Sigrún Elín Birgisdóttir les lífið með aðstoð tarotspila en með forvitnina í fararbroddi fór ég á fund við Sigrúnu fyrir skemmstu.
„Hlustaðu á þína innri rödd og leyfðu hjartanu að ráða för. Lífið er ævintýri sem snýst um að vera sannur sjálfum sér og treysta á styrk sinn,“ sagði Sigrún og horfði á tarotspilin sem lágu á sléttu borðinu.
Rjúkandi kaffibollinn virtist eitthvað svo ámátlegur og næsta líflaus í samanburðinum við sprelllifandi spilin. Ég var ólm að heyra meira og horfði á Sigrúnu sem starfað hefur við tarotlestur og heilun í yfir þrjátíu ár.
Margir eru forvitnir um framtíðina og vilja fá staðfestingu á vali sínu í einkalífi eða vinnu. Sumir sækja styrk til sálfræðinga og lækna, aðrir leita til þeirra sem lengra sjá en við hin.
En hvað með sjáandann, hvað gefur tarotlesturinn henni?
„Þetta gefur mér mikið og ég hef virkilegan áhuga á þessu. Mig langaði alltaf að heila og spá. Mystíkin í spilunum er spennandi, í þeim er falinn heill heimur og má þar meðal annars finna guðfræði og dulspeki. Þegar spilin eru lögð má lesa úr þeim boðskap sem snertir alla. Hann vekur sérhverja manneskju til umhugsunar um kjarna sinn. Spilin velta upp áleitum spurningum um það hver við erum og hvað við ætlum okkur. Tækifærin og leiðsögnin birtast í spilunum sem tarotlesarinn túlkar á sinn hátt en síðan er það hvers og eins að grípa allt þetta á lofti og spila sem allra best úr því.”
Sigrún Elín lærði til guðfræði á sínum tíma og segir að þaðan hafi hún góðan grunn sem hjálpi henni bæði í tarotlestri og heilun.
„Með aðstoð spilanna má opna leið að manneskjunni og það hefur oft reynst heilandi ferli sem getur styrkt hana og hjálpað henni áfram. Það mikilvægasta við þetta ferli er hugarfarsbreytingin, þegar fólk opnar fyrir breytingum og áttar sig á því að það hefur etv. sjálft staðið í vegi fyrir þeim með afstöðu sinni,“ segir hún.
„Allt fer þetta eftir því hversu móttækileg við erum og svo skiptir líka máli hvaðan við komum og hvað við höfum meðferðist inn í þessa jarðvist. Sú reynsla sem býr að baki okkur ræður úrslitum um það hvaða foreldra við veljum okkur í þessu lífi og svo hinu næsta,“ segir hún og meinar að okkur sé ætlað að þroskast sífellt meira og meira.
„Líklegast er besta samlíkingin laukurinn. Þegar hann er flysjaður lag fyrir lag leynist kjarninn þar innst inni. Svona erum við mannfólkið sem leitum að kjarna okkar. Til að þekkja sjálfan sig þarf að fjarlægja mikinn misskilning sem umhverfið hefur slegið inn í kollinn á okkur og hindrar okkur jafnvel í að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Dæmi um slíkt er menntakerfið og væntingar okkar nánustu.”
Ábyrgðin sem fylgir starfi þess sem sér lengra en við hin og vinnur með fólk er mikil. “Spilin sýna þeirrisem spáð er fyrir aðferðir sem gætu hjálpað akkúrat núna, ef til vill eitthvað sem hún hafði ekki leitt hugann að,” segir Sigrún Elín og bætir við að samverustund spákonu og þess sem spáð er fyrir eigi að vera í gleði og útkoman aðeins möguleikar í stöðunni, ekki heilagur sannleikur frá Guði.
„Ég mæti þó af fullum heiðarleika og alvöru til leiks enda skiptir máli að tarotlesturinn sé vandaður. Lífið er fullt af tækifærum. Ég spyr hvað þú viljir gera við líf þitt. Framkvæmdin er í þínum höndum en ég er hörð á því að fólk hlusti á boðskap spilanna,“ bætir hún við glettin.
„Á spástundinni ættum við að láta nokkur augnablik af rökhugsun róa og leyfa hjartanu að ráða för -innan skynsamlegra marka.“
Hægt er að nálgast Sigrúnu hér á Facebook.Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.