Ert þú nýbúin að fá þér Ipad og ert ekki alveg með á hreinu hvaða möguleikar eru fyrir hendi eða langar að læra brögð og brellur?
Hér eru nokkur trix sem þú gætir nýtt þér ef þú ert með ferskan iPad í fanginum og langar til að læra betur á hann.
1. Flýttu þér upp
Ertu komin með leið á að skrolla alla leiðina upp til að komast á byrjunina á síðunni þegar þú ert búin að lesa heila grein?
Það er til einföld leið til að komast á toppinn fljótt og auðveldlega. Smelltu einfaldlega efst á iPaddinn þar sem klukkan er og þú rýkur upp á ofurhraða.
2. Flakka milli forrita
Þegar ég er í iPaddnum mínum er ég oft að flakka á milli forrita og í staðinn fyrir að loka forriti til að komast í það næsta er hægt að tvísmella á “Home” hnappinn (hnappurinn í miðjunni) og opnast þá “sleði” með forritunum sem þú notaðist síðast. Ef þú rennir sleðanum til vinstri ert þú komin í valmöguleikann sem stjórnar því hvort skjárinn geti velt sér, stillingu á birtuskilyrðinu, hljóðstjórnborðinu og fleira en ég nota þessar flýtileiðir mjög mikið.
3. Bættu við fleiri forritum á dokkuna
Þegar þú kaupir iPaddinn eru nokkur forrit sem er neðst á skjánum hjá þér.
Vissir þú að það er hægt að bæta við fleirum ? Smelltu einfaldlega á forritið sem þú vilt að sé neðst á skjánum og dragðu það niður. Þegar þú gerir þetta hristast öll forritin og x merki birtist hjá þeim forritum sem þú getur hent út, en til að láta forritin hætta að hristast smellir þú einu sinni á “home” hnappinn.
4. Taktu skjáskot
Ég þarf oft að taka skjáskot af skjánum hjá mér og er það ótrúlega einfalt. Haltu niðri “home” hnappnum og þar sem þú kveikir og slekkur á skjánum og bingó, skjáskotið er komið og vistað í Photos.
5. .com, .is, .uk, net
Þú hefur eflauast tekið eftir .com hnappnum sem birtist þegar þú ert að vafra í Safari. Prófaðu að halda hnappnum inni en þá birtist .is, .uk, .net og fleiri “punktureitthvað”.
6. Safnaðu saman svipuðum forritum
Fljótlega eftir að þú kaupir þér iPad fyllast skjáborðin af forritum. Þú getur á einfaldan hátt safnað saman svipuðum forritum með því að smella á eitt forrit, halda puttanum niðri, bíða eftir að forritið farið að hristast og draga það yfir annað forrit. Þá myndast mappa sem er hægt að endurskíra og ef þú ert með fleiri forrit sem þú vilt að fari í þessa möppu þá einfaldlega hendir þú fleiri forritum í möppuna.
7. Slökktu á keyrandi forritum
Þetta trix lærði ég fyrir stuttu, en ég hef oft velt fyrir mér hvernig ég slekk á forritum í iPad, en þegar maður lokar forritum þá er maður ekki endilega að slökkva á þeim og keyra þau í bakgrunni.
Tvísmelltu á “Home” hnappin, þá opnast neðst niðri keyrandi forrit. Smelltu á eitt forritið þar til kemur rauður mínus í vinstra horni og forritin fara að hristast. Smelltu á mínus táknið og voila forritið er lokað. ATH þú ert ekki að eyða út forritinu með því að gera þetta svona.
Ef þig langar til að læra meira á iPaddinn þinn mæli ég með að gúggla “Tips and Tricks for iPad” og heimurinn stækkar!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.