Ég var aldrei neitt sérstaklega mikill Eurovision aðdáandi sem barn en eftir keppnina árið 2000 (sem við skulum bara vera sammála um að sé besta Eurovision keppni allra tíma) varð Eurovision í miklu uppáhaldi hjá mér.
Ég get eiginlega ekki sagt að ég sé hard-core Eurovision aðdáandi þar sem ég horfi alltaf bara á lögin í keppninni og er ekkert búin að kynna með neitt áður, ég nenni ekki að horfa á “Alla leið” og mér er eiginlega slétt sama hvort lagið sem ég held með vinni eða ekki. Það er bara svo gaman að fylgjast með þessari keppni og hlæja aðeins að fáranlegu lögunum og njóta þeirra örfáu góðu sem laumast með inn á milli.
Góðu lögin:
Ég held ég geti talið á fingrum annarrar handar virkilega góðu lögin sem hafa komið í Eurovision síðan árið 2000. Það eru lögin sem eru það góð að ég hef haldið áfram að hlusta á þau eftir keppnina og lög sem að ég hefði hlustað á þó ég hefði ekki heyrt þau í Eurovision til að byrja með. En það eru svo nokkur lög sem mér finnst bara góð af því þau eru svo Eurovision-leg og hress eða bara svo svakalega krúttleg. Það er kannski óþarfi að taka fram að þessi listi er auðvitað settur saman eftir mínum persónulega smekk og það er meira en líklegt að aðrir séu á annarri skoðun en ég.
[youtube]http://youtu.be/_NcThSfelqA[/youtube]
Ísland – 1999 – 2. sæti – 146 stig
Það er eiginlega sama hvað manni finnst um þetta lag, í hjarta hvers íslensks Eurovision áhorfanda á All Out of Luck alveg sérstakan stað og ég á að vísu enn eftir að finna þann Íslending sem finnst þetta ekki grípandi lag. Ég man enn þá hvar ég var og hvernig mér leið þegar Ísland vann næstum því Eurovision í fyrsta skipti.
[youtube]http://youtu.be/N1y9xhmMSDk[/youtube]
Lettland – 2000 – 3. sæti – 136 stig
My Star er fyrsta lagið sem ég féll algjörlega fyrir, enda úr hinni margrómuðu 2000 keppni. Það er bara allt fullkomið. Söngvarinn er mesta krútt í heimi, bassaleikarinn er í fótboltabol og gítarinn í dýrðlegu flauel “átfitti” (takið eftir sólinni á annarri skálminni hans). Þeim er greinilega svo gjörsamlega sama hvort þeir vinni eða ekki, eru bara þarna til að skemmta sér og dansa til að gleyma.
[youtube]http://youtu.be/jyt3nv3eCik[/youtube]
Ísland – 1997 – 20. sæti – 18 stig
Ég hef aldrei verið mikið fyrir lögin sem við sendum í keppnina (ég veit, ég er ættjarðarsvikari) en við skulum bara vera raunsæ og játa það að Minn hinsti dans er eitt besta lag í sögu Eurovision … sérstaklega með þessu atriði! Svo vitum við auðvitað öll að Páll Óskar átti salinn! Evrópa var einfaldlega ekki tilbúin fyrir þessa snilld.
[youtube]http://youtu.be/yeTmxBQIK3c[/youtube]
Frakkland – 2008 – 19. sæti – 47 stig
Ég finn til í hjartanu yfir því að þetta lag hafi lent í 19. sæti .. við erum að tala um að þetta lag er útsett af öðrum helmingnum af Daft Punk og mér fannst það það gott að ég fór á tónleika með Sebastien Tellier þegar hann kom til Íslands þar sem hann drakk hvítvín af stút, var í silfurlituðum jakka og almennt bara aðeins meira “fabjúlöss” en við hin.
[youtube]http://youtu.be/Pfo-8z86x80[/youtube]
Svíþjóð – 2012 – 1. sæti – 372 stig
Euphoria er einfaldlega besta Eurovision lag sem gert hefur verið að öllu leyti. Loreen er flott kona, atriðið er flott og lagið alveg svakalega Eurovision-legt. Það kom því aldrei annað til greina en að Svíþjóð myndi rústa þessu árið 2012.
