Íslenskt fjölmiðlafólk sem skrifar langa statusa á Facebook eða setur þar inn einhverskonar áhugavert og skemmtilegt efni er ómeðvitað að grafa undan sjálfstæðum fjölmiðlarekstri á Íslandi – og um leið ógna eigin lífsviðurværi.
Leyfðu mér að útskýra…
Facebook er ekki lengur samfélagsmiðill þó hann hafi byrjað þannig fyrir nítján árum. Það eru nokkuð mörg ár síðan fyrirtækið þróaðist yfir í fjölmiðil og þessi fjölmiðill er sá stærsti sem veröldin hefur séð. Hann breiðir út allskonar misjafnan boðskap, hefur breytt eðli fréttaflutnings, rústað samkeppni, skaðað samfélög og sett fjölmiðlafyrirtæki um allan heim á hausinn. Þetta er eins og plantan í Litlu Hryllingsbúðinni. Byrjaði lítil og breyttist svo í skrímsli sem át allt sem á vegi hennar varð.
Fésbókarblaðið eða Fréttablaðið?
Til að gera einfaldan samanburð þá prófaði ég að gera samlíkingu á fjölmiðlaskrímslinu Facebook og hefðbundnum fjölmiðli eins og til dæmis Fréttablaðinu (sáluga) þar sem deildum er skipt upp í markaðs- og auglýsingadeild, ritstjórn og skrifstofur. Köllum þetta Fésbókarblaðið.
Strúktúr og stefna Fésbókarblaðsins
Fésbókarblaðið var stofnað árið 2004 í Massachusetts í Bandaríkjunum. Ritstjóri þess og eigandi er Mark Zuckerberg, 38 ára.
Blaðamenn og lesendur – USERS
Allir notendur/lesendur Fésbókarblaðsins, það er að segja fólkið sem birtir statusa og myndir, er á sama tíma blaðamenn Fésbókarblaðsins. Sumir eru vinnusamari en aðrir, og sumir eru vinsælli en aðrir, en allt eru þetta ólaunaðir starfsmenn Fésbókarblaðsins. Fólkið sem finnur og skaffar greinar og efni. Blaðamennirnir eru þeir sömu og lesendur og lesendurnir eru líka blaðamenn. Starfsmaðurinn er viðskiptavinur og viðskiptavinurinn er starfsmaður. Sniðugt? Já, ef þú ert Mark Zuckerberger.
Efnistök blaðsins – CONTENT
Efnið sem þú sérð í Fésbókarblaðinu er samskonar efni og í Fréttablaðinu. Þetta eru t.d. innsendar greinar (skoðanir á stjórnmálum), lífsstíll (við fórum í skíðaferð til Ítalíu), heilsa (ég gekk á fjall í dag og fékk mér smoothie), ferðagreinar (hér erum við fjölskyldan í Tívolí), umfjallanir um veitingastaði (hér erum við fjölskyldan á Grillmarkaðnum), kvikmyndir (ég sá geggjaða mynd í bíó í gær), hverjir voru hvar (myndir úr fimmtugsafmælinu í gærkvöldi), fréttir af því hvað er á döfinni og annað hefðbundið blaðaefni sem notendur skaffa en Mark borgar ekki krónu fyrir.
Ritstjórnarstefna – COMMUNITY GUIDELINES
Engin nekt og hefðbundið amerískt siðgæði (hvernig sem maður skilgreinir það).
Markaðsdeild – FACEBOOK AD CENTER
Markaðsdeildin er aðallega mönnuð forriturum sem hafa skapað viðmót sem gerir auglýsingakaupendum kleift að græja umbrot og uppsetningu. Sparnaður í því. Einnig sálfræðingum og öðrum sérfræðingum sem sjá um mælingar og greiningar.
Auglýsingadeild – MARKETPLACE
Hér höfum við heldur ekki annað starfsfólk en sjálfa lesendurna og einhverja forritara. Í staðinn fyrir að skima yfir efnisflokka smáauglýsinga í Fréttablaðinu, eins og t.d. húsnæði til leigu, óskað eftir atvinnu, bílar til sölu os.frv, þá förum við inn á hinar ýmsu „grúbbur“ Fésbókarblaðsins og leitum að því sem okkur vantar þar eða auglýsum varning til sölu. Við borgum hvorki fyrir að kaupa né selja en virkni okkar í hópunum hjálpar eigendum Fésbókarblaðsins að safna gögnum um okkur og samfélagið okkar sem eru svo seld áfram.
Auglýsingadálkar – SPONSORED ADS
Þriðji hver status á Facebook fídinu þínu er auglýsing (sponsored) og kostnaður við þær er misjafn. Við getum líkt auglýsingu í Fréttablaðinu saman við Fésbókarblaðs auglýsingu sem fær bara því fleiri birtingar eftir því sem hærri upphæð er greidd fyrir hana. Heilsíðu auglýsing kostar meira en einn lítill dálkur.
Lesendahópar – TARGETED GROUPS
Hegðun lesenda/blaðamanna Fésbókarblaðsins er gaumgæfilega rannsökuð út frá því hvar við erum stödd, hvar við tékkum okkur inn, hverja við töggum, hvað við lækum og svo framvegis og neysluþarfir okkar eru síðan greindar út frá aldri, áhugamálum, persónugerð o.fl. Þetta er svona eins og ef við værum með lið frá KGB og Gallup á eftir okkur 24/7 sem myndu svo skila skýrslum til markaðsdeildar blaðsins sem áframseldu upplýsingarnar til m.a. auglýsenda.
