Eins og íslendingar eru framarlega í því að samþykkja ýmsa minnihlutahópa svo sem samkynhneigða þá eru aðrir hópar sem enn eru tabú og litnir hornauga, fyrir það eitt að hafa aðrar skoðanir eða lífssýn en þessi svokallaði meirihluti.
Ég tilheyri einum af þessum “minnihlutahópum”. Ég er nefnilega dýravinur og “grænmetisæta”.
Það þykir ekki töff að vera grænmetisæta. Hvað þá ef það er af prinsipp-ástæðum.
Það þykir ekki töff að segja upphátt að maður styðji ekki pyntingar á saklausum skepnum og að manni sé annt um réttindi og aðstæður dýra.
Fólki finnst ekki eðlilegt að maður borði ekki kjöt og flestum finnst það “óttalegt vesen” alltaf á manni að borða ekki “venjulegan mat”.
Það þykir álíka skrítið að vera grænmetisæta af prinsippástæðum og að versla ekki í H&M vegna þess að það eru börn í Bangladesh að sauma föt fyrir fyrirtækið í 13 tíma á dag og fá teppi og kalt gólf verksmiðjunnar til að sofa á á nóttunni.
Það þykir einhverra hluta skrítið að hafa “svona miklar skoðanir” og bera umhyggju fyrir dýrum og mönnum. Maður er nánast álitinn “trjáknúsandi hippi” af því einu að afþakka kjöt.
Það tíðkast í samfélagi okkar að loka augunum fyrir hlutum sem mega betur fara á meðan það gerir líf okkar þægilegra.
Við getum hneykslast og deilt óviðunandi aðstæðum í verksmiðjum H&M í Asíu á Facebook, jafnvel skrifað undir lista um að við séum á móti þeim en næst þegar við skreppum til Köben þá töpum við okkur algjörlega og verslum eins og við eigum lífið að leysa í þessum verslunum. Að sama skapi getum við hneykslast yfir hræðilegum aðstæðum kjúklinga í kjúklingabúum í BNA, kjúklingar í pínulitlum búrum sem aldir eru á kynbættu fóðri, hræðilegt! Nema hvað… þetta er ekki skárra á Íslandi! Hér tíðkast líka verksmiðjubúskapur sem er ávísun á illa meðferð á dýrum.
Verksmiðjubúskapur á Íslandi. Hvaðan kemur kjötið sem þú borðar?
Kjúklingur: Hér eru kjúklingar hafðir í pínulitlum búrum og aldir á kynbættu fóðri svo þeir stækki sem hraðast og bringan verði sem stærst. Þetta veldur vansköpun vegna þess að beinin bera ekki þungann af búknum. Innyfli kremjast og kjúklingar deyja í stórum stíl vegna þessa. Hænur gogga í hvor aðra og meiða vegna þess að þær eru 17-19 á hverjum fermetra og líður illa. Flestir þeir sem komið hafa inn í kjúklingabú hafa ekki lyst á kjúlla eftir það, langar þig kannski að heimsækja kjúklingabú og sjá með eigin augum?
Svín: Þessar greindu skepnur eru aldar í pínulitlum stíum þar sem þau geta ekki snúið sér við og fara aldrei undir beran himinn nema á leið í sláturhúsið. Gyltur eru í sérstakri grind sem heldur þeim liggjandi á einni og sömu hliðinni allan tíman á meðan grísirnir eru á spena. Þær geta ekki staðið upp.
Eins og margir vita eru eistun slitin úr grísunum án nokkurrar deyfingar og halinn klipptur af þeim einnig. Grísir naga hvorn annan því þeim leiðist, þeir eru allir saman í ofurlitlum stíum án nokkurrar nándar við móður sína eða nokkuð sem telst náttúrulegt.
Ég er ekki á móti því að fólk borði kjöt, ég er bara á móti verksmiðjubúskap. Ég hvet fólk að kynna sér hvaðan kjötið sem það borðar kemur, hvað dýrin sem þau borða éta? Viljið þið borða erfðabreytt kjöt?
Haldið þið ekki að kjöt sé bragðbetra og hollara ef dýrin eru alin við náttúrulegri aðstæður? Kynnið ykkur bú sem selja kjöt af dýrum sem lifa við viðunandi aðstæður á síðu Velbú- Samtök um verlferð í búskap
Hér má svo sjá Sif Traustadóttur dýralækni lýsa aðstæðum í íslenskum kjúklinga- og svínabúum:
[youtube]http://youtu.be/PCqpPSNqEVg[/youtube]Flott myndband við lag Coldplay “The Scientist” :
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=aMfSGt6rHos[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.