Finnst þér stundum eins og þú gætir verið að gera mikið gagnlegri hluti en að hanga á netinu og skoða myndbönd sem vinir hafa sett inn af skríkjandi börnum og dansandi hundum?
Fer stundum mikilvægur tími í það eitt að sólunda dýrmætum stundum í að lesa Facebook statusa og svara þeim?
Fylgjast svo með hvort einhver hafi líka svarað, kanna eventa, kommenta á myndir og svo framvegis og framvegis… langt inn í dimma nóttina meðan innst inni vildirðu að þú værir uppi í rúmi að klára bókina eða lesa uppáhalds tímaritið þitt. Svo vaknarðu næsta dag, mygluð og þreytt vitandi það að þetta skildi ekkert eftir sig.
Ef þú kannast eitthvað við þetta gæti verið gagnlegt fyrir þig að niðurhala forriti sem hreinlega skammtar þér tíma á Facebook.
Forritið heitir því einfalda nafni Self Control og kemur sér vel fyrir Facebook fíkla sem geta ekki sleppt því að smella á F*ið.
Self Control er hrikalega einfalt í notkun, jafn einfalt og eggjaklukka. Í raun virkar það á nákvæmlega sama hátt. Þú stillir ‘timerinn’ og læsir um leið Fésbókinni eða öðrum vefsíðum sem þú telur að sólundi tíma þínum.
Þú getur líka lokað á tölvupóstinn og þannig forðað sjálfri þér frá því að tékka honum og svara oft yfir daginn. Og svo er kannski ekki galið fyrir foreldra unglinga að setja forritið upp í tölvunum þeirra og læsa Facebook í þann tíma sem blessaður ungdómurinn á að vera að læra.
HÉR geturðu sótt Self Control og HÉR geturðu lesið meira um það og fengið leiðbeiningar HÉR. Forritið er hannað af listamanni sem neyddist hreinlega til að búa til þetta forrit svo hann kæmi einhverju gagnlegu í verk. Self Control er ætlað fyrir MAC tölvur en fyrir þig sem ert á PC geturðu notað samskonar forrit, Cold Turkey. Smella HÉR til að sækja það.
Njóttu svo þess að sortera myndir, hlusta á tónlist, nudda karlinn, prjóna og smyrna, gera armbeygjur og lesa… eða bara alls þess sem þú gerðir áður en Facebook kom til sögunnar…
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.