Ég hélt upp á afmælið mitt um daginn. Þetta væri að sjálfsögðu ekki beint í frásögu færandi nema hvað að ég ákvað að hafa þetta alveg sérstaklega vel skipulagt.
Atriði númer eitt var að hafa þetta 110% út frá því sem mér finnst skemmtilegt. Mér finnst til dæmis mjög skemmtilegt að syngja og því fékk ég vinkonu til að lána mér hátalara og míkrófón svo við gætum nú tekið lagið í karaoke.
Skemmtunin
Nú til dags þarf ekki meira en míkrófón og hátalara svo að hægt sé að halda gott karaoke partý… öll lög heims eru komin inn á Youtube í sérlegum karaoke útgáfum og ef þú átt snjallsjónvarp (eða Apple TV ) þá geta allir veislugestirnir með tölu tekið undir í söngnum þar sem bæði texti og tónar koma frá sjónvarpinu þínu.
Það gerðum við með því að syngja saman lagið Walk on the wilde side eftir Lou blessaðan Reed. Allir tóku undir í viðlaginu og sungu duduruduru duduru duduruduru… Frábært lag og hreint tilvalið til að rífa alla í gang. Reyndar verður þetta lag örugglega spilað í jarðarförinni minni líka, en það er önnur saga 😉
Restin af kvöldinu fór svo í söng, trall og spjall langt frameftir en meðal annars voru sungin lög með Amy Winehouse, Meatloaf, Britney Spears, Rolling Stones, Rihönnu, Beasty Boys og svo framvegis. Sumir fóru hásir heim. Ef ekki skrækir.
Skrautið
Annað sem klikkar ekki þegar góða veislu gjöra skal er hverskonar skraut. Skraut er skemmtilegt og það er aldrei of mikið af því þegar maður er að gera sér dagamun. Ég keypti svona fimm bleika og sæta skreytidúska, eða pompoms, á netinu og lét senda mér í pósti með góðum fyrirvara (sjá efstu mynd). Það var auðvitað engin önnur en frú Martha Stewart sem hannaði þessa dúska #lágmark.
Mest kom það mér á óvart hvað maður er lengi að spenna dúskana upp, það tók heila eilífð svo endilega kláraðu dúskaskreytingar daginn áður ef þú hyggst bralla með þetta skreyti trix. Blöðrur eru líka frábærar en meðan við hituðum upp í karaoke hjálpuðust gestirnir við að blása upp brilliant blöðrur með LED ljósum innan í. Þessar keypti vinkona mín fyrir mig í dótabúð í Ameríkunni gjöfulu og þær voru æði þegar leið á kvöldið og dimmuna.
Veislutjald er annað mál sem kemur sterkt inn, haldi maður veislu um mitt sumar. Veislutjöld eru frábær fyrir margar sakir en ég fann eitt alveg stórfínt á 16.000 kr á vefnum veislutjald.is. Þá var ég búin að fletta lengi og leita á netinu.
Gestirnir
Þá var það gestalistinn. Mig langaði að bjóða fólki sem mér finnst skemmtilegt og fólki sem mér þykir vænt um. Þetta er auðvitað fullt af fólki svo ég hélt ekki aftur af mér með gestalistann. Auðvitað komu margar ‘gamlar’ pjattrófur, bæði virkar og óvirkar… og svo voru líka nokkrir sem mig langaði einfaldlega að rifja upp kynni við og/eða kynnast betur. Þetta var fólk á öllum aldri, ættingjar og vinir, allt í bland. Það er best þannig. Af því lífið er jú allskonar og mér leiðast svo formlegheit.
Ég er alveg á því að veislur verði bara skemmtilegri því fleirum sem maður býður og þegar maður er kominn yfir þann aldur að fólk sé að draga með sér boðflennur þá er alveg óþarfi að vera á bremsunni, – þó stefnan sé auðvitað ekki tekin á einhverja Dúfnahóla 10 stemmingu með einhverju random týndu fólki að leita að glensi… þú veist hvað ég meina.
Maturinn
Ég hafði takmarkaðan áhuga á að fá taugaáfall við eldamennsku korteri í partý svo ég pantaði tapas í veisluna. Tapasbarinn er með frábæra veisluþjónustu á fjölbreyttu verði en þú getur pantað nokkrar góðar samsetningar hjá þeim og svo er matnum bara skutlað til þín klukkutíma áður en veislan hefst.
Ég hef nefninlega stundum brennt mig á því að kaupa heil ósköp af hrávöru inn fyrir veislur, standa síðan á haus að græja einhverja veislurétti og sitja svo uppi með rest af sérvöru inni í ísskáp sem verður aldrei notuð aftur og endar í ruslinu, fyrr eða síðar. Og ég hata matarsóun.
Útreikningar mínir leiddu til þess að það var alveg jafn skynsamlegt að panta matinn frá fagfólki og nota tímann í annað en að elda í sólarhring og svo… henda. Útkoman var þetta líka dásamlega fallega veisluborð hlaðið fjölbreyttum tapas réttum! Það er fátt girnilegra en litríkir tapasréttir og gestirnir voru alsælir og saddir. Allir fengu eitthvað gott. Bæði grænmetis og kjötætur. Brilliant lausn!
