Úrsúla Ósk Lindudóttir varð fyrir þeirri ömurlegu reynslu að rekast á allar prófílmyndirnar sínar af Facebook inni á erlendri vefsíðu.
Síðan flokkar stelpur niður eftir t.a.m. “boobs” – “ass” eða “fresh face of the week”.
“Vinkona mín hafði samband við mig eftir að hún hafði séð myndir af mér þarna inni. Hún komst að þessu af því það var einhver útlendingur sem setti sig í samband við hana á Facebook. Hann hafði þá séð myndir af henni þarna inni, með fullu nafni og öllu og hafði bara flett henni upp, sendi henni svo einhvern póst þar sem hann var að segja henni hvað hún væri sæt og að hann hefði fundið hana þarna” segir Úrsúla í viðtali við Pjatt.is
“Mér brá alveg rosalega. Þetta er ferlega óþægilegt. Og líka að sjá einhver dónaleg og klúr komment við myndirnar af manni. Þetta er mjög, mjög óþægilegt.”
Úrsúla, líkt og flestir aðrir, er með möppu af prófíl myndum á Facebook en átti ekki von á því að myndunum væri stolið. Það sem er verra er að þarna er hún birt með fullu nafni og heilu myndaalbúmi og þetta á ekki bara við um hana heldur nokkuð margar Íslenskar stelpur.
“Það er heill flokkur þarna sem heitir Iceland og er með myndum af íslenskum stelpum. Það er víst bara eitthvað forrit sem fer og safnar upplýsingum og setur inn á þennan vef,” segir Úrsúla og bætir við að hún, líkt og flestir aðrir, hafi ekki átt von á þessu.
“Maður þarf að passa allt sem maður setur á netið. Það eru sumar sem hafa sett inn einhverjar rassamyndir og svona sem birtast svo bara allt í einu á einhverjum síðum úti í heimi. Þær eru kannski að gera þetta í einhverju flippi og halda að bara vinir sjái. Maður áttar sig kannski ekki á þessu fyrr en eitthvað svona gerist. Það þarf að stilla hverja einustu mynd sem maður setur á Facebook og passa hver fær að sjá þær. Þetta er farið úr höndunum á manni um leið og það er komið í loftið,” segir hún. “Þeir sjá meira að segja hvenær stelpur eiga afmæli og svona, þetta eru mjög persónulegar upplýsingar og myndir,” segir Úrsúla að lokum.
Við á Pjatt.is erum hugsi yfir þessu og hvetjum allar vinkonur og vini Pjattsins til að nota nokkra klukkutíma í að fara yfir stillingaratriði á Facebook myndum.
Endilega smelltu á like og/eða deildu færslunni til að vekja athygli á þessu máli svo að fólk muni að fara yfir stillingarnar sínar.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.