Í viðtali við Huffington Post síðasta sumar sagði þerapíuljómyndarinn Jade Beall að stór hluti kvenna í hinum vestræna heimi finnist þær ekki verðugar þess að teljast fallegar.
Beall á sér draum um að bæta úr þessu og gaf út bók sem sýnir myndir af nöktum og hálfnöktum mæðrum í von um að auka sjálfstraust kvenna.
Bókin kom út núna á mæðradaginn og ber heitið The Bodies of Mothers: A Beautiful Body Project.
Beall vill að mæður læri að taka líkama sinn í sátt eftir barneignir; að þær læri að meta og elska líkama sinn og þær breytingar sem á honum verða eftir 9 mánaða meðgöngu.
Sjálf var Beall mjög meðvituð um sinn eiginn líkama eftir að hún eignaðist son sinn fyrir tveimur árum en eftir barnsburðinn fór hún í mikla sjálfsskoðun og segist ekki vera eins hörð við sjálfa sig og hún var áður.
Beall tók myndir af yfir 100 konum og segir að flestar þeirra hafi verið dauðhræddar.
“Þær í raun fórnuðu sér fyrir málstaðinn”, segir hún. Eitthvað hefur verið um neikvæðar raddir í garð bókarinnar en Beall segir að það hjálpi sér bara að vaxa og þroskast sem listamaður.
Skilaboð Beall eru aðallega þessi: “Í heimi sem skortir samúðarfulla leiðtoga og fyrirmyndir verðum við að leggja okkur fram við að taka manneskjum eins og þær eru, sama af hvaða gerð og stærð.”
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.