Tungumál er eina leiðin fyrir okkur mannfólkið til að tjá okkur og koma skilaboðum á milli hvors annars. Við vitum ekki enn nákvæmlega hvernig boðskiptakerfi á milli dýra virka en allstaðar í náttúrunni liggja tungumál og samskiptakerfi hönnuð til tjáningar.
Ég tala sjálf fjögur tungumál án erfiðleika, þar að auki tala ég tvö önnur tungumál lítillega (kallast að vera mellufær) og tvö í viðbót get ég átt í prímal samræðum á, líklegast einhverju tengdu hótelherbergjum og kokteilapöntunum. Sem er líklegast það eina sem maður þarf að kunna?
Tungumál & tækifærin
Tungumálakennsla, nám og fróðleikur tengdur tungumálum er fyrir mér gríðarlega mikilvægt. Að ég tali þessi tungumál hefur opnað ótal hurðir fyrir mig og ég tala nú ekki um allan flóruna af fólki sem ég hef kynnst bara með því að vera mellufær í móðurmáli einhvers. Tækifærin sem birtast síðan í kjölfarið eru ómetanlega.
Að halda sér í formi
Það getur tekið á að læra nýtt tungumál og tileinka sér öll þau smáatriði og sérkenni sem fylgja hverju máli. Því fylgir vinna og tími. Það sorglegasta við tungumálanám er að það getur á stuttum tíma fallið í gleymskunnar dáð. Það eina sem kemur í veg fyrir að við gleymum er að halda sér við. Ekki ólíkt því að halda sér í formi í ræktinni og mæta reglulega, þurfum við að æfa tungumálið sem við höfðum fyrir því að læra og halda því við.
Það er ekki alltaf auðvelt. Ég labba til dæmis ekki um í Kringlunni og legg á hlustir og stekk á næsta spænskumælandi einstakling og býð hann hjartanlega velkominn á móðurmálinu hans. Það væri í fyrsta lagi skrýtið og þar að auki kæmist ég aldrei langt með samræðurnar því ég væri líklegast handtekin fljótlega.
Smekkleg endurmenntun
Eitt besta ráðið við að halda sér í “formi” hvað varðar erlend tungumál er að lesa en því miður hefur maður takmarkaðan tíma til að liggja upp í sófa og lesa tíuþúsund síðna best of doðrant eftir Decartes á frönsku. Hér kemur internetið inn og bjargar deginum (eins og alltaf). Ég les nefnilega eiginlega bara blogg núna til að halda mér við.
Fashion, c’est ma passion
Ég get valið hvað ég les um, eitthvað sem tengist mínu áhugasviðið eins og tískublogg. Ég les tískublogg í 10-15 mínútur daglega á hinum ýmsu tunugmálum til að halda mér við, minni sjálfa mig á málfræðinotkun, stafsetningu og uppfæri orðaforðann.
Snilldin við t.d tískublogg er að það er mikið af myndum, textinn er yfirleitt einfaldur og stuttur og fullur af “götu-orðum” þ.e. ekki skrifmál heldur talmál. Markmiðið er að æfa talmálið því það er jú það sem við viljum gera gert – ef ég lendi í matarboði hliðiná svía vil ég getað spjallað við hann á hans máli. Ég vil helst ekki hljóma eins og talandi fornbókaverslun.
Ég hafði samband við nokkra heimsborgara sem voru svo vinalegir að kynna mig fyrir góðum tískubloggum sem þægilegt er að lesa til að halda málfærninni við. Ég setti saman lista af ýmsum tísku síðum á allskonar tungumálum. Ef þú talar annað tungumál en ensku og hefur gaman af tísku mæli ég með að þú komir þér upp venju að lesa á tungumálinu í 10 mínútur á dag. Þannig læriru og fljótlega verða orðabækur óþarfar.
Þú verður brátt reiprennandi tungumálaséní, upprennandi diplómati og ekta heimsborgari með aðdáunarvert tískuvit og óaðfinnanlegan smekk.
SÆNSKA Angelica Blick– Hanna Stefansson – Victoria Törnegren
FRANSKA Garance Doré – Hello its Valentine – Cuillére á absinthe
ÍTALSKA The blonde salad – The fashion fruit – The Three F
SPÆNSKA De la moda y otros demonios – Style lovely – La otra horma del zapato
NORSKA Style devil – Ulrikke Lund – By Benedicthe
ÞÝSKA Journelles – Masha – Sedgwick – Josie loves
DANSKA A machine life – Adélie – Sarah Louise
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.