Yoga eða samkvæmisdansar? Þú ert falleg eins og þú ert

Yoga eða samkvæmisdansar? Þú ert falleg eins og þú ert

Ég er ekki þessi íþróttatýpa og hef aldrei verið. Leikfimistímum og sundi kveið ég fyrir sem krakki. Mér fannst ég vonlaus í boltaleikjum því einhvern veginn tókst mér alltaf að fá boltann beint í smettið.

Nei ég valdi dans og var í samkvæmisdönsum í mörg ár. Þar leið mér vel og fékk að hreyfa mig án þess að búast við miklum skakkaföllum. Dans er að sjálfsögðu einnig íþrótt sem reynir mikið á líkamann og svo er það tengingin við tónlistina þar sem tjáningin tekur yfir og tilfinningar sem brjótast fram sem eru ólýsanlegar.

Í samkvæmisdönsum skiptir miklu máli að eiga góðan félaga sem skynjar hvert einasta skref. Félaga sem leiðir þig áfram þannig að þið eruð samstíga í takt fyrir tónlistina, rétt eins og maki í lífsins dansi. Dans er einstaklega fallegt tjáningarform og ég er ekki frá því að hugmyndin að byrja að dansa á ný poppi upp á hverju ári.

Eitt sinn keypti ég mér gulllitaða dansskó og var tilbúin að byrja á ný. Bróðir minn ætlaði að dansa við mig en hann á einnig fjölmörg ár að baki í samkvæmisdönsum. Og…

Við mættum í tímann skælbrosandi, hárreist og tilbúin að sýna þessum byrjendahópi hvernig maður dansar jive og cha cha cha. Hálftíma síðar var ég komin með einskonar sjóriðu eftir alla snúningana sem reyndist vera meira og minna það eina sem hann mundi af danssporunum í „den”. Hann má eiga það að hann kann að snúa manni um fingur sér. Ég stóð örlitla stund fyrir framan spegilinn, kófsveitt og flökurt og speglaði nýju fallegu gullskóna. Ég var ekki alveg tilbúin að fara úr þeim en varð að játa mig sigraða. Ég var víst ekki lengur þessi danspía en hét sjálfri mér því að reyna aftur þegar ég væri komin í betra form.

Nú, 6 árum síðar er ég í betra formi, ótrúlegt en satt, æfi reglulega og er búin að uppgötva jóga sem einnig veitir manni þessa ólýsanlegu vellíðan eftir tímana, rétt eins og dansinn. Sjálfstraustið er meira þrátt fyrir að ég komist hvorki í spígat né splitt. Ég er alls ekki liðug en verð betri í hvert skipti. Ég kann að gera hundinn, sólina og nota allskonar fín jóga slanguryrði og næ einhverskonar núvitundar jafnvægi á meðan á tímanum stendur. Ég hef meira að segja grenjað hamingjutárum eftir jógatíma.

Það má vel vera að gullskórnir fái að líta dagsins ljós á ný ef ég eignast dansfélaga sem elskar dansinn jafn mikið og ég. Eitt er þó víst að ef hann ætlar að leiða mig í gegnum dansinn þá þarf hann aldeilis að læra að stjórna mér en með árunum hef ég orðið sjálfstæðari en nokkru sinni fyrr, eiginlega stjórnlaus. Þið sem þorið, megið pikka í mig og við getum prófað einn Cha, Cha Cha.

Hvað varðar heilsuna og líkamann þá hef ég fylgst með nokkrum jógapíum á Instagram undanfarna mánuði til að dást að fegurð líkama þeirra og lipurð. Að vinna með líkamann og jarðtengja sig er eitthvað sem mig langar að mastera betur. Ein jógadama hefur sérstaklega vakið áhuga minn. Hún er mynduð nakin í allskyns stellingum, algjörlega berskjölduð,  með yfirskriftinni:

You are beautiful exactly the way you are.

Þarna er nektin ekkert kynferðisleg og þannig á það að vera. Líkami hennar er vel þjálfaður og afskaplega fagur. Það er nefnilega málið. Við verðum að muna að elska okkur sjálfar eins og við erum sama hvernig við erum. Ég dreymi um að verða svona liðug einn daginn. Kannski eftir önnur sex ár, ef ég æfi mig? Ef ekki þá mun ég eflaust pússa fínu gullskóna á ný.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest