Í dag kom það í fréttum að maður sem kallaður er “Siggi hakkari” hefði fengið þriggja ára fangelsisdóm fyrir að misnota níu stráka kynferðislega.
Hann lofaði strákunum gulli og grænum skógum ef þeir myndu framkvæma ýmsar kynferðislegar athafnir fyrir sig en auðvitað var það allt innistæðulaust.
Tveir drengjanna voru 15 og 16 ára þegar misnotkunin hófst. Saklausir og trúgjarnir eins og allir eru á þessum aldri. Siggi var meðal annars dæmdur fyrir vændiskaup og tugi annara brota.
Í niðurstöðu dómsins segir m.a.:
Í málinu er ákærði meðal annars sakfelldur fyrir tugi brota gegn 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðinu varða allt að fjögurra ára fangelsi. Beindust þau brot ákærða gegn fimm brotaþolum og voru þau sérstaklega alvarleg gegn tveimur brotaþolanna, en ákærði braut 40 sinnum gegn öðrum þeirra og 15 sinnum gegn hinum. Þá er ákærði jafnframt sakfelldur fyrir að hafa keypt vændi af fjórum brotaþolanna. Með þeirri háttsemi braut hann gegn ákvæði 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðinu varða sektum eða fangelsi allt að einu ári. Auk þess gerðist ákærði sekur um fjársvik, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga, gagnvart einum brotaþolanna og brot gegn 209. gr. sömu laga gegn öðrum.
Samkvæmt framansögðu voru brot ákærða umfangsmikil og brotavilji hans einbeittur. Verður að virða það ákærða til refsiþyngingar, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi eðlis brota ákærða verður við ákvörðun refsingar hans einnig litið til 1. og 7. töluliðar sömu lagagreinar, en brot ákærða beindust gegn mikilsverðum hagsmunum brotaþola. Ákærða til málsbóta verður hins vegar að virða skýlausa játningu hans og það að hann samþykkti að greiða öllum brotaþolum miskabætur. Að endingu þykir jafnframt mega líta til ungs aldurs ákærða er hann framdi hluta brotanna, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.
Nú skil ég persónulega ekki hvers vegna það á að teljast manninum til málsbóta að hann játar tafarlaust. Ég hugsa að áfallið og niðurlægingin sem þolendurnir hafa upplifað í kjölfar brotanna hljóti að kalla eftir þyngri refsingu, þó hann hafi strax áttað sig á að það tók því ekki að þræta fyrir þetta og að upphæðin sem hann þurfti að borga hverjum og einum í skaðabætur var í raun útsala. Eða eins og Óskar Arnarson (maðurinn hennar Fanneyjar) segir á Facebook:
“Þá var hann dæmdur til að greiða piltunum níu alls 8,6 milljónir í skaðabætur”.
Fær þá einn drengjanna sem hann braut á 40 sinnum, 955 þúsund kall fyrir vikið, eða u.þ.b. 24 þúsund krónur fyrir hvert skipti sem hann rústaði lífinu hans? Þá miða ég við að þessu sé skipt jafnt á milli drengjanna sem er kannski ekki en samt… Er þetta grín?
Annar selur dóp, hinn nauðgar
Maður sem er dæmdur fyrir að selja viljugum djömmurum danspillur getur fengið áratuga langan fangelsisdóm. Fyrir því eru dæmi.
Kynferðisbrotamaður, sem brýtur á fórnarlambi með þeim afleiðingum að viðkomandi fer í andlegt niðurbrot sem getur staðið árum saman… slíkur gerandi fær yfirleitt sáralítinn dóm, ef málið nær þá fyrir dómstóla. Fæst mál af þessum toga komast svo langt.
Stelpurnar hjá Rótinni, Félagi um málefni kvenna með áfengis og vímuefnavanda, vilja meina að rúm 90% þeirra kvenna sem leita sér hjálpar við vímuefna eða áfengismisnotkun hafi orðið fyrir ofbeldi, oftast kynferðisofbeldi áður en þær urðu ofurseldar fíkninni.
Með mínum eigin augum hef ég séð konur beygjast undir vald margvíslegrar fíknar í kjölfar kynferðisofbeldis, en einna augljósust verður áfengis/vímuefna og/eða stjórnleysi í mataræði (lystarstol eða ofát).
Það ætti enginn að þurfa að efast lengur um afleiðingar kynferðisofbeldis á mannssálina, ekki frekar en að við efumst um skaðleg áhrif fíkniefnaneyslu á andlega og líkamlega heilsu. En ég leyfi mér að fullyrða að ein tilraun með fíkniefni er ólíklegri til að valda skaða til lengri tíma en ein nauðgun.
Ef rökin fyrir því að dæma dópsala í 12 ára fangelsi fyrir að smygla kílói af eiturlyfjum til landsins, út frá því að hann valdi samfélagslegu tjóni með iðju sinni, – þá væri réttast að dæma kynferðisbrotamann í 22 ára fangelsi fyrir hverja nauðgun eða misnotkun.
Það er að segja ef þyngdin á vogarskálum réttlætisins mælist út frá samfélagslegu tjóni sem gerandinn veldur.
Fórnarlömb kynferðisofbeldis verða fyrir svo margvíslegum skaða að það liggur við að listinn sé of langur til að telja allt upp en nefni ég þó bara kvíða, þunglyndi, streitu, áráttu og þráhyggju, félagsfælni, fíknir og sjálfssköðun hverskonar. Líkamleg einkenni koma oftast í kjölfar þeirra andlegu.
Ef tilgangurinn með dómum er sá að senda skýr skilaboð til brotamanna og veita öðrum fordæmi, – er þá ekki réttast að herða dóma og refsingar við kynferðisofbeldi?
Ef flestir kynferðisbrotadómar eru of vægir, verðum við þá ekki að endurskoða hvernig við skilgreinum kynferðisbrot og meta upp á nýtt út frá þeim upplýsingum sem við höfum um afleiðingarnar úr geðlæknisfræði og félagsrannsóknum. Kannski þarf að gera lagalegar breytingar? Einu sinni voru Tyrkir réttdræpir á Íslandi.
Að lokum set ég upp sáraeinfalt dæmi í tveimur línum:
Tveir menn. Annar er dópsali, hinn er kynferðisglæpamaður. Annar selur frænku minni pillu á dansleik, hinn nauðgar henni. Annar fær 10 ár, hinn 10 mánuði og þar af helminginn á skilorði.
Hvað finnst þér?
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.