Líkt og flestir aðrir elska ég að uppgötva eitthvað sem fáir aðrir vita af og monta mig svo af því seinna að ég hafi sko verið ein af þeim fyrstu til að fatta að “hvað-sem-það-var” hafi verið kúl.
Til dæmis má nefna þegar ég var í 8. bekk og montaði mig af því í laumi að hafa komið litríkum sokkum með alls konar myndum og mynstrum í tísku meðal vinkvenna minna og þegar ég var í 9. bekk og gerði það sama með sveitaflétturnar… já ég hélt ég væri mikill tískugúrú!
Núna nýverið er ég byrjuð að hlusta alltaf á BBC1 á morgnanna þar sem ég er ástfangin af röddinni hans Nick Grimshaw sem sér um morgunþáttinn þar… ég ætla ekki að segja að mig dreymi blauta drauma um röddina hans, látum bara nægja að segja að ef ég hefði fengið “50 Shades of Grey” á hljóðbók og lesna af honum þá hefði ég mjög líklega klárað allar þrjár bækurnar (sem ég hef enn ekki gert enda bara að lesa þær af leiðinlegum ókynþokkafullum pappír) og hlustað svo aftur.
Og nóta bene, ég geri mér fulla grein fyrir því að Nick Grimshaw er samkynhneigður…en það segir ekkert um hæfileika hans til að lesa inn á hljóðbók fyrir mig.
En aftur að því að vera einn af þeim fyrstu til að uppgötva eitthvað!
Eftir að ég fór að hlusta á BBC1 á morgnanna þá fór ég auðvitað að elta Nick Grimshaw á Twitter (svona eins og alla aðra karlmenn sem ég er skotin í í laumi). Fyrir um það bil viku síðan setti hann þar inn tónlistarmyndband. Þar sem ég legg mig auðvitað fram um að kynna mér allt það sem verðandi ástmenn mínir mæla með, svona til þess að líta ekki út eins og kjáni þegar við loksins kynnumst, þá horfði ég á myndbandið.
Oftast þegar ég læt eftir þessum “stalker-kenndum” mínum (afsakið slettuna en ég vil meina að eltihrellir sé bara alltof gróft orð yfir mínar stalker-kenndir) finnst mér bara ekkert varið í það sem mælt er með en ég verð að segja að þetta skipti var algjör undantekning og lagið er búið að vera á repeat hjá mér síðan ég heyrði það fyrst:
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=ESXgJ9-H-2U[/youtube]
Lagið er þegar þetta er ritað með um það bil 300.000 áhorf en þegar ég horfði á það fyrst fyrir um það bil viku var það með um það bil 60.000 ef ég man rétt, það er því að vaxa fljótt í vinsældum og ég get montað mig af því að hafa verið ein sú fyrsta til að sjá það (liggalá) en ég vildi samt auðvitað leyfa öðrum að njóta snilldarinnar líka.
Með brotið rifbein í upptökunni
Það er svo ekki bara það að lagið er sjúklega töff og bara eitt það ferskasta sem ég hef heyrt í langan tíma heldur er myndbandið algjör snilld líka!
Það verður svo bara enn betra þegar maður kemst að því að það er aðeins tekið í tveimur tökum og Kiesza var með brotið rifbein á meðan hún tók það upp!
Kiesza er líklega vön því að þurfa að vera hörð af sér en hún æfði ballet þegar hún var yngri og gekk svo í sjóherinn í Kanada þegar hún var 17 ára þar sem hún fékk boð um að verða leyniskytta fyrir kanadíska herinn af því skothittni hennar var svo góð.
En þar sem henni fannst tilhugsunin um að skjóta fólk ekki heillandi ákvað hún að vinna frekar við dulkóðunardeild hersins.
Hideaway er fyrsti “single-inn” sem Kiesza gefur út en hún gaf líka út plötu árið 2008 í litlu upplagi. En núna virðist hún vera að stefna á heimsyfirráð þar sem hún er á seinustu mánuðum búin að koma við í New York, Amsterdam, Osló og London.
Ég ætla hér með að spá fyrir um það að henni muni takast það ætlunarverk sitt og að “Hideaway” verði einn af sumarsmellunum 2014, vonandi verð ég bara ekki komin með leið á þessu lagi þá þar sem ég er nú þegar búin að hlusta á það fimm sinnum á seinusta klukkutímanum :/
En núna er bara að bíða spennt eftir næsta lagi og vona að það verði eins gott!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.