Ofuráhersla Íslendinga á að það séu mannréttindi að fá að eiga bíl (og íbúð) á sér enga hliðstæðu í samanburðarlöndunum og fordómar okkar í garð þeirra sem kjósa að sleppa einkabílnum þykja fádæma sérstakir.
Alki, lúser, eða bæði?
Það er næstum eins og við manninn mælt, að um leið og Íslendingur segist ekki eiga bíl þá er ósjálfrátt reiknað með að viðkomandi hljóti að glíma við áfengisvanda sem varð til þess að hann eða hún missti prófið. Alveg spes. Eða að letin og aumingjaskapurinn sé svo mikill að viðkomandi hafi jafnvel bara orðið undir í lífinu og hafi þar af leiðandi ekki efni á að reka bíl. Bíl sem verður jafnvel hluti af sjálfsmyndinni. Því dýrari bíll… því meiri sönnun þess að þú hafir staðið þig í lífinu. Enginn bíll – algjör lúser.
Bíllaus
Sjálf á ég ekki bíl þessa dagana og hef satt að segja upplifað að sumir hreinlega vorkenna mér. Eins og það sé sorglegt að reka ekki einkabíl og „neyðast“ til að nota aðrar leiðir. Þetta er pínu fyndið. Það eru nefnilega margar aðrar leiðir til að komast á milli staða og þær eru alls ekki verri.
- Ganga
- Strætó
- Leigubíll
- Reiðhjól
- Hopp bíll
- Hopp hjól
- Lánsbíll
- Bílaleigubíll
Ég bý nokkuð miðsvæðis og er ekki með börn sem ég ferja á milli staða svo þetta er ekkert mál. Þar fyrir utan þá spara ég sirka 120.000 kr á mánuði svo ekki sé minnst á tímann og fyrirhöfnina sem fylgir því að láta gera við bíla og viðhalda þeim. Ég þarf aldrei að kaupa tímareimar og rúðuþurrkur, láta smyrja og skoða, skipta um sumar og nagladekk og svo framvegis.
Blandaður samgöngumáti
Sum eiga það til að vera svolítið neikvæð þegar þau heyra minnst á „bíllausan lífsstíl“. Sjá bara fyrir sér eitthvað norp í strætóskýlum og tveggja tíma ferðalög milli staða. Þetta er misskilningur, alveg eins og það er í raun misskilningur að tala um bíllausan lífsstíl þar sem strætó er jú líka bíll.
Ef þú kýst að sleppa því að reka þinn eigin bíl þá eru allskonar leiðir sem hægt er að fara með „blönduðum samgöngumáta“. Stundum fer ég á HOPP að strætóskýli og tek þar vagn. Stundum fer ég með reiðhjólið í strætó. Stundum fer ég með HOPP hjóli að HOPP bíl og keyri eitthvað á honum, stundum panta ég mér leigubíl. Þetta er nákvæmlega ekkert mál. Það er hægt að taka mjög marga leigubíla fyrir sömu peningaupphæðir og fara í að reka bíl yfir einn mánuð. Og svo má spara mjög mikinn tíma með því að velja aðrar leiðir en bifreið þegar maður þarf að komast leiðar sinnar á háannatímum.
Nenni þessu ekki
Ástæða þess að ég rek ekki minn eigin bíl núna er ekki sú að ég keyrði full á staur og missti prófið eða sé með svo háan yfirdrátt fyrir flatskjáinn sem ég keypti að ég hafi ekki efni á bensíni. Ástæðan er sú að lúxusvagninn (Volvo með hvítum leðursætum og risa vél (samt ekki partur af sjálfsmyndinni) sem ég átti síðast var orðinn gamall og verulega eyðslufrekur. Svo var hann alltaf eitthvað að bila þannig að ég ákvað að selja hann og finna mér nýjan en eftir að hafa skoðað nokkra nýrri bíla fann ég út að ég nennti ekki að standa í þessu og ákvað að prófa að sleppa því að eiga bíl. Kostirnir reyndust þessir:
- Ég spara rúmlega 120.000 kr á mánuði
- Ég slappa af og les eða sinni erindum online meðan ég sit í strætó
- Ég er ekki frústreruð í umferðinni á háannatímum og kemst fyrr á áfangastað með strætó (umferðin getur verið ótrúlega stressandi)
- Ég fæ meira súrefni
- Ég fæ stinnari læri (reiðhjól)
- Ég prófa að keyra nýja bíla með Hopp
- Ég styrki lungun og hjartað meðan ég hjóla
- Mér finnst fjör að vera á hlaupahjóli
- Ég þarf ekki að fara með bíl í smurningu: skoðun: dekkjaskipti: viðgerð: þrif…
- Ég þarf ekki að borga vexti af bílaláni, bifreiðagjöld og tryggingar
Ég veit ekki hvort ég mun lifa blönduðum samgöngumátalífsstíl að eilífu, það kemur í ljós, en það breytir því ekki að mér finnst einkabílar stórkostlega ofmetnir og aðrar leiðir til að komast á milli staða alveg stórkostlega vanmetnar.
Áskorun, prófaðu í viku
Ég skora á þig að prófa eina viku þar sem þú sleppir einkabílnum. Það verður auðvelt nú þegar vorar í lofti. Athugaðu hvort þér finnist alveg skelfilega ótrúlega hræðilegt að taka strætó og spila tölvuleik eða skrifa email á meðan eða hvort þér finnst ömurlegt að setjast undir stýrið á HOPP Teslu.
Kannaðu líka hvort þetta raunverulega taki lengri tíma en að keyra með einkabíl og hvort þér finnist þú raunverulega heft/ur af því að þurfa að ganga út í strætóskýli og anda að þér súrefni í leiðinni. Nú eða að fá auka 130.000 kr á mánuði (eða meira). Ég verð að segja að þetta getur vanist bara ansi vel.
Kveðja frá konunni sem bjó í Köben.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.