Eins og ég elska eplatölvuna (MAC) mína mikið þá eru nokkrar aðgerðir sem er ekki hægt að framkvæma í henni eins og í gluggatölvunum (WINDOWS) sem gerir það að verkum að ég pirra mig stundum yfir henni.
Ein aðgerð sem ég hef saknað mikið er Win7 fítusinn sem gerir manni kleift að skipuleggja hvernig opin skjöl birtast á skjánum, en það gerir maður með því að smella á Windows takkann og örvarnar.
Þetta hef ég ekki getað gert í eplatölvunni minni fyrr en ég náði í forrit sem heitir iSnap og er í augnablikinu algjörlega fríkeypis á App store. Reyndar fylgir einnig forritinu einhverjir aðrir fítusar, en þessi er lang bestur og nú er miklu minna mál skipuleggja skjáinn sinn.
Annar fítus sem ég lærði reyndar í vikunni er að smella á Control og hægri örina til að fara lengst til hægri í texta eða Control og vinstri örina til að fara í byrjun á texta. Svo reyndar er hægt að smalla á Control + Option og hægri ör eða vinstri ör til að velja allan textann, en þessar flýtileiðir hjálpa manni ótrúlega þegar maður skrifar mikinn texta á degi hverjum.
Ég mæli með að læra á flýtileiðir á lyklaborðinu í tölvunni þinni, það sparar þér ótrúlegan tíma!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.