Ég hef gert það að hefð að horfa alltaf á kvikmyndina The Shining þegar liðið er á veturinn og helst kominn desember og farið að sjást í smá snjó.
Þessi sálfræðitryllir er með betri myndum sem ég hef séð, enda ekki að ástæðulausu að hún á sér sinn eðal sess á flestum topp listum yfir bestu kvikmyndir sem hafa verið gerðar í gegnum tíðina.
Kvikmyndin The Shining er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Stephen King. Höfundur bókarinnar er enn þann dag í dag ósáttur með Kubrick kvikmyndina sem byggð var á skáldsögunni hans, honum fannst hann breyta sögunni of mikið og var afar ósáttur við endirinn.
Myndin fjallar um þriggja manna fjölskyldu sem flytur á Overlook hótelið þegar fjölskyldufaðirinn Jack fær þar starf sem umsjónarmaður hótelsins yfir vetrartímann.
Hótelið er lokað almenningi yfir veturinn og fjölskyldan sér fram á að vera nánast einangruð í nokkra mánuði, með talstöð innan handar ef símalínur falla niður yfir harðann veturinn. Jack hafði séð það fyrir sér að hella sér í skrif og koma kannski frá sér bók samhliða vinnunni á Overlook hótelinu enda vel settur með konuna sína til að hjálpa sér og son sinn.
Sonurinn er ekki eins og flest önnur börn, hann á sér sérstakan vin sem segir honum frá hlutum sem eiga eftir að gerast og varar hann við ýmsum hættum hótelsins en Overlook hótelið er ekki allt sem það er séð. Það á sér hræðilega sögu morða og óhappa og þetta veit Jack þegar hann þiggur starfið en kýs að halda því leyndu frá sinni heittelskuðu og syninum.
Eftir stutta dvöl byrja skrýtnir hlutir að eiga sér stað; sonurinn verður fyrir óútskýranlegri árás, Jack fer að dreyma illa og sýna hliðar sem ekki hafa sést áður. Móðursjúk konan hans Wendy vil koma drengnum þeirra Danny af hótelinu en Jack sér heldur betur til þess að hún fari ekki fet. Það sem Jack vanmetur hinsvegar stórlega er sonur hans Danny, – hann veit ekki hversu sérstakur sonur sinn er og hversu mikið í honum býr. Þetta er rosaleg spennumynd með frábærum söguþræði sem fólk mun seint gleyma.
Stíll Stanley Kubric er áberandi í myndinni; löng falleg skot, stórkostleg leikmynd og án efa ein besta leikstjón sem ég hef séð. Hann nær fram þvílíkum karakter í leikurunum sínum og fær áhorfandann til að trúa atburðarrásinni fullkomnlega. Tónlistin í myndinni spilar einnig mikið inn í hvernig áhorfandanum líður, hún er áberandi, ríkjandi og á köflum yfirþyrmandi. Tónlistin yfir alla myndina nær að skapa ákveðna stemmningu sem endurspeglar hverskonar mynd um er að ræða.
Hér má sjá Stanley Kubrick vinstra megin og Jack Nickolson á hægri hönd ásamt hluta af kvikmyndateyminu.
Ég gerði það að gamni mínu í fyrravetur að kanna hvar myndin var tekin upp og hvort það sé til eitthvað hótel sem heitir “The Overlook Hotel” og í líkingu við hótelið sem kemur fyrir í myndinni. Ég komst að því að spennu og hrollvekju kóngurinn Stephen King eyddi miklium tíma á Stanley hótelinu í Colorado og að það hótel hafi verið kveikjan að skáldsögunni The Shining.
Stanley hótelið á sér langa sögu og margir gestir sem hafa gist þar vilja meina að það sé mikill draugagangur á því hóteli. Svipaðar sögur koma frá starfsfólki hótelsins en hinsvegar voru tvö hótel notuð við tökur á myndinni, hótelið sem var notað að utan er Timberline Lodge í Oregon, það var byggt í kringum 1930. Hótelið að innanverðu var að mestu sviðsett og tekið upp í Elstree Studios. Hluti af leikmyndinni var gerð eftir innanverðu útliti Ahwahnee’s hótelinu í Yosemite National Park í Kalíforníu. Eins og t.d. hótel móttakan, setustofan og svörtu og rauðu lyfturnar sem koma fyrir í myndinni.
Hér má lesa áhugavert viðtal við Stanley Kubrick um hvenig það kom til að hann ákvað að gera myndina The Shining.
Hér er sýnishorn úr The Shining. [youtube]http://www.youtube.com/watch?v=5Cb3ik6zP2I[/youtube]Anna Brá Bjarnadóttir er fædd á því herrans ári 1986, sama ár og Gleðibankinn hóf raust sína í júró, sem er mögnuð tilviljun þar sem stúlkan er sjálf vel stæður Gleðibanki! Anna starfar sem skemmtanastjóri og dj á Loftinu og Lebowski Bar en er á sama tíma algjör græju gúrú og fíkill. Anna er útskrifuð af tæknibraut Kvikmyndaskóla Íslands og hefur m.a. starfað við fjölda auglýsinga og sjónvarpsþátta. Hún býr við Norðurmýrina með hundinum Tinna og kærastanum og kokkinum Jónasi.