Ég á svo góða systur sem gaf mér Android síma í seinustu viku og hef ég varla látið hann frá mér síðan ég fékk hann.
Ég hafði alltaf haldið að það eina sem virkaði væri iPhone, en nei síminn minn kostaði rúmum 100.000 krónum minna og ég gæti ekki verið glaðari með hann!
Nema þá að ég sakna þess smá að hafa Siri en ég hef hvort sem er heyrt að hún sé frekar einfaldur karakter og ekki neitt svakalega hlýleg…
Áður en ég fékk símann var ég eigilega bara spennt fyrir því að fá loksins að vera með í instagram æðinu þar sem ég er haldin einhverjum gífurlegum hugmyndum um að ég sé svo frábær ljósmyndari og ekki get ég gert heiminum það að deila þeim hæfileika mínum ekki með honum.
En eftir að ég var búin að hlaða niður instagram vissi ég eiginlega ekki neitt meira hvað ég átti að gera með þetta ótrúlega sniðuga tæki sem ég var með í höndunum…jú ég gat skrifað SMS og vissulega gat ég hringt en mig langaði bara að gera svo miklu, miklu meira svo ég fór að leita að því hvað ég gæti gert meira en að taka mynd og láta líta út fyrir að hún hefði verið tekin árið 1977.
Öll mikilvægustu Android “öppin” er auðvitað að finna í GooglePlay sem inn í símanum heitir Play Store, þegar þangað er komið er auðvitað hægt að leita fram og til baka að sniðugum öppum en hér eru þau allra sniðugustu sem ég fann og þau eru öll ókeypis!
1. Já
Appið kostar 149kr á mánuði ef það er notað og er sú upphæð tekin af inneigninni þinni.
Appið gerir það að verkum að í hvert skipti sem hringt er í þig frá símanúmeri sem ekki er skráð í símaskránna í símanum þínum leitar það að númerinu í gagnagrunni já.is og sýnir upplýsingarnar um þann sem hringir á skjá símans. Upplýsingarnar skrást svo í uppflettirit inn í appinu þar sem hægt er að velja að skrá upplýsingarnar í símaskrá símans þíns.
Ef þú ert með þetta app er um að gera að skrá alla inn í símaskránna þína sem þú átt von á því að fá símtal frá því ef þú þarft ekki að nota appið, færðu enga rukkun um mánaðargjaldið.
2. Leggja.is
Þetta app er algjört „möst“ fyrir þá sem þurfa einhvertíma að leggja í miðbæ Reykjavíkur. Hægt er að velja að greiða mánaðargjald fyrir þjónustuna sem er 419 kr. Eða að greiða í hvert skipti sem lagt er en gjaldið er þá 74 kr. fyrir hvert skipti sem bílnum er lagt í gjaldskylt stæði.
Það þarf einfaldlega að hafa límmiða frá leggja.is í bílglugganum og skrá sig inn á appið til að gera þetta virkt.
3. Slide IT
Mér leið allt í einu eins og gamalmenni að reyna að læra á nýju hipp og kúl tæknina þegar ég fékk síma með snertiskjá. Ég hitti aldrei á rétta takka og það tók mig helmingi lengri tíma að skrifa SMS heldur en það hafði tekið mig á gamla símann minn sem var með hefðbundna lyklaborðinu með tölustöfunum.
Þegar ég uppgötvaði þessa snilld er ég hins vegar farin að skrifa SMS tvöfalt hraðar en áður, maður bara rennir fingrinum á milli þeirra stafa sem eru í orðinu og orðið kemur upp á skjáinn, eða nokkrar tillögur sem hægt er að velja á milli. Núna get ég svo líka farið að skrifa tölvupósta og stöðu-uppfærslur á facebook án þess að það taki mig langan tíma! Það er svo auðvitað nauðsynlegt að fá sér íslensku viðbótina svo þetta virki á íslensku!
