Við pjattrófurnar ákváðum að hafa Throwback Thursday þema og ég ríð hér á vaðið.
Þetta er búin að vera frekar mikil rannsóknarvinna að grafa upp allar þessar gömlu myndir og minningar en vá hvað það er ótrúlega gaman að taka smá trip down memory lane!
Ég komst fljótt að því að ég hef verið óttaleg pjattrófa frá blautu barnsbeini. Það blasir bara við á þessum myndum.
Ég lagði gríðarlega áherslu á að vera mikið í fötum í stíl sem barn og það hefur klárlega fylgt mér því ég reyni alltaf að vera í einhverju í stíl, það er stílinn minn.
Líka loðfeldar, ég er svo mikill loðfeldaperri að það nær engri átt.
Mér þótti líka ótrúlega gaman að þrífa og var ég oftar en ekki í eldhúsinu með kúst í eftirdragi og spreybrúsa… að vísu hefur þessi kostur því miður ekki fylgt mér inn í fullorðinsárin eins og ég hefði vonað.
Snuðfíknin mikla
Ég var ótrúlega þægilegur krakki að sögn þeirra sem til þekktu. Síbrosandi með ótrúlega mikið sjálfstæði og sjálfstraust og var alltaf tilbúin að prufa eitthvað nýtt.
Fyrir utan það að leggja frá mér snuðið því ég var með snuð til næstum því 6 ára aldurs! Það þurfti að rífa af mér dudduna fyrir 1. bekk í Melaskóla. #eðlilegt.
Ég fór einu sinni með afa mínum í apótekið stuttu eftir þetta dudduleysi og greip til örþrifaráða. Ég átti eins árs lítinn bróður á þessum tíma og litla pjattrófan ég laug að afa mínum að litla bróður mínum dauðvantaði snuð þegar í raun ætlaði ég að eiga það í laumi.
Gleðin entist ekki lengi en mútta sprakk úr hlátri þegar hún sá mig að fela mig á bak við hurð að japla á snuði fyrir ungabarn.
Í takt við sjálfstæðið bjó stjórnsemin og ég vildi hafa allt í röð og reglu. Þarna hefur klárlega þróast einhverskonar fullkomunarárátta sem loðir enn við mig.
Á leikskólanum þótti ég frekar vinsæl hjá leikskólakennurunum því ég stóð á göngunum og skammaði alla sem hlýddu ekki og byrjaði jafnframt ung í starfi stafsetningarlöggunar.
Næsta Jóhanna Sigurðardóttir?
Krakkarnir voru líklega ekki svo sáttir með mig en kennaranir sögðu að ég hlyti að verða næsta Jóhanna Sigurðardóttir með þessu framhaldi en ætli það verði ekki allt að koma í ljós, hver veit ?
Ég fékk minn allra fyrsta rauða varalit hjá leikskólastjóranum og ég get ekki talið rauðu varalitina sem ég hef farið í gegnum síðan þá.
Þegar að ég var rétt svo farin að tala var mútta farin að hafa alvarlegar áhyggjur. Það gat enginn skilið hvað ég var að segja nema hún því ég hafði búið til mitt eigið tungumál.
Hún fór með mig til eyrnasérfræðings og þroskasérfræðings því hún hélt að það væri eitthvað að mér, annað kom upp á daginn því læknanir sögðu að þetta væri mikið gáfumerki, nema þeir hafi bara verið að sefa áhyggjufulla móður en ég ætla að trúa því fyrrnefnda.
Ég bjó til orð fyrir allt það mikilvægasta eins og t.d. sjónvarpið en það kallaði ég ,,budana”. Svo skemmtilega vill til að budana þýðir víst hóra á grísku. Ahemm.
Ég læt nokkrar gelgju myndir fylgja en legg ekki í að deila með ykkur sögunum. Gelgjan er magnað tímabil og þunn línan á milli hláturs og gráturs. Ég var það sem sumir kalla ofurgelgja, að mínu mati allavega en datt samt aldrei beint í skinkuna, þá meina ég meik á varirnar og alltof dökkar augabrúnir. Takk guð fyrir það.
Myndir segja meira en þúsund orð og ætla ég að láta þar kjurrt við liggja. Eldhúshæfileikar mínir komu þó ekki í ljós fyrr en fyrir c.a. tvemur árum og hef ég verið gjörsamlega ósigrandi í eldhúsinu síðan þá.
Fullkomunaráráttan kemur sér ágætlega þar en ég virkilega nýt þess að búa til eitthvað gott og deila því með öðrum. Besta hráefnið er neflilega klárlega ást! Ennþá skemmtilegra er að fá að deila tilraunum mínum með ykkur og fikra mig áfram í þessu bragðlauka partýi!
Mér finnst rosalega gaman að klæða eitthvað óhollt í hollan búning því ég er svo rosalegur sælkeri að ég verð að spila aðeins á mig. Ég hlakka til að deila áfram með ykkur hollustu og óhollustu sem ég töfra fram í eldhúsinu í framtíðinni og vona að þið njótið vel!
Svona lítur fröken TBT út í dag – Takk fyrir að lesa þetta!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!