[youtube]http://youtu.be/UrrRqk7HRlw[/youtube]
Danmörk – 2001 – 2. sæti – 177 stig
Já ég hlusta enn þá á Rollo og King og ég elska þau. Að vísu hef ég bara heyrt þetta eina lag en ég elska það allavega! Við skulum ekkert tala um það að árið 2001 hefði ég líklega borgað fúlgur fjár fyrir dressið sem Signe er í eða fyrir manninn með litla gítarinn, það hefði verið erfitt að velja á milli!
[youtube]http://youtu.be/UmOeISUYXuI[/youtube]
Þýskaland – 2010 – 1. sæti – 246 stig
Frekar umdeildur sigurvegari. Annaðhvort fer Lena í taugarnar á fólki eða það dýrkar hana. Ég tilheyri seinni hópnum og finnst þetta mjög krúttlegt!
[youtube]http://youtu.be/uiH4BFTELME[/youtube]
Noregur – 2009 – 1. sæti – 387 stig
Alexander Rybak hefði getað sungið leiðinlegasta lag í heimi og unnið þessa keppni af því hann er svo mikið krútt að manni langar bara að kjósa hann fyrir það eitt. En hann rústaði þessu í staðinn bara með fínu lagi.
[youtube]http://youtu.be/d_AEJqFPbkg[/youtube]
Belgía – 2010 – 6. sæti – 143 stig
Það eru komin fjögur ár en mig dreymir enn um að Tom og gítarinn hans syngji mig einhvern tíma í svefn…
[youtube]http://youtu.be/cqpFUVAEhn8[/youtube]
Frakkland – 2010 – 12. sæti – 82 stig
Okei þetta er ekki gott lag en ef það væru fleiri lög í Eurovision svona hress þá væri mun sársaukaminna að horfa á keppnina.
[youtube]http://youtu.be/YDXeK0r3aKs[/youtube]
Danmörk – 2011 – 5. sæti – 134 stig
Ég er kannski farin að hlusta of mikið á One Direction en það er eitthvað við krúttlegt “boyband” sem nær mér alveg.
[youtube]http://youtu.be/U5X2r_t-KBk[/youtube]
Danmörk – 2012 – 23. sæti – 21 stig
Við frá Íslandi gáfum henni Soluna bara 6 stig sem er nú frábrugðið þeim 12 stigum sem við gefum Danmörku oftast en mér fannst þetta mjög sætt lag og finnst það enn þá í dag.
[youtube]http://youtu.be/gjm-kCOMaPY[/youtube]
Noregur – 2013 – 4. sæti – 191 stig
Fyrir utan það hvað Margaret er fáranlega flott og hvað allir voru skotnir í henni þá er lagið bara mjög gott og hresst.
Fyndnu lögin:
Ég er annaðhvort með það þróaðan húmor eða það lélegan fattara að mér finnst “fyndnu” atriðin í Eurovision mjög sjaldan fyndin. Mér fannst ég til dæmis vera eina manneskjan sem stökk ekki eitt bros á vör yfir “Alcahol is Free” frá Grikklandi í fyrra, mér fannst það eiginlega bara frekar hallærislegt. En það eru fáein atriði undanfarin ár sem ég hef elskað.
[youtube]http://youtu.be/vZHOMbHbOEg[/youtube]
Spánn – 2008 – 16 stig – 55 stig
Já þetta lag lenti fyrir ofan Sebastian Tellier sem keppti fyrir hönd Frakklands sama ár (sjá að ofan). Eins mikið og ég elska þetta lag þá varð ég nú smá fúl yfir því. Ég veit ekkert af hverju mér finnst þetta svona fyndið, kannski af því að þegar ég fór til Suður-Ameríku 2009 þá var þetta lag endalaust í útvarpinu þar. Hver segir að það sé ekki frægð eftir Eurovision?? Takið líka eftir dönsurunum sem eru líklega að leggja sig fram í hallærisleika.
[youtube]http://youtu.be/6Gl37zfO1Po[/youtube]
Þýskaland – 2000 – 5. sæti – 96 stig
Við skulum bara öll viðurkenna það, Stefan Raab er svolítið mikið maðurinn. Held að það þurfi ekki að segja neitt mikið meira en það um þetta lag.
