Ég er frekar dugleg að nota ljósmyndaforritið Instagram á snjallsímanum mínum en mér finnst það einstaklega skemmtilegt forrit og fylgist ég með fólki hingað og þangað um heiminn og fylgist fólk með mér hingað og þangað um heiminn á móti.
Þegar notendur setja inn myndir í forritið er ekki óalgengt að settur sé texti fyrir neðan myndina, sum orð eru tögguð og er það gert með því að smella # merki á undan orði. Þegar það er gert myndast flýtileið á myndir sem hafa verið taggaðar á sama hátt og getur maður skoðað til dæmis fleiri myndir af ákveðnum stöðum, hlutum og í rauninni öllu því sem fólki dettur í hug að tagga.
Það sem ég hef aftur á móti verið að velta fyrir mér er hvort við, í framtíðinni, munum leiðast út í að hafa samskipti á þennan hátt, en þegar ég tek margar myndir af sama atburðinum er algengt að ég gef mér tíma að skrifa lýsingu með fyrstu myndinni en svo þegar næstu myndir koma nota ég eingöngu töggin.
Hér má sjá dæmi en með þessari mynd skrifaði ég upphaflega:
What is in the #box. #Special #delivery from a #friend from #work who just came #home from #boston. #happy #cheesecakefactory #godiva
Því næst setti ég inn þessa mynd:
Og það sem gerðist var að setningin styttist töluvert og varð að þessari
#special #delivery from a #friend #godiva #cheesecakefactory #boston #happy
Í raun er vel hægt að skilja hvað um ræðir þar sem myndin talar einnig sínu máli, ég er glöð yfir að vinkona mín úr vinnunni hafi sérstaklega farið og keypt handa mér köku á Cheesecake Factory í Boston en getur verið að samskiptamáti okkar verði í framtíðinni svona ? Við hættum að nenna að skrifa heilu setningarnar og förum að tala taggmál ?
#Kringlan #Fimmtudagur #Buxur #GottVerd #Lunch #Kaffi #Kallinn væri þá stytting á “Fór í Kringluna á fimmtudaginn með kallinum og keypti mér buxur á ferlega góðu verði. Stoppuðum við á veitingarstað og fengum okkur hádegismat og rjúkandi kaffibolla á eftir.”
Kosturinn við taggmálið er að við spörum pappírskostnað, t.d. væri rannsóknarskýrslan töluvert styttri ;), en væntanlega bjóðum við upp á mikinn misskilning þar sem þessi tjáningarmáti getur varla talist vera skýr, eða hvað ?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.