Það er ekki óalgengt að fólk missi símann sinn í vatn eða vökva. Mörgum tekst að missa hann í klósettið, vaskinn, ofan í poll, ofan í bjórinn og á hina ýmsu staði.
Margar konur geyma símann í brjósthaldaranum þegar þær fara á djammið, svitna svo eins og ég veit ekki hvað, tekst að koma raka inn í símann sem gerir hann ónothæfan og *ehrm* hef ég prófað það einu sinni *flaut*
Þegar þetta gerist er ekki óvanalegt að fát komi á fólk þar sem símar í dag geta hlaupið á mörgum þúsundköllum og þeir vaxa sannarlega ekki á trjánum. Þá fer fólk að reyna að kveikja á símunum, koma þeim í gang, rífa þá í sundur, setja þá saman og algjörlega panikka.
Þegar ég var í USA um daginn lenti vinkona mín í því að síminn hennar varð fyrir vatnskemmdum (man ekki alveg hvað kom fyrir), en hún fékk þær ráðleggingar að taka símann í sundur, setja hann í hrísgrjónapoka og láta liggja þar í nokkra daga eða þar til hann væri orðinn 100% þurr.
Hún hlýddi samviskusamlega og viti menn, síminn virkaði!
Dóttir mín lenti í þessu einnig um daginn (ég veit hvað gerðist fyrir þann síma) og hún gerði það sama, setti símann í hrísgrjónapoka og lét hann þorna vel og lengi og bingó! Síminn í lagi!
Um daginn fór ég svo í iPhone.is og átti tal við starfsmanninn um þetta. Hann alveg sammála um að þetta væri aðferðin og ef um iPhone væri að ræða, þá mælir hann með að setja í hrísgrjónapoka og láta þá fá símann en þeir taka að sér að þrífa hann vel og vandlega og forða honum frá frekara tjóni.
Sem sagt, húsráð dagsins er að vera alltaf með hrísgrjónapoka í veskinu á djamminu um helgar 😉
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.