Íris Sigmundsdóttir gerir klippimyndir þar sem konur eru í aðalhlutverkum. Myndirnar endurspegla samtímamenningu okkar, líkamsímyndir, óróleika og kynferði og eru margar hverjar mjög heillandi.
Á þessu ári hélt Íris einkasýningu í Østerport hverfinu í Kaupmannahöfn. Sýningin var haldin í litlu og fallegu galleríi sem heitir Artkemi og Íris segir hana hafa gengið ákaflega vel. „Þetta var frábær reynsla að hafa gert þetta og styrkja tengslanetið í leiðinni,” segir hún og bætir við að nýlega hafi hún tekið þátt í samsýningu með þeim sem eru á gallerílista hjá Muses.is. Íris hvetur okkur jafnframt til að kynna okkur þá listamenn sem þar taka þátt.
Flutt úr miðbæ í vesturbæ
„Nú er ég að taka niður sýningu sem hefur staðið í mánuð á Vopnafirði en það er minn uppeldisbær svo það var gaman að leyfa fólkinu míunu þar að njóta verkanna og sjá hvað ég hef verið að gera,” segir Íris sem flutti nýlega úr miðbæ í vesturbæ. „Það var hugmyndinn að vera með vinnustofu með fleiri listamönnum en ég tók síðan ákvörðun um að gera vinnustofu heima uppá að geta skipulagt mig betur með vinnuna mína. Það er þó mjög mikill kostur að vinna með aðra skapandi einstaklinga í kringum sig en í staðinn verð ég dugleg að bjóða fólki í innlit og spjall ásamt því að fara á sýningar og skoða hvað aðrir eru að gera.”
Það er að létta til í mínum eigin huga
„Öllum breytingum fylgir ferskur vindur af hugmyndum, svo ég er mikið að endurmeta og skoða og er að þróa nýja stefnu sem fjarlægist örlítið klippimyndirnar og fer meira út í teikninguna, þó klippimyndirnar verði áfram partur af heildarmyndinni. Þetta er leið sem ég hef í rauninni alltaf verið að stefna að þ.e. að létta á verkunum og fara í minimalískara form.
Kaosið sem oft einkmennir verkin mín er vísun í ókyrrð hugans og allt það magn upplýsinga sem hellist yfir okkur á degi hverjum. Svo ég mun hleypa meiri léttleika í verkin með einföldum línu teikningum sem ég hef alltaf verið svo hrifin af. Sennilega þýðir þetta að það er að létta til í mínum eigin huga þar sem maður setur alltaf part af sjálfum sér í verkin,” segir Íris og bætir að lokum við að hún vonist til að geta haldið sýningu á næstu mánuðum með nýju efni.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.