Apple TV er sannarlega nýjasta æðið í bransanum og eitthvað sem sannir Apple unnendur ættu að stefna að því að eignast. Flestir sem þetta kaupa uppgötva fljótt að tækið verður jafnvel meira notað en brauðristin, svo gagnlegt er það.
Það er ótal margt sem þú getur gert með Apple TV eftir að búið er að tengja það við sjónvarpið.
Sjálf nota ég það aðallega til að horfa á myndir í gegnum Netflix en það er einskonar risa myndbandaleiga á netinu sem maður borgar þó bara áskrift að, eða átta dali á mánuði (sem er í kringum 1000 krónur). Í staðinn get ég horft á endalaust magn af sjónvarpsþáttum, heimildar og kvikmyndum og stelpan mín getur horft á alla þá hafmeyjuþætti sem hún kemst yfir.
Reyndar kallar þetta á góða nettengingu og mikið gagnamagn en persónulega reikna ég það á móti áskrift að fjölmiðlum þar sem auglýsingarnar dynja á mér og maður þarf að bíða í viku eftir næsta þætti (aldrei verið mikið fyrir það).
Á Apple TV er líka hægt að skoða myndirnar úr tölvunni eða fjölskyldualbúminu og ef þú átt iPhone geturðu hreinlega spilað myndirnar sem þú tókst á símann þinn í sjónvarpi sem er tengt við Apple TV. Þannig gæti fjölskyldan farið til Spánar, tekið fullt af myndum og komið svo heim til ömmu sem á Apple TV. Þar þarf ekki annað en að tengjast Apple TV, þráðlaust úr símanum yfir nettenginguna, og svo er bara að spila myndirnar og videoupptökurnar á skjánum.
Þetta er auðvitað frábært fyrir fólk sem vill njóta fjölskyldumyndanna annarsstaðar en á skjánum og auðvitað tilvalið fyrir boð og veislur. Þá er bæði hægt að velja ‘playlista’ af hvaða iPhone sem er og svo er líka hægt að skoða myndir.
Svo eru til leikir fyrir Apple TV sem hægt er að kaupa á App Store. Þá virkar síminn sem stýritæki og hægt að spila leikina í gegnum sjónvarpið. Til dæmis er hægt að kaupa kappakstursleik á 5 dollara og bruna um með símann sem stýri 😉
Einnig er hægt að kaupa myndir af iTunes og horfa á í Apple TV svo ekki sé minnst á allar útvarpsrásir heimsins, hlaðvarp, Youtube myndir og margt, margt fleira.
Meðal annars hef ég farið í jógatíma í gegnum myndhlaðvarp (Podcast) á Apple TV. Ég hef horft á Opruh Winfrey taka viðtal við Eckhart Tolle og ég hef lært hvernig er best skræla ananas.
En í stuttu máli – svo fátt eitt sé nefnt… Apple TV gerir þér kleyft að:
- … leigja bíómyndir og sjónvarpsþætti í gegnum iTunes búðina (bæði í hefðbundnum og háskerpugæðum).
- … nota Netflix, stærstu kvikmyndaleigu í heimi, ótakmarkað magn myndefnis fyrir rúmlega 1000 kr. á mánuði.
- … senda ljósmyndir, tónlist og myndbönd frá iPhone, iPad eða iPad Touch yfir í sjónvarpið, þannig að hver sem er getur orðið plötusnúður í partýinu þínu.
- … spegla hvað er að gerast á skjánum þínum yfir í sjónvarpið (þ.e. iPhone 4S og iPad 2)
- … hlustað á gífurlegt magn útvarpsstöðva, þannig að hver sem er getur fundið útvarpsstöð sér við hæfi.
- … deila iTunes safni tölvunnar þinnar yfir á Apple TV° spilarann.
Apple TV er hægt að fá hjá öllum sem selja Apple vörur.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.