Það eru svo margar hörmungar í heiminum að ég á aldrei eftir að ná að óttast þær allar á sama tíma. Yfirleitt hef ég tekið fyrir eina í einu eða hreinlega reynt að hugsa ekki út í það sem ég get ekki haft áhrif á. „Keep calm and carry on“.
Ein sú hörmung sem ég hef ekki getað komist í að panikka yfir ennþá er hin svokallaða hamfarahlýnun en þá mun vera átt við afleiðingarnar af því þegar of mikið af gróðurhúsalofttegundum (af hverju þarf þetta orð að vera svona langt?) er hleypt út í andrúmsloftið.
Á liðnum áratugum hefur þessi losun víst farið úr böndunum og nú er svo komið að ef ekkert verður aðhafst í þessum efnum þá munu skógar brenna og jöklar bráðna með tilheyrandi hamförum fyrir lífríki jarðar eins og það leggur sig. Skelfileg tilhugsun.
Fullt af fólki vill meina að þetta sé bara eitthvað kjaftæði, pólitískur áróður og uppspuni en ég hef enga trú á því vegna þess að vísindamenn frá öllum löndum myndu aldrei leggjast svo lágt að samstilla sig um svo fárálega lygi – þó það henti stundum einstaklingum innan stjórnmálaflokka að ljúga að sjálfum sér. Kannski mun heimurinn ekki farast af völdum hamfarahlýnunar í dag, en mögulega myndu langömmubörnin mín ekki eiga sjö dagana sæla ef ég aðhefst ekkert í dag. Og hvað er þá til ráða… ?
Tékka ég í boxin?
Þar sem ég er eiginlega bara á skrefi eitt í að huga að þessum umhverfismálum og viðhorfum mínum til þeirra þá ákvað ég að prófa smá svona sjálfsskoðun. Fór á vef Landverndar og fann eftirfarandi ráð sem hægt er að taka til skoðunar eða fara eftir, svo að hver og einn leggi sitt af mörkum. Látum okkur nú sjá…
1. Endurhugsum framtíðina
Neysla okkar og lífstíll er mjög frekur á auðlindir jarðar. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna fæðu, samgangna og orkunotkunar veldur hamfarahlýnun. Við þurfum að endurhugsa framtíðina.
Ég veit ekki alveg hvort eða hvernig ég hef „endurhugsað framtíðina“ en ég geri mér ljóst að þetta stefnir í hamfarir ef við breytum ekki um lífsstíl. Mig langar samt ekki til að sjá fyrir mér einhverja hörmungarframtíð með vatnsskorti og sviðinni jörð, frekar ætla ég að spara ímyndunaraflið í annað og gera bara það sem ég get frá degi til dags.
2. Drögum úr flugi
Íslendingar ferðuðust að jafnaði 2,8 ferðir utanlands á ári árið 2018. Veltum fyrir okkur flugferðum og fækkum þeim.
Já, ég verð að segja að ég hef aðeins pælt í þessu. Eins og veiran skæða (mig langar ekki að nefna hana á nafn) var nú ömurleg þá hafði hún þær afleiðingar að maður hélt sig heima og komst að því að heima er best. Það þarf ekki endilega að leita langt yfir skammt til að skipta um umhverfi og slaka á. Ísland er endalaust fallegt og býður upp á svo marga möguleika til að upplifa eitthvað nýtt. Að hendast í borgarferð til að versla í HM er alls ekki málið lengur. Ef það var það þá nokkurntíma?
3. Fjárfestum í loftslagsaðgerðum
Í sumum tilfellum eru peningarnir okkar, skattarnir og lífeyrir notaðir til fjárfestinga í fyrirtækum sem valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Sendum lífeyrissjóðum okkar, stjórnvöldum og bönkum skilaboð um að hætta slíkum fjárfestingum og fjárfesta frekar í loftslagsaðgerðum.
Tjah? Mun það hafa áhrif? Ég held að átak í fjölmiðlum og hreinlega krafa á lífeyrissjóðina væri öflugri leið en tölvupóstar sem gætu mögulega lent í „hippa spam“ folder. Eða hvað ætli sé átt við með að „senda skilaboð“? Ég er ekki viss.
4. Höfnum stóriðju
Stór hluti þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losna út í andrúmsloftið frá Íslandi koma frá framleiðslu málma. Þó að talað sé um að rafmagnið sem notað er í stóriðju sé „grænt“ þá þarf ógrynnin öll af kolum og timburkurli (tugi þúsunda til hundruð tonna).
Ég veit ekki alveg hvernig ég á persónulega að fara í það verkefni að „hafna stóriðju“ og ef ég hugsa svona heildrænt, altso ekki um landið heldur jörðina alla, þá held ég að af öllu illu þá hljóti að vera skást að framleiða málma þar sem rafmagnið er grænt. Við þurfum jú málma, svo mikið er víst. Mig grunar reyndar að það væri alveg hægt að gera ansi margt til að laga stöðuna eins og hún er en annars hef ég ekkert pælt þetta neitt sérstaklega út.
5. Veljum matinn vel
Kaupum sem mest úr heimabyggð þannig að flutningur með skipum og flugi sé í lágmarki. Veljum siðgæðisvottaðar vörur t.d. Fair trade eða Rainforest alliance þar sem eru færri milliliðir, betri samningar og starfskjör fyrir bændur.