Drykkirnir – áfengt og óáfengt
Til að fólk fengi eitthvað gott að drekka með bauð ég upp á þrennt. Tvær gerðir af sangríu (hvíta og rauða), heimagert límonaði og litlar kók í gleri sem ég lét liggja í klaka í sætum ál-bala úti á palli.
Heimagerða límonaðið er einfaldlega blanda af sítrónu, lime, sykursýrópi, vatni og klaka en þessi drykkur er svo gott sem ómótstæðilegur og enn skemmtilegra er að bera hann fram í svona sex lítra krukku sem fékk að standa á skenk í borðstofunni.
Kók í gleri
Tveggja lítra gosbrúsar úti um allt koma ekki eins vel fallega út í veislum og kók í klaka í bala á pallinum, fyrir utan það hvað fólki finnst bara næs að fá sér litla kók í gleri. Þetta er algjörlega mátulegur skammtur og mikið meira klassí en að vera að sötra þetta úr einhverju plasti eða áldós. Drykkir í gleri bragðast bara betur. Svona hlutir skipta máli. Smáatriði eru stór atriði.
Af því ég þekki svo margar skvísur þá gekk heldur ekki annað en að hafa nokkrar freyðivínsflöskur með.
Ég prófaði að splæsa í freyðivín sem ég hafði aldrei prófað áður en hafði heyrt góða hluti um. Spænsku ‘cava’ gerðina Villa Conchi Brut. Mér fannst bara túrkísblái miðinn svo fallegur með þessum gyllta, skrautlega ramma og stelpunum fannst það líka.
Þetta virkaði eins vel og freyðivín getur virkað og smakkaðist líka alveg þrælvel. Flaskan kostar rétt tæpar 2000 kr og ég keypti þetta í vínbúðinni í Kringlunni.
…geri ekkert ef það sé ekki lekkert
Hinn spænski þjóðardrykkur, sangría, hefur þann ótvíræða kost að smakkast sérlega vel með tapas réttum og svo verður fólk almennt ekki eins drukkið af sangríunni og bjórþambi eða sterku. Maður vill ekki hafa alla á hliðinni heima hjá sér nema vera búin að kaupa heimiliskaskó áður og ég hafði ekki tíma til þess að græja það.
Sangríuna blandaði ég m.a. með granateplasafa og bláberjum, en ég gerði líka “venjulega sangriu” með appelsínusafa og allskonar ávöxtum. Í takt við þemað bauð ég einnig upp á spænskt Albali vín sem er frá Spáni og allir voru sammála um að væri hreint fyrirtak, bæði þetta rauða og hvíta.
Eftir á að hyggja hefði ég líklegast haft nokkra bjóra líka en það verður bara með þegar ég held aftur afmælisboð eftir fimm ár. Þá skiptir auðvitað máli að þeir verði í flottum flöskum. Ef ekki bara sérhönnðum? Kannski verð ég búin að láta brugga sérstaka afmælis bjórtegund fyrir mig? – „Ég geri ekkert ef það sé ekki lekkert.”
Aðstoðin
Blóm, blöðrur, dúskaskraut, karaoke, góðar veitingar, góðir gestir og síðast en ekki síst góð aðstoð. Systir mín er umboðskona fyrir þjóna svo auðvitað fékk ég dömu á hennar vegum til að hjálpa mér að uppvarta í þessari veislu. Það er í raun ekki skemmtilegt að vera þjónn í boði sem á að snúast um mann sjálfan, stressuð á þönum að sjá til þess að allt sé í standi.
Ég borgaði dömunni bara tímakaup og hún sá til þess að gestir hefðu nóg að drekka og borða. Hún tók líka til, fyllti á glös… já bara gerði það sem þarf að gera í veislu sem þessari. Ég hafði aldrei áður prófað að fá svona utanaðkomandi aðstoð í boð hjá mér – en ég held að héðan í frá komi ekki annað til greina, enda ég orðin roskin miðaldra kona.
Myndirnar
Síðast en ekki síst ákvað ég að vera heldur ekki ljósmyndari í mínu eigin boði svo ég fékk hana Emilíu Kristínu til að taka myndirnar fyrir mig. Það er eitthvað sem ég held að sé alveg möst… það er að segja, fá einhvern annan en þig sjálfa til að taka myndir í boðinu, helst einhvern færan ljósmyndara sem þekkir ekki alla gestina heldur sér þetta frá sínu sjónarhorni.
Svo er líka virkilega gaman, (þegar maður er nú einu sinni búin að leggja mikið í gott boð og djöflast í nokkra daga við að draga inn vistir og sjá til þess að allt sé í lagi)… að fá almenninlegar ljósmyndir en ekki bara einhver snöpp á símann. Ég er að minnsta kosti þakklát fyrir þessar góðu minningar, góðu myndir og að svona margir skyldu láta sjá sig.
Næstu veislu á sama kaliberi mun ég halda eftir fimm ár, enda finnst mér algjör skylda að halda almenninlega upp á afmælið sitt á fimm ára fresti. Það er ekkert sjálfsagt að hafa góða heilsu, þekkja gott og skemmtilegt fólk og vera í góðu stuði. En ef maður er svo heppin/n – þá ber auðvitað að fagna því!
One love ♥
Ps. Ef þú ert forvitin um eitthvað sem tengist þessu partýplani þá máttu alveg senda mér skeyti í gegnum Facebook og ég skal glöð gefa þér ábendingar. Tengill á það er hér fyrir neðan hjá höfundaboxinu mínu.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.