Undanfarna viku hef ég verið að gera nokkuð framandi tilraunir með mataræði mitt. Ástæðan er sú að ég hef átt það til að verða full þreytt.
Þreytt eftir matinn, þreytt á morgnanna, bara svona einum of þreytt fyrir minn smekk. Þreytt eftir fullan nætursvefn. Svo ég ákvað, eftir hreinlega margra ára umhugsun, að láta verða af því að taka allskonar óþolsvalda úr mataræði mínu og sjá hvað myndi gerast.
Það sem kom mér endanlega af stað er miðaldra maður sem ég kannast við. Svona beisikk karl. Iðnmenntaður, ofboðslega langt frá því að vera týpan sem sekkur sér í mataræðispælingar. Við erum að tala um mann sem eldar bjúgu.
Hann hafði glímt við erfiðleika í meltingunni sem leiddu til mikillar þreytu og annara kvilla svo hann fór og leitaði sér lækinga.
Hann fór í allskonar skoðanir og speglanir, hitti sérfræðinga, gott ef ekki fimm til sex sérfræðinga í læknageiranum sem gátu ómögulega séð hvað var að honum og ekkert lagaðist.
Svo kunningi minn ákvað að taka málin í sínar hendur. Las bækur, lagðist á netið. Niðurstaðan var sú að candita gæti verið að trufla hann, og þá var ekki annað að gera en að flæma það kvikindi út.
Hann tók úr mataræði sínu ALLAN sykur og líka allt sem er sætt eða hefur sömu áhrif og sykur þegar það kemur í meltinguna. Þá erum við að tala um alla ávexti, allt brauðmeti og svo framvegis. “Fyrst hann getur þetta þá hlýt ég nú fjandakornið að geta það líka,” hugsaði ég og fór í gang.
Öfgar sem eru þess virði
Þetta er öfgafullt, en það er líka öfga leiðinlegt að vera þreytt þegar maður á ekki að vera það. Svo ég ákvað að fara að fordæmi mannsins og taka úr mataræðinu allt sem getur truflað; mat sem inniheldur glútein, sterkju, sykur og laktósa. Vissulega framandi orð og furðuleg fræði en meðalgreint fólk ætti að fara létt með þetta, enda snýst þetta bara um að velja rétt.
Ég ákvað að hugsa sem minnst um það sem mætti ekki borða heldur bara það sem má borða. Og það er fullt í raun og veru.
Þetta er í sjálfu sér ekki ósvipað hinu vinsæla paleo mataræði nema bara færri tegundir af mat sem maður borðar. Ef ég er í vafa um eitthvað þá gúggla ég það bara en það er fínn listi hér af mat sem hægt er að borða á þessu tímabili. Svo er það bara spurning hvað maður er duglegur að vera skapandi í framreiðslu.
Tveir dagar!
Það var eins og við manninn mælt, ekki liðu nema tveir dagar þar til ég sprangaði fram úr rúminu á morgnanna og fannst ég fílefld að þrótti.
Ég hef aldrei á jafn skömmum tíma heyrt oft hvað ég líti nú vel út og mér líður frábærlega. Kviðurinn er rennisléttur en ekki þaninn eins og á dönskum bjórkarli og húðin er slétt og fín. Það er magnað hvað mataræðið hefur mikil áhrif.
Ég ætla auðvitað ekki að gera þetta að eilífu enda er allt best í hófi og það er ekkert fjör að vera félagsskítur með súperfurðulegar þarfir. Maður getur fínstillt þetta og svo er auðvitað sumt verra fyrir mig en annað. Súkkulaði er t.d. betra en bolli af latte eða ís (laktósi), svo gæti það verið öðruvísi með þig.
Ef það hringir bjöllum hjá þér að vera þreytt og þrútin þá skora ég á þig að taka á þessu í nokkra daga.
Mitt markmið er 2 vikur til að byrja með. Svo mun ég bæta smátt og smátt inn og vega og meta hvernig maturinn fer í mig.
Kínóa klattar
Ég prófa mig svo áfram með nýjungar í mataræðinu og dreg lærdóm af.
Nú eldaði ég t.d. kínóa og chiagraut í fyrsta sinn og gerði svo úr þessu klattana sem þú sérð á myndinni að ofan. Mjög góða. Svona er aðferðin…
Fyrst gerirðu grautinn sem er bolli af kínóa á móti 3 bollum af vatni (eða laktósalausri mjólk) og matskeið af chia. Þú eldar þetta eins og hafragraut og setur smá salt og kanil út í ásamt örlítilli steviu til að sæta.
Restin af grautnum fer inn í ísskáp en næsta dag geturðu bætt í hann 2 eggjum og hrært saman með örlítilli mjólk. Ef þú átt kókos eða möndlumjöl er gott að nota desilíter af því á móti. Eða glúteinlaust haframjöl. Svo steikirðu þetta upp úr kókosolíu á heitri pönnu. Mjög ljúffengt og fyrirtaks nesti yfir daginn!
Mér þætti mjög gaman að heyra frá einhverjum sem hafa prófað svona mataræðistilraunir í kommenti við þessa færslu inni á Facebook síðu Pjattrófanna.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.