Þetta hef ég blessunarlega alltaf gert enda er maturinn sem er framleiddur hér innanlands bara hreint fyrirtak. Það myndi reyndar bæta mikið ef grænmetisbændur fengju almenninlegar niðurgreiðslur og hærri skattar yrðu lagðir á þau sem framleiða kjötafurðir. Það myndi mögulega draga úr kjötneyslu og gefa innlendum framleiðendum kost á að framleiða fjölbreytta grænmetisfæðu og lækka verð til neytenda. Bæta hag og heilsu allra.
6. Minnkum kjötneyslu
Nautakjöt og lambakjöt valda mestri losun gróðurhúsalofttegunda. Meðalársneysla þeirra sem neyta nautakjöts losar um 506 kg af gróðurhúsalofttegundum sem jafngildir því að aka 2,482 km eða fljúga fram og til baka frá London til Malaga. Samsvarandi tölur fyrir lambakjöt eru um 339 kg af gróðurhúsalofttegundum sem jafngildir því að aka hringinn í kringum Ísland (c.a. 1.392km).
Já, ég borða nánast aldrei kjöt og ef ég geri það þá er það lamb, einu sinni í mánuði, í mesta lagi. Mæli með því.
7. Drögum úr matarsóun
Hættum að sóa mat. Þjóðir heims henda gríðarlegu magni af mat og eru Íslendingar þar engin undantekning. Árlega hendir hver fjölskylda mat sem samsvarar þriggja vikna launum. Margt má gera til að sporna við þessari óhugnanlegu þróun. Best er að skipuleggja innkaupin og fara með innkaupalista í búðina, notaðu nefið – ef varan er merkt „best fyrir“, skipuleggðu ísskápinn þannig að þú sjáir ferskvöruna þegar þú opnar skápinn o.fl. Fleiri ráð á matarsoun.is.
Aftur að veirunni skæðu. Þegar ég hætti að fara út að borða og keypti sjaldan í matinn þá enduruppgötvaði ég þetta sem ég gerði alltaf í gamla daga, að elda það sem er til í ísskápnum. Svo er það frystirinn. Hann er nú meiri snilldin. Um leið sparast líka gríðarlegt magn af peningum svo að forðast matarsóun er sko aldeilis málið.
8. Spörum einkabílinn
Spörum einkabílinn. Göngum og hjólum ef við höfum tök á því. Notum almenningssamgöngur, sameinumst í bíla og deilum bíl með öðrum. Gætum þess að drepa á bílnum þegar hægt er og hafa hann ekki í lausagangi.
Þarna tékka ég aftur í græna boxið. Mér finnst bílar algerlega ofmetnir en vissulega fer það mikið eftir fjölskylduforminu hversu nauðsynlegur bíllinn er. Ég skil það vel að fjölskyldur með tvo litla krakka þurfi kannski á bíl að halda en þegar fólk er orðið fullorðið þá gæti vel hentað betur að nota blandaðan ferðamáta. Sjálf skrölti ég um á gömlum sveitabíl sem ég er að passa fyrir vinkonu mína þessa dagana en annars hef ég notað reiðhjól, strætó, Hopp, leigubíla og fengið far, svona allt í bland. Með því sparast líka mikill peningur.
9. Gefum vistvænar gjafir
Gjafir. Gefum upplifun eða eitthvað sem eyðist. Einnig má gefa samverustund líkt og fjallgöngu, ferðalag, spilakvöld, notuð leikföng og bækur, áskrift að tímariti, gjafabréf eða námskeið.
Já, ég hef einmitt komist að því að það er mjög sniðugt að kaupa second hand gjafir sem ég veit að muni falla í kramið hjá þiggjandanum. Til dæmis þiggur lítil stelpa allskonar glingur með mikilli gleði. Börnum er hjartanlega sama hvort hluturinn kostar eitthvað eða ekki. Og svo er alltaf gaman að gefa pottaplöntur.
10. Kjósum og höfum áhrif
Krefjum frambjóðendur um svör og stefnu í loftslagsmálum. Ef við erum flokksbundin þá eigum við að krefjast þess að flokkurinn taki loftslagsmál á dagskrá.
Höfum áhrif. Breytum okkur sjálfum og höfum áhrif á aðra. Breytum eigin neysluháttum og hættum að kaupa og nota óþarfa. Verum góðar fyrirmyndir. Höfum áhrif á aðra með því að ræða málin við fjölskyldu, vini o.fl. Ræðum við fólkið í hverfinu, þorpinu og skólanum. Kjósum þau sem verja náttúruna, og munum að við getum boðið okkur fram sjálf.
Þetta með að fara bara í framboð er kannski full radical og þar sem ég hef aldrei keypt eða notað óþarfa þá er ég með góða samvisku þar.
Að endingu:
Ég held svei mér þá að ég sé bara í ágætum málum hvað þetta varðar og ætla að halda mínum „hippa lífsstíl“ áfram. Kaupa notuð húsgögn, notuð föt, grænmeti og annað úr heimabyggð og helst það sem er framleitt af „litla manninum“. Ég ætla ekki að sjá fyrir mér flóðbylgjur og ísbirni í miðbænum heldur halda áfram og halda ró minni. Það er jú alger óþarfi að sitja við eldhúsborðið og naga á sér neglurnar í kvíða yfir einhverju sem ekki er hægt að hafa bein áhrif á, og skerða um leið möguleikann á að fá að njóta þess að vera til.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.