Hefurðu einhvern tímann velt því fyrir þér af hverju það birtast myndir af fólki við sumar athugasemdir á netinu, en ekki við þína athugasemd? Hefurðu velt því fyrir þér hvernig sumir geta birt svona töff mynd af sér en aðrir ekki?
Svarið er Gravatar, hinn ómissandi fylgihlutur allra sem vilja vera töff á netinu.
Myndin sem birtist við sumar athugasemdirnar er kölluð Gravatar en þetta enska orð stendur fyrir Globally Recognized Avatar (athugið að ég er ekki að tala um bíómyndina Avatar).
Reynt hefur verið að þýða orðið avatar yfir á okkar ástkæra, ylhýra sem gengill eða skjávera og margt fleira. Gravatar.com er þjónustan sem er notuð í þessum tilgangi, en hún er ókeypis og leyfir þér að hlaða upp mynd og gera hana að þínu eigin avatar í bloggkerfum heimsins með því að tengja myndina við netfangið þitt. Gravatar virkar hreinlega út um allt: hérna á Pjattrófublogginu, á Eyjunni, flestum venjulegum bloggum, í WordPress og ég veit ekki hvað og hvað.
Gravatar myndir hjálpa til við að persónugera Internetið og skapa lifandi samfélög og umræðuvettvanga á netinu. Þær láta líka þína athugasemd standa upp úr hinum sem enga mynd hafa!
Vertu skutla á netinu og fáðu þér töff gravatar, það tekur ekki nema 2 mínútur! Þú getur notað flottustu myndina af þér af Facebook, mynd af kettinum þínum eða uppáhalds skónum, hvað sem er og um að gera að vera bara frumleg.
Frumsýndu svo gravatarið þitt með því að skrifa athugasemd við þennan póst 🙂
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.