Það er ein verslun í Kringlunni þar sem karlmönnum er bannaður aðgangur að mátunarklefum. Yes, dear!! Og trúðu mér, þá langar líka hrikalega mikið þangað inn…
Um er að ræða undirfataverslunina La Senza. Þar breima karlar í holinu fyrir utan mátunarklefana en fá ekki að fylgja konunum sínum inn. Þetta er smart hjá versluninni, því aðrar konur hafa engan áhuga á að striplast fyrir framan ókunnuga karla sem eru fylgifiskar spúsa sinna. Það ættu líka allar konur að vera fullfærar um að senda karlinn á Kringlukránna á meðan þær versla einn brjóstahaldara og nærbuxur í stíl.
Eiginlega datt ég fyrir tilviljun inn í verslunina La Senza. Lítill miði í búðarglugganum sagði að þær veittu ráðgjöf við að mæla brjóstastærð og finna hinn eina og sanna brjóstahaldara. Svo auðvitað kíkti ég inn, til að fá mér eitthvað fallegt – það kom líka á daginn að ég hafði ekki hugmynd um brjóstastærðina.
Ég fékk góða þjónustu í þægilegu umhverfi, var mæld upp og niður og veitt ráðgjöf með hvað væri flottast. Þetta er virkileg lúxusbúð. Á slám héngu fallegustu brjóstahaldarar í mörgum gerðum og litum. Fallegast fannst mér hot-pink blúndunærföt og svartur push-up úr blúnduefni. Einnig sá ég ekta burlesque undirföt í anda Can-Can stúlknanna, bara nokkuð sniðugt.
Það er upplagt að fara í búðina þar sem karlmenn eru bannaðir og smella sér á eitt nærfatasett. Hleyptu villidýrinu út og fáðu þér til dæmis bleik sebranærföt eða túrkísblá nærföt með perlum. Njóttu þess að vera falleg yst sem innst og hlustaðu svo hlæjandi á hljóðin í karlmönnunum sem góla vonsviknir fyrir utan klefana sem þeir fá ekki að koma nálægt!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.