Af einhverjum ástæðum rak mig minni í gamalt blogg sem ég skrifaði þegar ég gekk með dóttur mína, fyrir um tíu árum. Þar sem ég hló upphátt að eigin kvölum ákvað ég að þessu þyrfti nauðsynlega að deila hér á Pjattinu, tæpum 10 árum síðar…
Here it goes:
Þetta er einmitt ekki nógu gott. Það eru þvílík átök að vera ólétt að mig hefði bara aldrei grunað annað eins. Samt er ég að ganga í gengum einhverja fyrirmyndaróléttu. Hvernig er þá ófyrirmyndarólétta?
Ég er t.d. ekki með grindargliðnun eða ælupest eða eitthvað þannig eins og sumar konur fá en fæ allt þetta “eðlilega” eins og blæðandi tannhold og okkeisjónal vatnssöfnun þannig að ég er með svona dvergaputta eins og Hrafnhildur lýsti svo fallega og stundum þegar ég er að tannbursta mig þá brosi ég blóðugu brosi framan í sjálfa mig og verður ósjálfrátt hugsað til Lindu Blair.
…Það er ömurlegt vesen að beygja sig niður og reima skóna. Jafn mikið vesen að skipta um hlið þegar maður sefur… svo ekki sé minnst á auma verki í síðunni af sílegu á sömu hlið. Það er ekki einfalt mál að standa upp. Maður fer 25 sinnum að pissa á dag.
Eftir mat verð ég svo södd að það er eins og ég þurfi ekki að borða næsta árið, enda meltingin komin niður í 2 snúninga á klukkustund. Ef ég svo beygi mig þá hendir það jafnvel að ég jórtri því maginn er jú næstum því kominn upp í háls.
Appelsínuhúð hefur tekið sér bólfestu á lærunum enda þurfa blessuð litlu börnin víst spik til að geta drukkið mjólk. Líkaminn minn tók þetta á orðinu og hangir nú fastur í því spiki sem hann nær sér í. Þessu spiki fannst sérlega hentugt að leggjast á læri og rass og ekki það að það þjaki mig neitt sérstaklega umfram hitt, en trúðu mér það er mjög furðulegt fyrir manneskju sem ávallt hefur verið lítil, spiklaus og mjó að komast varla upp tröppur fyrir þyngd og horfa á lærin á sér dúa, þá sjaldan sem hún sér þau!
Mér líður svo sannarlega eins og smáhveli með geróþol svo ekki sé meira sagt.
…eða karlmanni sem hefur ekki séð á sér tippið í nokkur ár sökum stórrar ýstru. Og hugsa sér! Karlmenn. Þeir þurfa ekki annað en að verða asnalegir í framan, bíta í neðrivörina, sprauta og segja ohhhh eða eitthvað álíka til að fjölga sér.
Konur verða hreinlega að einhverjum fyrirbærum sem náttúran hefur 100% völd yfir og verða bara að beygja sig undir það. Engir samningar eða neitt. Bara gerðusvovel vinan; fitnaðu um 20 kg, blæddu, bognaðu, svitnaðu, gráttu, öskraðu, ældu, óaðu og æjaðu og verptu svo blómapotti þversum þannig að holdið rifnar og húðin slitnar eftir tæpt ár… Amen og amen.
Mikið held ég að menn myndu upplifa konur öðruvísi ef þeir fengju að prófa þetta í viku eða svo. ÉG upplifi konur öðruvísi eftir þetta og þó er ég af konu tegund.
Það hefði aldrei neinn getað sagt mér hvernig þetta er. Ekki nokkur hræða. Og þegar ég reyni að útskýra þetta fyrir kærastanum þá sé ég í augunum hans að hann skilur mig í raun ekki neitt. Hann reynir samt. Sagði mér t.d. frá ættbálki sem hefur þann sið, að þegar konan fæðir, þá bindur pabbinn spotta í punginn á sér og leyfir henni svo að kippa í í hvert sinn sem sársaukinn gagntekur hana í hríðunum.
Þetta er kannski athugandi á óskalistann fyrir fæðinguna? Eða ætli það myndi kannski trufla ljósmæðurnar við störf sín? Gæti verið.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.