Í gær fóru fullt af íslenskum stelpum úr að ofan í nafni kvenfrelsis. Biggi lögga skildi ekki neitt í neinu. Þingkona tók brjóstamynd. Sumir voru pínu ringlaðir. Sumir pirraðir. Aðrir bara voða glaðir.
Ég rifjaði upp tímann þegar ég var unglingur. Ber að ofan í sólbaði með ömmu, mömmu og frænkunum að drekka kaffi með álpappír fyrir framan mig til að fá meiri brúnku og D-vítamín. Eða þegar ég var ber að ofan með Önnu Bentínu vinkonu í Laugardalslauginni. Eða þegar ég var ber að ofan í Assistens kirkjugarðinum í Köben með frjálslyndu vinum mínum sem skömmuðust sín ekki fyrir búkinn sinn. Ber að ofan hér og ber að ofan þar. Ber að ofan af því brjóst voru ekki orðin neitt sérstakt tabú.
Í febrúar var ég eitthvað að velta þessu fyrir mér þegar ég las um #freethenipple átakið — hvernig sumarið yrði, hvort við stelpurnar mættum aftur fara úr að ofan án þess að hafa testesterónknúna ókurteisa karla mænandi á okkur. Hvort #freethenipple myndi skila sér á skerið. Af því tilefni skrifaði ég pistil og gerði óformlega skoðanakönnun sem leiddi í ljós að íslenskar konur eru til í að hoppa 30 ár aftur í tímann og fara úr að ofan án þess að skammast sín.
Breyttir tímar
Gærdagurinn var svo stórmerkilegur fyrir þær sakir að fullt, fullt af stelpum rifu sig úr að ofan og sperrtu sig ófeimnar eftir 30 ára pásu (svona sirka). Þær strunsuðu niður Laugaveg og fóru í sund.
Allt ætlaði um koll að keyra, vefmiðlar landsins gerðu út ljósmyndara og höluðu inn smellum sem aldrei fyrr enda hefur orðið “brjóst” alltaf svínvirkað þegar sækja á í frumhvatir þess sem ráfar um internetið með músina að vopni.
Facebook logaði líka og auðvitað leið ekki á löngu þar til einhver sagði “hvað með blessuð börnin” og eins og venjan er þegar talað er um konur, – fórnarlömb.
Tímarnir eru rosalega breyttir frá því við Anna fórum úr að ofan í sundi og stelpur í unglingavinnunni rökuðu gras með brjóstin ber. Það er þessi fáránlega, og oft á tíðum misskilda klámvæðing eins og fyrirbærið kallast, og á köflum æsingurinn í einstaka feministum (við erum ekki allar eins) — sem hefur einhvernveginn gert marga ringlaða.
Nú virðist þetta allt bara í ökkla eða eyra. Margir greina ekki lengur muninn á einfaldri, hversdagslegri nekt og sjoppulegu nektinni sem er ætlað að peppa og æsa. (Svo er það aftur spurningin hver á að dæma hvenær nekt er sjoppuleg og hvað er klám. (True… þetta getur orðið hrikalega flókið.)
Og satt að segja hef nú ekki nennt að lesa öll þessi skoðanaskipti en varð hinsvegar afar kát þegar ég sá vinkonu mína, prófessorinn hana Margréti Valdimarsdóttur, sjóða þetta saman í örfáar mjög hnitmiðaðar setningar. Þannig að ef tilgangur átaksins var eitthvað að vefjast fyrir þér – þá skilurðu heildarmyndina kannski ögn betur með því að lesa þetta.
Hér skrifar hún um hefndarklámið. Að mínu mati er þetta bara ein ástæða sem réttlætir brjóstabyltinguna. Þær eru margar.
…Við skulum bara bylta þeim hugmyndum sem eru meiðandi fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Hefndarklám virkar svo illa á stráka og karla vegna þess að þeir hafa ekki lært að skammast sín fyrir líkamann sinn (eins og stelpur læra). Hugmyndin um að kvenlíkaminn sé alltaf kynferðislegur er meiðandi fyrir konur.
Hugmyndin um að það sé hægt að gera lítið úr konu með því að birta mynd af henni nakinni er meiðandi. Hugmyndin um að kona missi sjálfkrafa af einhverjum tækifærum (eins og að verða forseti) í lífinu vegna þess að það eru til myndir af henni á netinu á brjóstunum er meiðandi fyrir konur.
Við lifum á tímum þar sem er að verða algengara að fólk birti myndir af berum konum á netinu til þess eins að meiða þær. Það þarf að hætta. Og besta leiðin til að koma í veg fyrir það er að taka í burtu skömmina yfir nekt kvenna.
Mér finnst þetta svo einstaklega vel orðað. Svo hnitmiðað og svo rétt. Hvort okkur muni einhverntíma takast að jafnréttisvæða líkama okkar með þeim hætti að berrössuð kona geti verið fyndin eins og berrasaður karl er svo annað mál. Brjóst eru líka alltaf og verða bæði góð og heillandi. Þau eru frábær fyrirbæri. Hvort sem þau ná niður að nafla eða eru nýsprottin, þá eru brjóst alltaf góð.
Ég vil að allar manneskjur geti jafn mikið sýnt brjóstin. Að ég hafi hugsað mig 2svar um segir nóg. #FreeTheNipple pic.twitter.com/Rf8kyHSdS7
— Nína Hjálmarsdóttir (@ninahjalmars) March 26, 2015
Stelpur eiga pottþétt alltaf eftir að geta hlegið að hvor annari á túttunum en af lífeðlisfræðilegum orsökum tekst líklegast seint eða aldrei að fá karla (og sumar konur) til að hætta að upplifa fögur brjóst sem sexý… EN — svo lengi sem okkur tekst að draga úr slut-shaming fyrirbærinu (druslustimplinum) og valdakúgun á kostnað kynferðis, þá eru góðir hlutir að gerast. Munum bara að góðir hlutir gerast hægt. En þeir gerast. Hang in there kids!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.