ekki ég þá er örugglega einhver annar að pæla í þér.
Lífið er leiksvið – og þú átt að vera senuþjófur!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.