[youtube]http://youtu.be/ZLmSC7UQ19s[/youtube]
Lúxemborg – 1987 – 21. sæti – 4 stig
Okei þetta átti örugglega ekki að vera fyndið atriði en ekki hlaupa þá svona inn á sviðið!! Ég held að ástæðan fyrir því að þetta lag rústaði ekki Eurovision þetta árið hafi einfaldlega verið sú að fólk hefur verið afbrýðsamt út í það hve “fabjúlöss” hann Roger er og Evrópa hefur bara ekki verið tilbúin .. líkt og Páll Óskar lenti í um árið.
[youtube]http://youtu.be/KkydPOGTJKk[/youtube]
Ísland – 2006 -13. sæti í undanúrslitum – 62 stig
Árið 2006 var fyrsta árið sem lag sem ég kaus í undanúrslitum komst áfram. Silvía Nótt er bara með fyndnustu atriðum sem komið hafa í Eurovision, þó að enginn hafi fattað djókið nema við!
[youtube]http://youtu.be/dqZKKfK2aEA[/youtube]
Króatía – 2000 – 9. sæti – 70 stig
Þegar Gísli Marteinn var kynnir sagði hann alltaf allavega einn fáranlega fyndinn brandara í hverri keppni og árið 2000 var það á eftir þessu lagi. Án brandarans er lagið lítið fyndið nema maður fatti að fylgjast náið með pokakonunni. Brandarinn hans Gísla var einmitt um hana en var samt svolítið þannig að maður þurfti að vera á staðnum til að finnast hann fyndinn.
Gísli (voða áhyggjufullur): “Ég hélt á tímabili að konan ætlaði bara ekkert að komast úr pokanum!”
Okei þetta er kannski of mikill einkahúmor hjá mér og mínum Eurovision vinum .. en er ég samt ein um það að finnast pokakonan alveg eins og Portia De Rossi?
Verstu lögin:
Eurovision væri bara ekki Eurovision án laganna sem eru það léleg að þau eru góð.
[youtube]http://youtu.be/dWlrcgH-1NU[/youtube]
Makedónía – 2000 – 15. sæti – 29 stig
Þetta lag lenti aðeins 3 sætum fyrir neðan Telmu og Einar Ágúst og er bara betra en flest allt sem hefur verið í Eurovision fyrr og síðar! 0:56 verður líklega skráð í sögubækurnar sem og enski söngurinn í endann.
[youtube]http://youtu.be/3uNfhj66GOo[/youtube]
Ísrael – 2000 – 22. sæti – 7 stig
Það mætti stundum halda að Ísrael væri að nota Eurovision til að breyta ímynd sinni í Evrópu hmmm .. En “Be Happy” er klárlega þeirra besta tilraun til þess. Hreinlega snilldar atriði og mjög góð hugmynd hjá þeim að fá Jarvis Cocker með sér til að auka á vinsældir lagsins þó að það hafi ekki dugað til sigurs.
[youtube]http://youtu.be/XzyVv2uIa4s[/youtube]
Írland – 2000 – 6. sæti – 92 stig
“Natures child lays beside a mothers broken heart.” Þarf ég að segja eitthvað meira?
Eftir það er lagið bara downhill en ég mæli með þessum fyrstu sekúndum. Atriðið allt er að vísu algjör snilld; dramatísk kertin, hátíðlegar handahreyfingar píanóleikarans og rokkarinn hann Eamonn sem er bæði með tvo lokka í eyranu OG mullet!! Talandi um að vera eins og klipptur úr tískublaði .. árið 1984! Það kemur að vísu annar hátindur í sögu textagerðar þegar Eamonn vinur minn syngur: “Celebrate the new millennium of love, where our footprints leave a harvest for the children” er einhver annar en ég að hugsa um Whitney Houston?