4. TweetCaster
Fullkomið app til þess að fylgjast með öllu sem er að gerast á twitter. Hægt er að skipta þeim sem þú ert að fylgjast með í mismunandi hópa, finna nýtt fólk til þess að fylgjast með út frá þinni staðsetningu og svo er uppsetning á forritinu svo auðveld og aðgengileg að þetta forrit fær hærri einkunn og betri umsagnir en “appið” frá Twitter.
5. 112
Það ættu allir að vera með þetta app, en það sendir SMS til 112 um leið og þú hringir til þeirra og gefur þeim upp staðsetningu þína.
6. Dropbox
Ef þú ert með dropbox appið færast allar myndir sem þú tekur á símann sjálfkrafa yfir á dropboxið sem gerir þær aðgengilegar á tölvu um leið og þú tekur þær, svo er líka hægt að nota dropbox í margt annað hagkvæmara en þetta með myndirnar er allavega lang skemmtilegast 😉
7. My Calendar
Í hverjum mánuði þegar ég byrja á blæðingum hef ég ætlað mér að skrá niður hvenær ég byrja og hvenær ég hætti en í hverjum mánuði gleymi ég því…og allt í einu eru liðin 15 ár án þess að ég hafi nokkurtíma gert neitt í þessu. En þetta dagatal er sérsniðið fyrir akkúrat þetta. Ekki er aðeins hægt að skrá þetta heldur er hægt að skrá í hvrenig skapi maður er í á hverjum degi, hvort það séu einhver líkamleg einkenni hvort maður sé búin að taka pilluna og meira að segja er hægt að skrá hvenær maður stundar kynlíf. Inn á þessu dagatali getur maður líka skráð þyngdina sína og líkamshita, út frá öllum þessum upplýsingum sem maður setur inn í þetta forrit reiknar það svo út hvað tíðahringurinn manns sé langur, hvenær maður er með egglos og hvenær maður er frjór. Svo skráir forritið í línurit hvernig líkamsþyngd og líkamshiti manns breytist í gegnum allt þetta ferli.
8. Alarm Clock Xtreme
Það er hægt að stilla allt á þessari vekjaraklukku! Þú byrjar á því að stilla hvernig þú vilt vakna á hverjum einasta degi, hver dagur er einstakur svo auðvitað getur þú valið hvenær þú vilt vakna á hverjum vikudegi fyrir sig. Þegar þetta er búið þarftu svo aldrei að hafa áhyggjur af því að stilla vekjaraklukkuna af því hún stillir sig sjálf. Þegar þú ferð í frí þarftu svo ekki að hreinsa út allt sem þú varst búin að vanda þig svo við að setja inn, nei þú stillir bara á vacation mode og tekur það svo aftur af þegar fríið er búið og klukkan byrjar á réttum degi. Ef þú ert svo snooze fíkill þá getur þú stillt bæði snoozið og takkann til að slökkva á vekjaraklukkunni þannig að þú þurfir að leysa stærðfræðidæmi eða slá inn captcha texta til þess að slökkva á vekjaranum!
9. Remember the milk
Handhægur verkefnalisti, hægt er að búa til möppur fyrir mismunandi verkefni og hafa verkefnin með og án dagsetninga. Annar verkefnalisti sem er líklega betri að vissu leyti er out of milk en hann hentaði ekki fyrir það sem ég vildi nota listann í svo ég get bara mælt með remember the milk, sem hentar mér fullkomlega!
10. Stjörnur.is
Er nýtt app frá já.is og með þessu forriti finnur þú þjónustuaðila úr símaskránni út frá þinni GPS staðsetningu og raðast staðirnir þá eftir nálægð, fjölda ummæla og stjörnugjöf frá öðrum viðskiptavinum. Þú til dæmis leitað að veitingastöðum, verslunum, kaffihúsum, bakaríum, ísbúðum og bensínstöðvum.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.