Ég á við vandamál að stríða og mig grunar að ég sé ekki sú eina. Vandamál mitt er fólgið í því að eiga erfitt með að muna nöfn. Allt að því helmingur þess fólks sem ég heilsa á götum úti eru bara andlit sem ég man eða held að ég þekki.
Til að forðast það að virka ókurteis hef samt tekið þann pól í hæðina að heilsa alltaf.
Þetta vandamál hefur komið mér í þá stöðu að ég heilsa fólki sem ég þekki jafnvel ekki neitt. Ég hef til dæmis heilsað gamalli sjónvarpsþulu í Kringlunni, rétt eins og hún væri frænka mín.
Ég hef einnig spjallað heillengi við fólk á förnum vegi, kvatt það og gengið í burtu alveg grandalaus um hvaðan ég þekki það eða hvað það heitir.
Það er þó ekki svo að minnisstöðvar heilans séu með öllu óvirkar. Ég man andlit mjög vel og jafnvel litina sem fólk klæðist. Sum sérkenni get ég jafnvel teiknað eftir minni en nafnið man ég ekki fyrr en það er síendurtekið.
Ekki nema ég geti tengt nafnið við íslenskt dægurlag eins og Nína eða Álfheiður Björk. Ég er nefnilega gædd þeim fáranlega hæfileika, á móti þessum veikleika, að muna allt sem sungið er og þá aðallega á íslensku. Þetta hefur þó einungis gagnast mér í brekkusöng hingað til og þá í mesta lagi einu sinni á ári.
Að þessu sögðu sendi ég þá beiðni til íslenskra tónskálda að koma fleiri nöfnum fyrir í íslenskri textaflóru. Þá geta ég og kannski hinir, sem ekkert muna nema að syngja það, lagt fleiri nöfn á minnið.
Þangað til það gerist, viljið þið vera svo væn að heilsa mér til baka svo ég líti ekki út eins og asni og fyrirgefa mér ef ég man ekkert hvað þið heitið.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come