[youtube]http://youtu.be/23h__RssJQo[/youtube]
Bosnía Hersegóvína – 2004 – 9. sæti – 91 stig
Á meðan ég reyni að gleyma því að á þessum tíma gekk ég um í næstum alveg eins fötum og hinn kynþokkafulli Deen er klæddur í, nema það var ekkert glimmer G á rassvasanum mínum, þá get ég ekki annað en hugsað um það að Jónsi lenti 10 sætum á eftir þessu lagi með “Heaven”.
[youtube]http://youtu.be/DC7L6SDPL4A[/youtube]
Serbía – 2010 – 13. sæti – 72 stig
Ef einhver er búinn að sigra lífið þá er það hann Milan!
[youtube]http://youtu.be/pXouSYabDig[/youtube]
Írland – 2011 – 8. sæti – 119 stig
Ó Jedward!
Mesta heilalímið:
Það eru viss Eurovision lög sem ég fæ reglulega á heilann þrátt fyrir að hafa heyrt flest þeirra bara á keppninni sjálfri og aldrei eða sjaldan eftir það. Oftast er góð ástæða fyrir því að ég hef sjaldan heyrt þau eftir keppnina:
[youtube]http://youtu.be/oKbCXZDGtN0[/youtube]
Bosnía Hersegóvína – 2001 – 14. sæti – 29 stig
Ég þurfti aðeins að velta fyrir mér hvort þetta færi í flokkinn yfir versta lagið eða mesta heilalímið en um leið og ég heyrði “hanó hædede” og “hanó come, come on” þá vissi ég hvert þetta ætti að fara þar sem ég er búin að vera að raula þetta reglulega síðustu 13 ár. Dansinn og klæðnaðurinn er sem betur fer eitthvað sem ég finn mig ekki knúna til að leika eftir. Eðlilega rústaði “Hano” okkar framlagi sem var “Angel” og ef einhver var búinn að gleyma því þá lenti það lag í síðasta sæti.
[youtube]http://youtu.be/6JWGKDA_HdU[/youtube]
Úkraína – 2003 – 14. sæti – 30 stig
Við skulum alveg láta það vera hve undarlegt það er að framlag Úkraínu skuli heita spænsku nafni. Við sendum nú einu sinni lag með frönsku nafni, sælla minninga, og fögnum því bara hvað þetta er undursamlega skemmtilegt lag sem festist á heilanum á manni í áraraðir eftir að maður hlustar á það einu sinni .. nei ég er ekkert komin með leið á því að syngja þetta lag í hausnum á mér sérstaklega ekki þegar það eina sem ég kann í laginu er “Hasta la Vista baby, baby goodbye”.
[youtube]http://youtu.be/asZwDUTEXls[/youtube]
Grikkland – 2004 – 3. sæti – 252 stig
Seinast þegar ég vissi var ég skráð í aðdáenddaklúbb Sakis Rouvas á Íslandi, enda er bara einn Sakis!
[youtube]http://youtu.be/_cYITo2AH0A[/youtube]
Malta – 2001 – 9. sæti – 48 stig
Fabrizio er um það bil það besta síðan skorið brauð var fundið upp. Strípurnar, buxurnar sem sýna alltof mikið og mjaðmahnykkirnir eru einfaldlega allt sem stelpa gæti beðið um! Gítarleikarinn er svo annar möguleiki fyrir þær sem setja stefnuna ekki það hátt að vilja söngvarann, hann virðist vera svolítið hress gaur og er með höfuðhnykkina á hreinu. Daginn sem ég mun algjörlega hætta að raula “Another summer night…” mun ég halda veislu en ég efast um að ég geti nokkurn tíma máð hann Fabrizio alfarið úr hausnum á mér.
[youtube]http://youtu.be/u82RPskA5EI[/youtube]
Azerbaijan – 2010 – 5. sæti – 145 stig
“These teardrops, teardrops, that drip, drop, drip, drop…” fer ekkert í taugarnar á mér, nei. Annars var þetta ágætlega vinsælt lag hjá yngri kynslóðinni hér heima og alveg fáranlega dramatískt atriði. Ég verð til dæmis alltaf jafn stressuð þegar hún er að staulast niður þennan stiga og held mér í sófabríkina af ótta við að hún eigi eftir að rúlla niður.
Annars óska ég landsmönnum öllum gleðilegrar Eurovision hátíðar. Áfram Pollapönk!!!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.