Í kjölfarið er okkur (lesendum) birt efni og auglýsingar, sem reiknað er með að höfði okkar, og félagslegum skoðunum er viðhaldið, eða þær mótaðar, út frá sömu formúlu. Þetta er allt saman löngu vitað og rannsakað og það er líka löngu vitað að Fésbókarblaðið græðir ekki mest á auglýsingasölunni heldur sölu á öllum þessum persónulegu gögnum sem hefur verið safnað um okkur í mörg ár.
EVIL bissniss módel
Ef þið pælið bara oggu poggu pínku ponsu lítið í því þá blasir við að þetta er algjörlega Evil bissniss módel. Í hnotskurn þá vinna bókstaflega allir „blaðamennirnir“ á Fésbókarblaðinu launalaust undir skilmálum sem þeir skilja ekki og ekki nóg með það, um leið eru allir sem logga sig á miðilinn sálgreindir í þaula svo hægt sé að selja þeim varning frá fyrirtækjunum sem kaupa auglýsingar af miðlinum. Svo eru sálirnar seldar í gagnapökkum til kaupenda sem nota gögnin til að selja okkur lífsstíl, sjálfsmynd, skoðanir, strauma og stefnur. Hver hefði getað ímyndað sér þetta fyrir 30 árum? Enginn.
Og talandi um að stjórna…
Ef notandi „blaðamaður“ misstígur sig og skrifar óvart frétt (status) sem ekki fellur í kramið hjá ritstjórninni (not following community guidelines) þá er viðkomandi rekinn án aðvörunar og fær hvorki að lesa blaðið né komast í greinarnar sem hann/hún er búinn að skrifa (your account has been restricted). Allar úrklippubækurnar sem viðkomandi var búinn að safna í (Facebook Memories) eru komnar í ruslið, og ekki nóg með það, síminn er líka tekinn af henni/honum (ekki hægt að nota messenger).
Ef hún/hann reynir að ná tali af ritstjóranum til að fara yfir málin, t.d. bara fá skýringu á því hvað hún/hann gerði rangt, þá getur hún alveg gleymt því. Það er ekki séns að ná í þennann mann og í raun er ekki séns að ná í nokkra lifandi veru sem starfar á launum hjá fyrirtækinu. Þar eru bara gervigreind vélmenni sem svara tölvupóstum og forritararnir á bak við þau, ásamt reyndar her af sálfræðingum og álíka sérfræðingum sem sérhæfa sig í atferlismótun og tölfræði.
Þið sjáið að þetta er bilaðara en nokkur vísindaskáldsaga og að við höfum verið tekin rækilega í rassgatið meðan við flutum sofandi að feigðarósi. Þetta er sótsvart þrælahald á nýlendum Internetsins og Mark Zuckerberger er feitasti og voldugasti nýlenduherrann. Í alvöru.
Það má reyna að breyta þessu
Og nú kem ég aftur að fyrstu setningunni í þessari færslu:
„Íslenskt fjölmiðlafólk sem skrifar langa statusa á Facebook eða setur inn einhverskonar áhugavert og skemmtilegt efni er ómeðvitað að grafa undan sjálfstæðum fjölmiðlarekstri á Íslandi og um leið ógna eigin lífsviðurværi.“
Vinsælir fjölmiðlamenn (nefni engin nöfn) sem skrifa langa FB statusa sem fá fullt af lækum eru óafvitandi að gera stétt sinni og fjölmiðlaheilbrigði óleik. Við gröfum undan okkur með því að dæla inn efni í þennan ameríska fjölmiðil. Því væri það heldur betur frábært ef innlent fjölmiðlafólk, og aðrir sem skrifa og skapa áhugavert efni, myndu hafa frjálsan aðgang að innlendum birtingarvettvangi til að koma persónulegum eða opinberum skemmtilegheitum og fróðleik á framfæri. Það er óþarfi að vinna frítt fyrir samkeppnisaðilann og ef maður vill breyta heiminum þá byrjar maður á sjálfum eða sjálfri sér – ekki satt?
Við hljótum að geta gert eitthvað í þessu, prófum bara aðeins að hugsa út fyrir boxið
Facebook byrjaði með 7 starfsmenn árið 2004. Nú eru þeir rúmlega 86.000 og notendurnir eru 2.95 billjónir. Ég get ekki einu sinni séð fjöldann fyrir mér og örugglega ekki þú heldur. En alveg eins og þetta fyrirtæki náði fordæmalausum heimsyfirráðum á fjölmiðlamarkaði þá getum við stigið lítil skref til að gera fjölmiðlaheiminn aðeins heilbrigðari. Við þurfum kannski ekki að hætta alveg að nota FB, það má t.d. áfram deila linkum þar inn, en við skulum reyna að hætta að gefa þeim allt þetta ágæta efni og nota aðrar leiðir sem hlúa að okkar eigin fólki. „Content is King“. Fólk sækir í það sem því finnst skemmtilegt, sama hvar það finnur það.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.