SVARTIR SUNNUDAGAR KYNNA: THE BIG LEBOWSKI SUNNUDAGINN 6. MARS KL 20:00!
Svartir Sunnudagar hafa verið haldnir í Bíó Paradís frá því herrans ári 2012. Þá koma múví-nördar saman og horfa á skemmtilegar eða áhugaverðar kvikmyndir sem af einhverjum ástæðum hafa náð svokölluðum költ status.
Næsta sunnudag er það The Big Lebowski sem kom út árið 1998 og hefur fest sig all rækilega í sessi síðan.
Karakterinn Jeff Lebowski þykir meira að segja svo æðislegur að það hefur verið stofnað sérstakt trúfélag í kringum hann, svokallaður Dúdismi, en þau sem aðhyllast Dúdisma taka lífinu með stakri ró og kunna virkilega að slaka.
Jeff “The Dude” Lebowski þykir nefninlega fátt skemmtilegra en að liggja í leti, reykja jónur og hanga með félögum sínum í keilusalnum. En eftir að hann er fyrir misskilning tekinn fyrir að vera milljónamæringur sem ber sama nafn og hann, flækist hann í nær óskiljanlegan glæpaþráð.
Tveir hrottar koma heim til hans og pissa á teppið hans, en þeir halda að hann sé Jeffrey Lebowski, milljónamæringur frá Los Angeles, en eiginkona hans skuldar einhverjum þorpurum háar fjárhæðir.
The Dude flækist í flókinn vef þegar hann fer og heimsækir hinn raunverulega milljónamæring, til að reyna að fá bætur fyrir teppið sem þorpararnir skemmdu.
Hann er síðan ráðinn til að verða tengiliður á milli hins raunverulega Lebowski og þorparanna sem nú hafa rænt eiginkonunni.
Vinir The Dude flækjast í málið allt og afleiðingarnar verða vægast sagt kostulegar.
Hvítrússi verður til sölu á barnum fyrir sýningu og á meðan henni stendur og þau sem mæta í búning fá 50% afslátt af Hvítrússanum! Eftir myndina fá þeir sem sýna bíómiða 20% af drykkjum á Lebowski Bar. ÁRSKORT í Bíó Paradís verður veitt fyrir besta búninginn!
Partýið er semsagt á morgun krakkar, – ekki í kvöld. Spara sig!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.