Flestar konur glíma við eilífðar-vandamál þegar kemur að fataskápnum -við eigum aldrei neitt til að fara í og sama hvað fataskápurinn er úttroðinn af fötum og skóm þá vantar ný föööt!
En nú kreppir að á mörgum heimilum og maður hefur ekki alveg sömu efni á að hlaupa og kaupa nýtt í hvert skipti og löngunin vaknar.
Gott ráð við þessu er að nota sömu föt í mismunandi samsetningum. Svartur kjóll getur verið svo mismunandi og maður getur alveg verið sitthvor týpan en þó í sama „gamla“ kjólnum með mismunandi fylgihlutum, skóm, hárgreiðslu og förðun.
Coco Chanel var frumkvöðull “litla svarta kjólsins” þegar hún birti mynd af sínum fyrsta litla svarta kjól í Vogue 1926 og varð það einskonar einkennisklæðnaður kvenna sem höfðu góðan smekk.
Audrey Hepburn endurvakti svarta kjólinn þegar hún lék í Breakfast at Tiffanys og enn í dag nauðsynlegt fyrir allar konur að eiga amk. einn slíkan í sínum fataskáp.
Ég hef notað sama svarta kjólinn við síðustu 3 „spari-tækifæri“ og hér kemur lýsing á þeim samsetningum sem komnar eru og ég vona að geti gefið ykkur e-r hugmyndir hvernig þið getið endurnýtt ykkar gömlu flíkur á nýjan hátt;)
Trés chic bóhem look -Í fyrsta boðinu sem var matarboð þá klæddist ég kjólnum við rauðar sokkabuxur, plain svarta hælaskó, rauða tösku og með hárið uppsett í hnút, svartan eyeliner og rauðan varalit.
Airwaves stíll -Við næsta tækifæri var ég í svörtum glansleggings, leðurjakka, með grófa keðjuhálsfesti, svört stígvél með svarta kögur-tösku, slegið hár og dökka smoky förðun.
Klassískt look í þrítugsafmæli -Við þriðja tækifærið var ég rosa fín í þunnum svörtum sokkabuxum með rönd að aftan eins og tíðkaðist á stríðsárunum, í lakkskóm, með fínlegt demants-skart, hárið greitt til hliðar og liðað eins og Jerry Hall með smá eyeliner og eldrauðan varalit frá frk. Coco Chanel.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.