Þegar ég var lítil sá ég plötu með söngkonunni Dolly Parton. Þar var hún í öllu sínu veldi með stóra ljósa hárið og risastóru brjóstin íklædd blúndum með brjóstin vellandi uppúr hálsmálinu og í eldrauðum skóm.
Ég varð strax heilluð af henni og spurði hver þetta væri. Ég fékk þau svör að hún væri nú bara einhver söngkona sem væri alltaf í lýtaaðgerðum og klæddi sig eins og gleðikona. Ég man þetta alltaf.
Seinna í lífinu horfi ég á heimildarmynd um Dolly Parton frá BBC þar sem Michael Parkinson talar við hana á svo skemmtilegan hátt þar sem hún gerir stólpagrín að sjálfri sér og segir meðal annars að ástæðan fyrir brjóstastækkunum og aðgerðum sé af því að eiginmaðurinn hafi beðið hana að sýna sér brjóstin og hún hafi þurft að lyfta upp pilsinu.
Þá talaði hún einnig um að það hafi verið kona í litla þorpinu sem hún ólst uppí sem var alltaf svo fallega klædd að hennar mati. Með stórt hár og í rauðum skóm, málaði sig mikið og allar konurnar hötuðu hana og sögðu að hún væri hóra. En litlu Dollý fannst þetta fegursta kona heims.
Lastar ekki heldur dásamar fegurð viðhaldsins
Dolly samdi lagið Jolene en það fjallar um konu sem var að halda við mannin sem hún elskar. Samt dásamar Dolly konuna í laginu og hennar fegurð:
“Your beauty is beyond compare
With flaming locks of auburn hair
With ivory skin and eyes of emerald green”
… í stað þess að lasta hana, biður Dolly hana hana fallega um að taka ekki mannin frá sér… Hversu fallegt er það?
Stóð með sjálfri sér
Elvis Presley hringdi í Dolly Parton þegar hún var enn óþekkt nafn að reyna að vekja á sér athygli innan tónlistarbransans. Á þessum árum sem var það mjög erfitt fyrir konur og sérstaklega konu sem samdi lögin sín sjálf.
Hann vildi kaupa af henni lagið I will Always love you og segjast hafa samið það að hluta til sjálfur.
Þetta var ekki af því að hann Elvis væri vondur maður, svona var bara bransinn á þessum tíma. Hún sagði Nei við vinsælasta tónlistarmann heims af því að þetta var hennar lag og hún ákveður að gefa það út sjálf.
Svo kemur Whitney Houston til hennar mörgum árum seinna og gerir það að einu vinsælasta lagi heims fyrr og síðar!
Dolly Parton er nefnilega með bestu lagahöfundum í heimi. Þrátt fyrir það hefur hún alla tíð verið rökkuð niður og talin heimsk, eða glyðra eða hitt og þetta vegna túlkun hennar á fegurð.
Dolly er ein af mínum fyrirmyndum. Mig langaði að deila þessu með ykkur því oft er vatnið miklu dýpra heldur en manneskjan sem kastar steininum í það áætlar.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=DMmYqRvSRS8[/youtube]
Þórunn Antonía Magnúsdóttir, söng og leikkona, er flestum landsmönnum kunn. Hún hefur áhuga á ótal mörgu, en þó aðallega tónlist, móðurhlutverkinu, kvenhlutverkinu, ástinni, listinni og lífinu. Hún er í farsælli sambúð og á eina dóttur.